Fokk feðraveldi!

Í dag hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um kjörorðið „Fokk feðraveldi“ sem var áberandi í kvenna- og kváraverkfallinu í gær. Í „Bítinu“ á Bylgjunni í morgun lýsti þáttastjórnandi óánægju með notkun þess og taldi „slíkt orðbragð ekki vera sæmandi“. Það er líklega einkum notkun orðsins fokk sem sumum finnst ósmekkleg þótt ég hafi líka séð athugasemdir við notkun orðsins feðraveldi, t.d. í eftirfarandi Facebookfærslu: „Þegar ég sá skiltið "Fokk feðraveldið" þá ákvað ég að sitja heima. Ég get ekki tekið undir þessi skilaboð, því ég skil þetta ekki. Ég vil að við breytum samfélaginu saman. Feður eru nauðsynlegir.“ En eins og mörg hafa bent á er þetta misskilningur á orðinu feðraveldi.

Orðið feðraveldi er meira en hundrað ára gamalt í málinu. Á tímarit.is eru 1400 dæmi um það, hið elsta frá 1911, og það er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – þýtt „Patriarkat“. Í grein eftir Guðmund Sveinsson í Samvinnunni 1962 segir: „Víðast hvar náðu karlmenn þó snemma forystunni og upphófst „feðraveldi“ svokallað „patríarkí“, og hefur haldizt allt fram til þessa dags.“ Í grein eftir Helgu Sigurjónsdóttur í DV 1982 segir: „Orðið pater, sem partriarkat er myndað af, er latneskt og merkir faðir og því er réttasta þýðingin á orðinu feðraveldi. Það er einnig sá skilningur sem lengst af var lagður í hugtakið og ekki að ófyrirsynju þar sem hin forna skipan var veldi „feðra“ nánast í orðsins fyllstu merkingu.“

Sumum finnst ótækt að nota orðið fokk vegna tengsla við enska orðið fuck sem vissulega þykir mjög dónalegt í upprunamálinu, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið fokk gefið sem 'upphrópun sem táknar vanþóknun eða reiði' og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál, gróft“. Þess er þó að gæta að nafnorðið fokk ('lítilfjörlegt dútl') og sögnin fokka ('gaufa, dunda') eru gömul íslensk orð og þótt upphrópunin fokk eigi án efa rætur í fuck gætu eldri orðin hafa haft áhrif á hana og e.t.v. mildað merkinguna. Hvað sem því líður er ljóst að fokk hefur verið notað sem upphrópun eða blótsyrði í íslensku frá því á áttunda áratug síðustu aldar eins og kemur fram í BA-ritgerð Einars Lövdahl Gunnlaugssonar og grein Veturliða Óskarssonar.

Í slangurorðakönnun verkefnisins „Íslenskt unglingamál“ kom í ljósfokk (og orð leidd af því) var mjög algengt orð meðal unglinga og notkun þess var mjög fjölbreytt – stundum gegndi það „hlutverki upphrópunar, rétt eins og t.d. eða úff“, og stundum var það „e.k. áhersluliður líkt og mega eða ýkt.“ Því fer sem sé fjarri að orðið sé alltaf notað sem gróft blótsyrði í íslensku – „Ljóst er að merkingarsvið þess er afar vítt og skýringin sem einn þátttakandi slangurorðakönnunarinnar skrifaði, virðist raunar býsna lýsandi: FOKK er notað alla daga alltaf það er hægt að nota það fyrir allt og ekkert.“ UN Women hefur notað kjörorðið „Fokk ofbeldi“ síðan 2015. „Fokk feðraveldi“ er hliðstætt – en auðvitað er þetta spurning um smekk.