Óhagnaðardrifin fyrirtæki

Í fyrradag var hér gerð athugasemd við það þegar talað er um „óhagnaðardrifin fyrirtæki“ sem er þýðing á non-profit companies í ensku. Málshefjanda fannst orðalagið „kauðskt“ og taldi að íslenskan hlyti „að luma á einhverju gáfulegra“. Fleiri eru sömu skoðunar – gerðar hafa verið athugasemdir við orðið í Málvöndunarþættinum og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á Twitter 2018: „Ég veit hvað hagnaður er. Ég veit hvað tap er. Hef heyrt orðið óhugnaður en óhagnaður og óhagnaðardrifin starfsemi eru orðskrípi.“ Í Fréttablaðinu 2018 sagði Óttar Guðmundsson: „Þetta er skemmtilegt nýyrði þar sem forskeytinu ó er ætlað að umbreyta merkingu orðsins. Óhagnaður er þó ekki skilgreindur sem tap heldur sem enginn gróði.“

Reyndar er orðið óhagnaður ekki nýyrði heldur gamalt orð í málinu í merkingunni 'óhagur, óþægindi', og var töluvert notað í þeirri merkingu á seinni hluta 19. aldar og framan af þeirri 20. „Það mundi því verða stór óhagnaður, að synja þurfalingum gersamlega um tóbak“ segir t.d. í Ísafold 1905. En orðið virðist vera horfið úr málinu í þessari merkingu og það liggur ekki til grundvallar samsetningunni óhagnaðardrifinn, heldur hefur neitunarforskeytinu ó- þar verið bætt framan við orðið hagnaðardrifinn sem var fyrir í málinu þótt það væri ekki algengt. Elsta dæmi um það orð er í Morgunblaðinu 1996 þar sem segir „Markaðurinn virðist vera töluvert „hagnaðardrifinn““ – gæsalappirnar benda til þess að orðið hafi verið lítt þekkt á þeim tíma.

Elsta dæmi um óhagnaðardrifinn er frá 2012, í bloggi Þórðar Björns Sigurðssonar sem birtist undir hatti DV: „Hvernig væri […] að horfa frekar til þess möguleika að hið opinbera gangist fyrir því að sett verði á fót óhagnaðardrifin leigufélög, að norrænni fyrirmynd, sem haldi utan um og sýsli með þessar eignir?“ Þórður Björn var framámaður í stjórnmálasamtökunum Dögun á þessum tíma og vera má að hann sé höfundur orðsins – a.m.k. er athyglisvert að öll dæmi um orðið í fjölmiðlum fyrir 2017 (um 20 talsins) virðast vera runnin frá stuðningsfólki Dögunar. En árin 2017 og 2018 varð skyndilega gífurleg aukning í notkun orðsins og í Risamálheildinni eru nú hátt í 900 dæmi um það frá síðustu fimm árum – á tímarit.is eru dæmin um 130.

Sumum finnst þessi samsetning óeðlileg þar sem ekki sé ljóst hverju sé verið að neita með neitunarforskeytinu ó- eins og kemur fram í tilvitnuðum orðum Bjarna og Óttars hér að framan. Það er vitanlega ekkert einsdæmi að neitunarforskeytið neiti orðinu í heild eins og í þessu tilviki, en ekki bara fyrsta lið þess. Orðið óraunhæfur er t.d. ekki myndað með því að taka nafnorðið óraun (sem kemur fyrir í Heimsljósi Halldórs Laxness) og bæta -hæfur við það, heldur með því að bæta ó- framan við raunhæfur. Orðið óhagnaðardrifinn er myndunarlega hliðstætt, en vegna þess hversu langt það er slitnar það dálítið sundur í framburði og verður óhagnaðar-drifinn. Það getur stuðlað að því að forskeytið ó- sé skynjað þannig að það eigi eingöngu við fyrri hlutann.

Fjármálaráðherra skrifaði á Twitter 2018: „Alltaf fundist þetta vera orðskrípi. Finnst það enn og hef ekki verið að nota það.“ Orðið var samt notað í greinargerð með frumvarpi sem hann lagði fram á Alþingi 2020, og er komið inn í lög. Vissulega má taka undir að óhagnaðardrifinn sé ekki mjög lipurt og að sumu leyti óheppilegt orð. En nú er það komið í notkun og orðið mjög algengt. Eins og ég hef oft sagt finnst mér yfirleitt mjög hæpið að hrófla við orðum sem eru komin í verulega notkun, enda þótt hægt hefði verið að hugsa sér betri orð. Ég er a.m.k. farinn að venjast þessu orði og það er rétt myndað eins og áður segir. En auðvitað þarf ekki alltaf eitt nafnorð – það væri líka mjög oft hægt að tala um fyrirtæki sem er ekki rekið í hagnaðarskyni.