Var íslenskan fullkomin um 1950?

Um daginn rakst ég á grein með titlinum „Nýja Fjölnismenn“ í Fréttablaðinu 2010. Þar segir: „Undir lok átjándu aldar var íslenzkan orðin mjög lúin og dönskuskotin, þótt fólk í sveitum landsins hafi eflaust ennþá kunnað gamla góða málið. Að frumkvæði danska málfræðingsins Rasmusar Rasks hófu Fjölnismenn, með skáldið Jónas Hallgrímsson í farabroddi, að hreinsa málið og tókst að endurreisa það, svo að næstu hundrað árin eða fram yfir 1950 var hér töluð góð íslenzka.“ Eftir það hefur málinu farið hnignandi að mati greinarhöfundar sem spyr: „Hverjum er um að kenna, að málið er á leið til fjandans“? og er sannarlega ekki einn um þá skoðun eins og sjá má í Málvöndunarþættinum á Facebook,  athugasemdadálkum vefmiðla o.v.

En af málfarsumræðu í íslenskum blöðum á árunum kringum 1950 verður sannarlega ekki dregin sú ályktun að þá hafi verið töluð góð íslenska á Íslandi. Þvert á móti – sjaldan hefur eins mikið verið skrifað um hvers kyns „málvillur“ sem vaði uppi og á þessum tíma. Hér voru nýlega tekin nokkur dæmi frá fimmta og sjötta áratugnum um fordæmingu „þágufallssýki“ og ótal önnur dæmi mætti taka. En það er athyglisvert að við flestar þær „málvillur“ sem voru komnar fram og orðnar útbreiddar fyrir 1950 er verið að gera athugasemdir enn í dag. Það er táknrænt að 1950 er einmitt dánarár Björns Guðfinnssonar prófessors sem í huga margra er holdgervingur rétts máls. Það er eins og umræðan hafi staðnað við lát hans og málstaðallinn steingerst.

Árið 1986 var í fyrsta sinn sett fram skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“, í álitsgerð sérstakrar nefndar sem menntamálaráðherra skipaði. Þar segir: „Nauðsynlegt er að átta sig vel á því að rétt mál er það sem er í samræmi við mál­venju, rangt er það sem brýtur í bága við mál­venju.“ Árið 2002 svaraði Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor spurningunni „Hvað er rétt og hvað er rangt í máli“ á svipaðan hátt á Vísindavef Háskóla Íslands: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Ari Páll var á þessum tíma forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar og því má segja að þetta komist eins nálægt því og verða má að vera opinber skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“.

Samt er enn verið að amast við sömu atriðunum og um 1950 og telja þau ýmist röng eða óæskileg – í Málfarsbankanum, í Handbók um íslensku, í málfarspistlum í fjölmiðlum, í Facebookhópum, í kennslubókum, í samræmdum prófum (meðan þau tíðkuðust) og víðar. Þetta eru atriði eins og „þágufallssýki“, hendi eða hend í stað hönd, vera ofan í í stað vera niðri í, þora því í stað þora það, keyra mér í stað keyra mig, hæðst og stæðst í stað hæst og stærst, föðurs í stað föður, forða slysi í stað forða frá slysi eða forðast slys, þaga í hel í stað þegja í hel, á og í stað æja og heyja, og ótalmörg önnur. Allt eru þetta þó tilbrigði sem voru komin fram fyrir 1950 og eru ótvírætt rétt mál samkvæmt skilgreiningunni sem vísað er í hér að framan.

Í grein í Ritinu 2013 segir Höskuldur Þráinsson prófessor frá námskeiði sem hann var með við Háskóla Íslands vorið 2012 og hét „Eru málvillur rétt mál.“ Þar fengu nemendur „það verkefni að skoða hvort einhver þeirra atriða sem menn hefðu fundið að í blöðum og tímaritum snemma á síðustu öld virtust hafa liðið undir lok, horfið úr málinu eða hörfað umtalsvert þegar leið á öldina eða í upphafi þessarar. Þar er skemmst frá að segja að yfirleitt var ekki hægt að finna nein dæmi um slíkan árangur. […] Í aðalatriðum virtust menn sem sé vera að hjakka ár eftir ár og áratug eftir áratug í sömu atriðunum í þessum málfarsathugasemdum, m.a. í þágufallssýkinni alræmdu. Það bendir til þess að árangurinn hafi ekki orðið mjög mikill.“

Málfarsumræða á þessum nótum er ótrúlega ófrjó og gagnslítil og sannarlega ekki til þess fallin að efla áhuga ungs fólks á íslenskunni. En ekki nóg með það – hún getur beinlínis gert skaða. Höskuldur segir: „Leiðrétting á stöku atriði sem styðst við reglu í máli þess sem í hlut á getur gert hann óöruggan, valdið því að hann hættir að treysta málkennd sinni og jafnvel eyðilagt regluna í máli hans og þannig í raun valdið málspjöllum.“ Við þurfum að hætta að amast við tilbrigðum sem komu upp fyrir mörgum áratugum, hafa náð til verulegs hluta þjóðarinnar og eru ótvírætt „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu – við þurfum að þora að viðurkenna þessi tilbrigði sem góða og gilda íslensku. Íslenskan má nefnilega vera alls konar.