Hvernig aukum við íslenskan orðaforða unglinga?

Í framhaldi af viðtali við Þorgrím Þráinsson á Bylgjunni fyrir viku hafa orðið miklar umræður um orðaforða barna og unglinga sem fer minnkandi að margra mati. Þar skiptir þó viðmiðið öllu máli. Ég sé enga ástæðu til að efast um að þetta sé rétt út frá eðlilegu viðmiði okkar flestra, sem er okkar eigin orðaforði. Þegar yngra fólk kann ekki einhver orð sem við kunnum og teljum almennt mál drögum við þá ályktun að orðaforði unga fólksins sé minni en okkar. Að einhverju leyti er þetta auðvitað eðlilegt og óhjákvæmilegt. Þjóðfélagið breytist hratt og ný hugtök og fyrirbæri koma til en önnur verða úrelt á móti. Þessu fylgir breyttur orðaforði og ekkert við því að segja þótt eðlilegt sé að við sem eldri erum sjáum eftir orðum sem við ólumst upp við.

En öðru máli gegnir þegar ensk orð koma í stað íslenskra um hugtök og fyrirbæri sem enn eru í fullri notkun í samfélaginu. Þorgrímur Þráinsson nefndi dæmi um að unglingar þekktu ekki orðið afgangur og töluðu um change-ið í staðinn og í viðtali við Lindu Björk Markúsardóttir í framhaldi af grein sem hún skrifaði fyrir átta árum nefndi hún að mörg íslensk börn þekktu ekki orðið blýantur og töluðu um pencil í staðinn. Það er enginn skortur á hliðstæðum dæmum og frá sjónarmiði íslenskunnar er þetta auðvitað áhyggjuefni, en það táknar samt ekki að orðaforði barnanna hafi minnkað, í þeim skilningi að þau eigi í einhverjum vandræðum með að tala um tiltekna hluti. Þetta bendir hins vegar til þess að tiltekin orð skorti í íslenskan orðaforða þeirra.

Sumum finnst væntanlega að íslenski orðaforðinn sé það eina sem skipti máli. En ef unga fólkið getur talað um tiltekin efni þótt það noti ensk orð en ekki íslensk sýnir það að hæpið er að nota orð eins og „fáfræði“, „vanþekking“ og önnur slík, hvað þá „heimska“, til að lýsa ástandinu. Ég gæti reyndar best trúað að íslenskir unglingar nú á dögum geti talað um fleiri og fjölbreyttari efni en jafnaldrar þeirra fyrir hálfri öld eða svo, en málumhverfi þeirra, einkum hið stafræna, veldur því að ensk orð eru oft nærtækari en þau íslensku. Það er ekki unglingunum að kenna. Og það er ekki heldur foreldrunum að kenna nema þá að litlu leyti. Það stafar af breytingum á samfélagi og tækni sem eru miklu meiri og hafa miklu víðtækari áhrif en við áttum okkur á.

Ef við viljum reyna að stöðva þessa þróun og snúa henni við þurfum við þess vegna að breyta málumhverfi barna og unglinga og hugsa máluppeldi þeirra upp á nýtt. Við þurfum að sjá til þess að þau kynnist sem flestum fyrirbærum og hugtökum í gegnum efni á íslensku, hvort sem það er fræðsluefni, afþreying, skemmtiefni eða annað. Með því móti stuðlum við að því að þau tileinki sér íslenskan orðaforða fremur en enskan – eða a.m.k. samhliða þeim enska. Vandinn er auðvitað sá að það er tilfinnanlegur skortur á fjölbreyttu efni á íslensku sem höfðar til barna og unglinga – þess vegna leita þau í efni á ensku. Þarna stendur upp á stjórnvöld að stórauka styrki til þess að framleiða hvers kyns íslenskt efni, og einnig til að þýða erlent efni á íslensku.

En það táknar auðvitað ekki að foreldrar og aðrir uppalendur séu stikkfrí. Þau þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum – átta sig á því að íslensku orðin lærast ekki af sjálfu sér, eins og þau gerðu kannski áður, heldur þarf að halda íslenskunni að börnunum. Hugsanlega þarf að takmarka sjónvarpsáhorf, skjátíma og símanotkun – ég hef ekki næga þekkingu til að hafa neina skoðun á því og hef almennt séð ekki mikla trú á að stýra máli og málnotkun með boðum og bönnum. Foreldrar geta hins vegar reynt að bjóða börnunum upp á efni á íslensku eins og kostur er, hvatt þau til að lesa bækur á íslensku og lesið fyrir þau. Aðalatriðið er þó að tala sem mest við börnin – bæði um hversdagslega hluti og um fjölbreytt efni sem þau hafa áhuga á.