Að slá nýtt met – eða slá gamla metið
Fyrir rúmum tveimur árum var orðasambandið slá met hér nokkuð til umræðu. Það er væntanlega komið úr dönsku, slå en rekord, og virðist vera u.þ.b. hundrað ára gamalt í íslensku. Þrátt fyrir það er varla hægt að segja að það hafi komist inn í orðabækur – það er hvorki undir sögninni slá í Íslenskri orðabók né Íslenskri nútímamálsorðabók. Í fyrrnefndu bókinni má hins vegar finna dæmið „slá met þ.e. ná betri árangri“ undir met, og í þeirri síðarnefndu er sambandið slá metið skýringarlaust undir met. En þótt merking sambandsins, 'gera betur en áður hefur verið gert', sé skýr, er það notað á tvo mismunandi vegu. Orðið met vísar nefnilega ýmist til þess árangurs sem verið er að lýsa eða til þess árangurs sem áður hafði bestur náðst.
Elsta dæmi sem ég finn um sambandið er í Morgunblaðinu 1922: „þar hleypur Guðjón Júlíusson, sem slær met hvar sem hann hleypur og meira að segja Jóns Kaldals.“ Í Vísi 1930 segir: „En auk betra veðurfars, betri brauta, betri tækja og betri kenslu, hafa enskir íþróttamenn svo miklu fleiri tækifæri til að ,,slá“ met en íslenskir íþróttamenn.“ Í Alþýðublaðinu 1930 segir: „Að vísu er nú búið að „slá“ met Marinós, og var það gert af Þorsteini Einarssyni.“ Eins og þarna sést var „slá“ stundum haft innan gæsalappa fyrstu árin sem bendir til þess að þessi málnotkun hafi ekki verið alveg viðurkennd. En af dæmunum má ráða að sambandið var þegar í upphafi notað á tvo mismunandi vegu. Þetta kemur greinilega fram þegar lýsingarorð fylgir.
Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Þess má geta að umferð um Hvalfjarðargöng sló nýtt met á árinu 2015 en fyrra metið var frá árinu 2007“. Metið sem var slegið er þarna augljóslega nýja metið, ekki metið frá 2007. En í DV 1991 segir: „Bandaríska sveitin hljóp á 37,67 sek. og sló gamla metið sem var 37,79 sek.“ Þarna er metið sem sagt er að hafi verið slegið ekki nýja metið heldur það gamla. Það er vel hægt að víxla því til hvors metsins er vísað með slá met í þessum setningum – vísa til þess gamla með Þess má geta að umferð um Hvalfjarðargöng var meiri en nokkru sinni áður á árinu 2015 og sló gamla metið frá árinu 2007 en vísa til þess nýja með Bandaríska sveitin sló nýtt met og hljóp á 37,67 sek. en gamla metið var 37,79 sek.
Þannig virðist þetta hafa verið alla tíð frá því að farið var að nota þetta samband í íslensku – það hefur alltaf getað vísað ýmist til metsins sem verið var að setja eða eldra mets, og þannig er það enn. Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Árið 2011 var slegið met í áheitasöfnun þegar söfnuðust 43.654.858 kr.“ og í Fréttablaðinu 2021 segir: „Hana vantaði bara nokkra daga til að slá met Helmut Kohl.“ Ég held reyndar að sama gildi um slå en rekord í dönsku hvort sem „tvískinnungur“ sambandsins í íslensku er ættaður þaðan eða ekki. Hvort tveggja er algengt en líklega er vísun til eldra mets þó algengari, ekki síst vegna tíðni sambandanna slá öll met og slá öll fyrri met sem bæði eru gömul í málinu – þar er augljóst að vísað er til eldri meta.
Þótt vísun orðsins met í slá met sé óumdeilanlega mismunandi kemur í sama stað niður hvor merkingin er lögð í sambandið. Þegar þetta var til umræðu hér fyrir tveimur árum spurði ég hvort fólk gæti notað sambandið á báða vegu. Þau sem svöruðu sögðust geta það og ég held að þannig sé það líka með sjálfan mig. Hins vegar held ég að það sé útlokað að nota slá met í vísun til tveggja mismunandi meta í sömu setningu – það er ekki hægt að segja *Bandaríska sveitin sló nýtt met og hljóp á 37,67 sek. og sló þar með gamla metið sem var 37,79 sek. En hversu langt þarf að vera á milli veit ég ekki – væri hægt að nota sambandið á tvo mismunandi vegu í tveimur samliggjandi málsgreinum? Eða í sömu frétt? Því verður að vera ósvarað að sinni.