Glatað ár
Fyrir réttu ári, 14. nóvember 2022, var haldið málþing í Veröld þar sem tilkynnt var um stofnun sérstakrar ráðherranefndar um íslenska tungu sem er „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.“ Í tilkynningu um nefndina segir einnig: „Forsætisráðherra, menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eiga fast sæti í ráðherranefndinni. Munu ráðuneyti þeirra hafa umsjón með skilgreindum áherslum sem verða útfærð í aðgerðaáætlun um íslenska tungu.“
Stofnun þessarar nefndar vakti miklar vonir um að ráðist yrði í átak til að efla og styrkja íslenskuna, en á því ári sem liðið er hefur lítið heyrst frá nefndinni. Í endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar síðan í janúar var gert ráð fyrir að „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ yrði lögð fram 27. mars en ekkert varð úr því. Vissulega voru Drög að aðgerðaáætlun sem „inniheldur 18 aðgerðir sem mótaðar eru í samstarfi fimm ráðuneyta en markmið þeirra er að forgangsraða verkefnum stjórnvalda þegar kemur að verndun og þróun tungumálsins“ sett í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun júní. Þessi drög eru ágæt svo langt sem þau ná en ýmislegt vantar í þau og þau ganga allt of skammt.
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir yfirstandandi þing er umrædd tillaga á dagskrá í október en hefur ekki verið lögð fram enn. Í frétt sem birtist í gær á vef Stjórnarráðsins segir að tillagan verði „brátt lögð fram á Alþingi“. Í ljósi þess að áður kynntar dagsetningar hafa ekki staðist er ástæða til að taka „brátt“ með fyrirvara (enda er jafnvel „strax“ teygjanlegt hugtak í stjórnmálum). En jafnvel þótt tillagan yrði lögð fram á næstu dögum eru engar líkur á að hún verði samþykkt fyrr en á vorþingi 2024. Þar með er titillinn „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ þegar úreltur. Það er vitanlega aukaatriði – aðalatriðið er að heilt ár er glatað. Ár sem hefði verið hægt að nýta til brýnna aðgerða í þágu íslenskunnar.
En vissulega hefur ákveðið undirbúningsstarf verið unnið. Í gær voru kynntar fimm úttektir á vegum samstarfshóps Félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins um framhaldsfræðslu, þar af þrjár sem varða íslensku – „Samfélög án aðgreiningar: Mat innflytjenda á eigin færni í Íslensku“, „Úttekt á gæðamálum íslenskukennslu fyrir fullorðið fólk með annað móðurmál en íslensku“ og „Fullorðinsfræðsla meðal innflytjenda. Greining á stefnu og rannsóknum“. Þetta er góðra gjalda vert en því miður er alltof algengt að skrifaðar séu úttektir og skýrslur og samdar stefnur sem síðan er ekkert fylgt eftir, eins og t.d. „Drög að stefnu: Menntun barna og ungmenna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn“ frá 2020 sem ekkert hefur verið gert með.
Það kostar nefnilega peninga að framfylgja fallegum og vel útfærðum stefnum, og þótt umrædd þingsályktun yrði samþykkt á vorþingi fylgir henni ekkert kostnaðarmat og engar fjárveitingar. Það sem verra er – engar horfur eru á að þær aðgerðir sem taldar eru upp í tillögunni verði fjármagnaðar. Í fjárlagafrumvarpi fyrir 2024 er ekki að finna neinar vísbendingar um aukið fé til að hrinda aðgerðaáætluninni í framkvæmd. Vissulega er eftir að samþykkja fjárlög og ekki loku fyrir það skotið að einhverju verði bætt við í lokaafgreiðslu þeirra þótt fjármálaáætlun næstu fimm ára gefi litlar vonir um slíkt. Það kostar marga milljarða að viðhalda íslenskunni sem aðalsamskiptamáli í landinu – en það eru samt smámunir miðað við það sem í húfi er.