Albanir, Búlgarir, Japanir, Portúgalir

Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson: „Japani er í fleirtölu bæði Japanar og Japanir […]. Til samræmis við flest önnur þjóðaheiti og til að vinna á móti afskræmdum þjóðaheitum eins og „Albanir, Búlgarir, Portúgalir“ þótti hins vegar rétt að styðja fleirtölumyndina Japanar.“ Í Málfarsbankanum er fleirtala umræddra þjóðaheita sögð Albanar, Búlgarar, Portúgalar – og Japanar. Ekki er þó einhugur um þetta – þannig sagði Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1994: „Árni Böðvarsson telur að íbúi í Japan sé réttnefndur Japani og því sé rétt fleirtala Japanar. Umsjónarmaður á erfitt með að venja sig af fleirtölunni Japanir.“ Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er bæði gefið Albanar og Albanir, Japanir og Japanar, Portúgalar og Portúgalir.

Fleirtala umræddra orða hefur lengi verið á reiki og ótal dæmi má finna um að tvenns konar fleirtala sé notuð í sömu grein, jafnvel í samliggjandi málsgreinum. Í Rökkri 1944 segir: „þar hafa Japanir flotastöð mikla, og safnast þar saman skipalestir þær, sem Japanar senda til Suðvestur-Kyrrahafssvæðisins.“ Í Vísi 1940 segir: „Búlgarar óttast að svo muni ekki vera. Búlgarir óttast ekkert af Rússa hendi.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Sagði hann að margir Albanar hefðu tekið þátt í innrás Ítala í Grikkland […]. Hefðu Albanir síður en svo verið mótfallnir fasistum Mussolinis á þessu tímabili.“ Í Alþýðublaðinu 1972 segir: „Portúgalar læra af Bandaríkjamönnum. Þær aðferðir sem þeir nota í Indo-Kína taka Portúgalir upp í Afríku.“

Allar „röngu“ fleirtölumyndirnar eru gamlar og algengar þótt þær „réttu“ séu vissulega oftast eldri. Á tímarit.is er elsta dæmi um Búlgarar frá 1849 en um Búlgarir frá 1886; um Japanar frá 1860 en um Japanir frá 1896; og um Portúgalar frá 1872 en um Portúgalir frá 1931. Hins vegar er elsta dæmi um Albanir frá 1849, 30 árum eldra en Albanar frá 1878. „Réttu“ myndirnar Búlgarar og Portúgalar eru líka mun algengari en þær „röngu“ – 82% af heildarfjölda dæma um nefnifall fleirtölu í fyrrnefnda orðinu og 60% í því síðarnefnda. Hins vegar eru „réttu“ myndirnar Albanar og Japanar mun sjaldgæfari en þær „röngu“ – sú fyrrnefnda er aðeins um 33% af heildarfjölda dæma um nefnifall fleirtölu og sú síðarnefnda um 30%.

Veik karlkynsorð (sem enda á -i í nefnifalli eintölu) fá vissulega nær alltaf endinguna -ar í nefnifalli fleirtölu (að undanskildum orðum sem eru upphaflega lýsingarháttur nútíðar, eins og nemandi). Það getur því í fljótu bragði virst undarlegt að umrædd orð skuli hafa tilhneigingu til að hverfa frá endingunni -ar – en það á sér einfalda skýringu. Þrjú orð, Dani, Grikki og Ítali, „eiga“ nefnilega að fá -ir-endingu í fleirtölu – Danir, Grikkir, Ítalir. Þetta eru allt þjóðaheiti, rétt eins og orðin sem hér eru til umræðu. Engin önnur veik karlkynsorð sýna tilhneigingu til að fá -ir-endingu í fleirtölu þannig að það er nokkuð augljóst að málnotendur skynja þarna reglu sem þeir leitast við að fella önnur þjóðaheiti undir. Það er fullkomlega eðlilegt.

Ástæðan fyrir því að Dani og Grikki fá fleirtöluendinguna -ir í stað hinnar venjulegu -ar-endingar er væntanlega sú að í fornu máli voru þessi orð sterk, Danr og Grikkr sem hefði átt að verða Danur og Grikkur í nútímamáli. Eðlileg fleirtala orða með slíka stofngerð er einmitt Danir og Grikkir. En vegna þess að þessi orð eru af merkingarlegum ástæðum margfalt algengari í fleirtölu en eintölu hafa orðið til nýjar eintölumyndir út frá fleirtölunni – Dani og Grikki. Ítali er yngra orð sem væntanlega hefur lagað sig að þessu mynstri – eins og Albani, Búlgari, Japani og Portúgali hafa tilhneigingu til. Einnig kemur fyrir að tilhneigingin gangi í öfuga átt þótt það sé mun sjaldgæfara – slæðingur af dæmum er um bæði Grikkjar og Ítalar.

Ástæður þess að -ir-fleirtölumyndirnar Albanir, Búlgarir, Japanir og Portúgalir er taldar „rangar“ eru væntanlega annars vegar sú að -ar-myndirnar eru (oftast) eldri, og hins vegar að -ar-fleirtala er meginregla í veikum karlkynsorðum. En eins og hér hefur komið fram er -ir-fleirtala greinilega í samræmi við málkennd margra málnotenda. „Leiðréttingar“ sem vinna gegn málkennd fólks geta verið varasamar og skapað óöryggi og rugling eins og Höskuldur Þráinsson hefur sýnt fram á, og ekki kæmi á óvart þótt einhver þeirra dæma sem vitnað var til hér að framan stöfuðu einmitt af slíku. Hvað sem því líður er algerlega ástæðulaust að tala um -ir-myndirnar sem „afskræmd þjóðaheiti“ – notum þær endilega ef þær eru eðlilegt mál okkar.