Öll kvár í verkfalli

Flest vita væntanlega – og verða áþreifanlega vör við – að það er kvennaverkfall í dag eins og nokkrum sinnum áður undanfarna tæpa hálfa öld. En að þessu sinni eru það ekki bara konur sem leggja niður störf, heldur líka kvár. Það hefur leitt til þess að orðið kvár hefur verið mjög áberandi í fréttum að undanförnu, en borið hefur á því að fólk kannist ekki við orðið, átti sig ekki á merkingu þess, og kunni ekki með það að fara. Það er mjög eðlilegt – þetta er nýlegt orð sem hingað til hefur aðallega verið notað í tengslum við kynsegin samfélagið. Og það er ekki bara orðið sem er nýtt – merkingarmið þess er líka nýtt í huga langflestra málnotenda. Við erum flest alin upp við það að kynin séu bara tvö en þurfum nú að laga okkur að nýjum veruleika.

Orðið kvár vísar til fólks sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar, hvorki sem karl né konu. Orðið tengist engu sérstöku – er bara hljóðaröð sem var ónotuð í málinu. Það kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 árið 2020 en hafði áður eitthvað verið notað í kynsegin samfélaginu. Einnig komu fram orðin mágkvár og svilkvár sem nota má um kynsegin fólk sem hliðstæður við mágur / mágkona og svili / svilkona. Enn fremur var nefnt að hægt væri að nota -kvár sem seinni lið í samsetningum í stað -kona eða -maður. Í sömu keppni kom einnig fram orðið stálp (sbr. lýsingarorðið stálpaður) sem hliðstæða við strákur og stelpa. Vitanlega er eðlilegt að það taki tíma að venjast þessum orðum og fólk felli sig misvel við þau í byrjun.

Orðið kvár er hvorugkynsorð og því endingarlaust í nefnifalli og þolfalli fleirtölu eins og hvorugkynsorð eru jafnan – öll kvár eru í verkfalli, ég hitti mörg kvár, o.s.frv. En þótt flest orð með þessa stofngerð séu hvorugkyns – hár, tár, sár, ár o.fl. – segir stofngerðin ekki ótvírætt til um kynið því að -ár er líka til í karlkynsorðum (klár) og kvenkynsorðum (ár). Þetta stuðlar að því að fólk sem er óvant orðinu gefur því stundum endingar í föllum sem eiga að vera endingarlaus og segir t.d. kvárar í nefnifalli fleirtölu og kvára í þolfalli. Þetta er í sjálfu sér ánægjulegt því að það sýnir hversu sterkt beygingarkerfið er í okkur – málkenndinni finnst að þarna eigi að vera ending því að vissulega er langalgengast að orð fái endingar í þessum föllum.

En þarna á sem sé ekki að vera nein ending frekar en í öðrum hvorugkynsorðum, þótt eðlilegt sé að fólk sem er óvant orðinu geri mistök í meðferð þess. Undanfarna daga hef ég tvisvar orðið var við aðra beygingu orðsins í Ríkisútvarpinu og sent ábendingar um það, og í bæði skiptin var brugðist vel við og beygingin leiðrétt umsvifalaust. Þegar við venjumst orðinu venjumst við líka endingarleysinu í nefnifalli og þolfalli fleirtölu og það hættir að trufla málkenndina, rétt eins og endingarleysið í mörg hár / sár / tár / ár truflar okkur ekki neitt. Mikil notkun orðsins í tengslum við verkfall kvenna og kvára leiðir væntanlega til þess að almennir málnotendur læra orðið og átta sig á merkingu þess og beygingu. Það er gott, því að þetta er mikilvægt orð.