Að keyra hart – eða hratt

Í innleggi hér í morgun var nefnt sambandið keyra hart sem málshefjandi, sem er frá Siglufirði, sagðist hafa alist upp við. Ég segi það sama – ég ólst upp við þetta í Skagafirði og í umræðum um þetta nefndu fleiri Skagfirðingar að þeir hefðu vanist því að nota atviksorðið hart í þessari merkingu. En einhvern tíma heyrði ég, væntanlega annaðhvort í skóla eða í þættinum „Daglegt mál“ í útvarpinu, að þetta væri rangt – hart væri af lýsingarorðinu harður en þarna ætti að nota atviksorðið hratt, af lýsingarorðinu hraður, sbr. líka nafnorði hraði. Á þessum tíma var ég mikill málvöndunarmaður og tók þetta því alvarlega og hef síðan forðast að keyra hart. Athugasemdir í blöðum sýna að amast hefur verið við notkun orðsins hart í þessari merkingu.

Þannig segir t.d. í dálknum „Þankabrot Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1955: „„Hlauptu harðara“ var algengt að heyra sagt í ungdæmi mínu, þegar hvetja þurfti unglinga til að flýta sér, m.ö.o. auka „hraðann“. Orðunum „hart“ og „hratt“ var mjög ruglað saman. Nú vita menn, að „harður“ og „hraður“ er ekki hið sama.“ Í Vikunni 1962 kvartar „Særð móðir“ yfir lestrarbók frá Ríkisútgáfu námsbóka þar sem er „sagt að menn hlaupi hart, bílar aki hart, hlutir snúizt hart í hring o.s.frv. Þar er einnig sagt frá því að grjót sé hart viðkomu og aðrir harðir hlutir. Það er langt síðan ég kenndi börnunum mínum að þau hlypu aldrei hart, heldur hratt, og þóttist vel hafa gert, þegar þau vöndu sig á að gera greinarmun á þessum tveim orðum.“

Gísli Jónsson virðist ekki hafa verið andstæðingur þess að nota hart í merkingunni 'hratt' ef marka má eftirfarandi tilvitnun: „Þá hafa menn fyrir satt að hraður sé að uppruna sama og harður, enda fyrir löngu ýmist talað um að ríða hratt eða hart. í Njálu segir Skammkell: „Hart ríðið þér, sveinar,“ í för þeirra félaga að Hlíðarenda.“ Jón G. Friðjónsson nefnir dæmi um ríða hart í Vatnsdælu þar sem hart merkir 'harkalega; á miklum hraða' og telur „að hvort tveggja sé rétt: ríða hart og ríða hratt. Fyrra afbrigðið á sér stoð í fornu máli og styðst við málvenju en vera má að merkingin í fornu máli sé ekki alveg sú sama og í nútímamáli. Síðara afbrigðið á sér ýmsar hliðstæður í fornu máli og fellur vel að merkingu lýsingarorðsins hraður.“

Merkingin 'hurtigt' í hart er gefin athugasemdalaust í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og af dæmum á tímarit.is um sambönd eins og aka hart, fara hart, keyra hart og ríða hart má ráða að notkun hart í merkingunni 'hratt' hefur verið mjög algeng á fyrri hluta 20. aldar. Í Íslenskri orðabók er sambandið ríða hratt gefið með skýringunni 'mjög hratt'. Notkun hart í þessari merkingu fór minnkandi um og eftir miðja öldina, væntanlega vegna þess að barist hefur verið gegn henni – í Íslenskri nútímamálsorðabók er merkingin 'hratt' gefin með dæminu hann ók mjög hratt en þetta er sagt „gamalt“, og nær engin dæmi eru um hart í þessari merkingu í Risamálheildinni. En það er samt enginn vafi á því að hart í merkingunni 'hratt' er rétt mál.