Brast hann eða honum hæfi?

Nýlega var hér vísað til umræðu um blaðafrétt þar sem sagði í myndatexta „Bjarni Benediktsson segir af sér sem fjármálaráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis um að honum hafi brostið hæfi við söluna á hlut ríkisins“ og í fréttinni sjálfri sagði að Bjarni væri „miður sín að hafa séð þá niðurstöðu að sér hafi brostið hæfi í söluferlinu.“ Þetta vildu sumir þátttakendur í umræðunni kalla dæmigerða „þágufallssýki“, og í Málfarsbankanum segir vissulega: „Sögnin bresta getur verið ópersónuleg og stendur þá með henni frumlag í þolfalli. Hana brestur kjark.“ Ég fór að hugsa um þetta aftur eftir fyrirspurn sem kom hér í gær og þegar ég skoðaði málið komst ég að því að þetta er fjarri því að vera svo einfalt að hægt sé að afgreiða það sem „þágufallssýki“.

Jón G. Friðjónsson nefnir fjögur mismunandi fallamynstur frumlags og andlags þegar sögnin bresta er notuð með aukafallsfrumlagi. Tvö þeirra skipta máli hér: þolfall + bresta + þolfall, eins og mig brestur þekkingu, og þágufall + bresta + nefnifall. Um það mynstur nefnir Jón dæmi úr fornu máli: „en þó brestur þeim stundum vísdómurinn, þá er þeim liggur mest við“ úr Göngu-Hrólfs sögu, og „öngvan tíma brestur honum sín regla“ og „takandi það ráð er þeim hafði aldrei brostið“ úr Nikuláss sögu erkibiskups, handriti frá 1375-1400. Jón segir dæmi af þessari gerð „úrelt enda eru slík dæmi nánast eingöngu kunn í fornu máli“ og bætir við: „Rétt er að taka það fram að dæmi af [þessari] gerð eru óskyld því sem kallað er þgf.-sýki eða þágufallshneigð.“

Þar er væntanlega vísað til dæma eins og mér brestur kjarkur sem eru algeng í nútímamáli og hafa verið a.m.k. undanfarna öld – „þeim brast vit og kjarkur til að greiða atkvæði með vantraustsyfirlýsingu Sigurðar prests Stefánssonar“ segir t.d. í Íslendingi 1918 og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er tekið dæmiðe-n (sj. e-m) brestur e-ð“. Hér stendur „sj.“ fyrir „sjældent“ sem sýnir að þágufallið hefur verið þekkt, og er gefið athugasemdalaust. Jón útskýrir ekki hvers vegna hann segir slík dæmi óskyld fornmálsdæmum með sama fallamynstur en það er trúlega vegna þess að hann telur merkinguna ekki þá sömu. Í fornmálsdæmunum er merkingin 'bregðast, svíkja' eða eitthvað slíkt en í nútímamáli oftast ‚'vanta (e-ð), skorta (e-ð)'.

Vitanlega er það algengt að mismunandi merkingartilbrigðum sagna fylgi mismunandi föll. Þannig tekur bresta t.d. nefnifallsfrumlag í merkingunni 'brotna, slitna, gefa sig'. En í þessu tilviki er munurinn á 'vanta, skorta' og 'bregðast, svíkja' oft óljós. Hvað merkir t.d. að bresta minni? Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Fram kom einnig í máli sumra stjórnarmanna að þá brast minni varðandi einstaka þætti málsins“ og í Morgunblaðinu 2003 segir: „Oft var það að þegar mér brast minni ef rifja þurfti upp gamalt vísubrot.“ Merkir þetta að minnið hafi skort eða það hafi brugðist á ögurstundu? Í fyrra tilvikinu væri eðlilegt að segja mig brast minni samkvæmt framansögðu, en í því seinna væri mér brast minni eðlilegt – og alls engin „þágufallssýki“.

Orðið kjarkur er sérlega áhugavert í þessu sambandi vegna þess að fallmyndir þess eru ólíkar. Þegar það fær þágufallsfrumlag kemur andlagið nefnilega oftast fram í nefnifalli í stað þolfalls. Þetta má sjá á tveimur dæmum úr Morgunblaðinu 2003: „stjórnmálamenn brestur kjarkinn og þora ekki að framfylgja settum lögum og reglum“ og „mönnum bresti kjarkurinn til að afmarka raunveruleg viðfangsefni“. Í fyrra dæminu er þolfall + bresta + þolfall, í því seinna þágufall + bresta + nefnifall. Hliðstætt gerist aldrei með sögnina vanta sem einnig hefur mynstrið þolfall + vanta + þolfall – við fáum aldrei *mér vantar matur eða neitt slíkt. Þetta bendir til þess að í bresta sé um að ræða færslu úr einu fallamynstri í annað, frekar en „þágufallssýki“.

Vissulega er ekki ótrúlegt að hin alþekkta þágufallshneigð sem kemur fram með ýmsum sögnum eins og vanta, langa, dreyma, hlakka til o.fl. hafi þarna einhver áhrif og ýti undir notkun þágufalls með bresta, enda kemur fyrir að frumlagsfall eitt breytist, ekki andlagsfall – á Eyjunni 2012 segir að „Þorvaldi hafi brostið kjark“. En það breytir því ekki að mynstrið þágufall + bresta + nefnifall er gamalt í málinu og fullkomlega eðlilegt frá merkingarlegu sjónarmiði þegar um er að ræða eitthvað sem getur brugðist við tilteknar aðstæður, svo sem minni, þor, kjarkur o.fl. Svo má velta fyrir sér hver merkingin sé í dæmunum sem vitnað var til í upphafi – hvað merkir það að bresta hæfi? Merkir það að hæfið skorti, eða það hafi brugðist í tilteknu máli?