Feðraveldi og karl(a)veldi

Hér hefur orðið mikil umræða um orðið feðraveldi og merkingu þess. Í þeirri umræðu skiptir máli að hafa í huga að feðraveldi er í raun og veru íðorð sem vísar til ákveðins hugtaks sem á ensku heitir patriarchy og er skýrt 'a society in which the oldest male is the leader of the family, or a society controlled by men in which they use their power to their own advantage'. Það er komin meira en hundrað ára hefð á notkun orðsins feðraveldi yfir þetta hugtak – það var notað þegar í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 sem samsvörun við danska orðið patriarkat sem er skýrt 'form for samfundsmæssig organisation hvor magtudøvelsen ligger hos faderen som familiens eller klanens overhoved, og hvor arv og slægtskab regnes efter mandslinjen'.

Ljóst er að orðið er oft notað í neikvæðu samhengi og sumum fannst sneitt ómaklega að feðrum með notkun þess og töldu betra að nota orðið karl(a)veldi í staðinn. En orðin merkja ekki endilega það sama þótt vissulega sé skörun milli þeirra. Fyrrnefnda orðið er skýrt 'samfélagsform þar sem faðirinn fer með völdin og er höfuð fjölskyldunnar eða ættarinnar' í Íslenskri nútímamálsorðabók en það síðara 'fyrirkomulag þar sem karlmenn eru í helstu valdastöðum'. Í safninu „Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði“ í Íðorðabankanum er feðraveldi skilgreint svo: „(1) samfélagshættir þar sem ættfaðirinn ræður mestu í samfélaginu (gamalt); (2) rótgrónar formgerðir í samfélögum sem byggjast á yfirburðum karla og undirokun kvenna.“

Þarna er sem sé verið að segja að merking orðsins hafi hnikast til – það vísar ekki lengur bókstaflega til (ætt)feðra eins og það gerði, heldur til sambærilegrar þjóðfélagsskipunar. Það eru auðvitað ótal dæmi um það í málinu að merking samsettra orða sé ekki summa eða fall af merkingu orðhlutanna þótt hún hafi verið það í upphafi. Ég hef skrifað um nokkur slík dæmi, eins og eldhús, örvhent, brúðkaup o.fl. Þarna er alltaf hætta á að hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar trufli okkur eða villi um fyrir okkur, en eins og ég hef oft sagt finnst mér yfirleitt mjög hæpið að hrófla við orðum sem hafa unnið sér hefð, jafnvel þótt þau merki eitthvað annað en þau líta út fyrir að merkja í fljótu bragði. Við þurfum að horfa á heildina, ekki orðhlutana.

Á tímarit.is má sjá að orðin karlveldi sem birtist fyrst 1952 og karlaveldi sem birtist fyrst 1966 voru mikið notuð á árunum 1980-1990 en síðan þá hefur verulega dregið úr notkun þeirra. Aftur á móti hefur notkun orðsins feðraveldi sem birtist fyrst 1911 aukist mikið á þessari öld. Svo getur fólk deilt um það hvort hér ríki feðraveldi eða karlaveldi – eða hvort tveggja – en sú umræða á ekki erindi í þennan hóp. Það sem skiptir máli er til hvaða hugtaks verið er að vísa með orðinu feðraveldi og tæpast leikur vafi á því að verið er að vísa til þess sem lýst er í skilgreiningunni úr „Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði“. Þar sem feðraveldi er skilgreint íðorð sem samsvarar erlendum orðum um sama hugtak finnst mér eðlilegt að halda sig við það.