Að hesthúsa og graðga í sig matinn – eða matnum

Sögnin hesthúsa er augljóslega mynduð beint af nafnorðinu hesthús frekar en með því að taka sögnina húsa og bæta hest- þar fyrir framan. Bókstafleg merking merking sagnarinnar er 'setja hest í hús' eins og kemur fram í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og um þá merkingu er venjulega notuð sögnin hýsa, ekki húsa. En elsta heimild um sögnina er orðasafn Hallgríms Scheving frá miðri 19. öld. Þar segir: „Hest-húsa pro koma miklu í sig, geta etið mikið.“ Þarna er sögnin notuð í yfirfærðri merkingu og skýrð 'borða (mikið)' í Íslenskri nútímamálsorðabók. En reyndar er sögnin líka notuð um að drekka – í Íslensk-danskri orðabók er tekið dæmið „hún mamma hesthúsar hann“ sem er notað um drykk (Brama-lífs-elexír) í bók frá 1895.

Ástæða þess að ég fór að skoða þessa sögn er sú að ég sá í Málvöndunarþættinum að gerð var athugasemd við sambandið „hesthúsa hamborgurum“ í fyrirsögn í DV. Málshefjandi taldi að þarna ætti fremur að vera þolfall, hesthúsa hamborgara, og vitnaði því til stuðnings í sagnir svipaðrar merkingar eins og borða, éta og snæða sem allar stýra þolfalli – við það mætti bæta gleypa, háma og e.t.v. fleiri sögnum. Það er vissulega rétt að í orðabókum eru aðeins sýnd dæmi um þolfall með hesthúsa, en fjölmörg dæmi um þágufall má þó finna. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Jazzblaðinu 1951: „Auðvitað tók ég til fótanna og náði Kristjáni um það leyti, sem hann var að leggja af stað heimleiðis, eftir að hafa hesthúsað þremur eða fjórum pylsum.“

Dæmum um þágufallið fer svo smátt og smátt fjölgandi, einkum eftir aldamót. Mér sýnist að í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar séu dæmin um þágufall öllu fleiri en um þolfall sem sýnir glöggt að þágufallið er í sókn. En jafnframt hefur merkingin víkkað eins og í „Ég á langt í land með að hesthúsa jólaflóðið þetta árið“ í Stundinni 2019. Sögnin getur líka stundum merkt 'landa' eða 'yfirtaka' eins og í Mannlífi 2021: „Í höndum einkaaðila geta þeir hesthúsað mikinn gróða með smávægilegum verðbreytingum,“ „Myndin hefur hesthúsað nánast öll verðlaun sem staðið hafa í boði til þessa“ í Morgunblaðinu 2009, „Gylfi að hesthúsa Íþróttamaður ársins með þessu marki“ á Twitter 2014, og „Sigurður Ingi að hesthúsa þessum þætti“ á Twitter 2017.

Önnur sögn svipaðrar merkingar er graðga 'háma í sig, éta græðgislega' sem Íslensk orðsifjabók segir að sé sennilega komin af *gráðga eða *græðga (af gráðugur). Elsta dæmi um þessa sögn er í þýðingu Halldórs Laxness á Vikivaka eftir Gunnar Gunnarsson frá 1948 og það næsta úr Kristnihald undir Jökli eftir Halldór frá 1968. Elsta dæmi á tímarit.is er í Vísi 1971: „Meðan pupullinn graðgaði í sig súra, fúla, vísitölufjötraða þjóðarrétti á þorrablótunum. komust ráðherrar í kosningaskap og í sæluvímu.“ Aðeins sex dæmi eru um orðið á tímarit.is fram til aldamóta, en síðan hefur tíðni þess aukist verulega og í Risamálheildinni eru um 140 dæmi um það, meginhlutinn úr formlegu máli en þó einnig allmörg dæmi af samfélagsmiðlum.

Sögnin graðga stjórnar þolfalli í dæmunum frá Halldóri Laxness og í elsta dæminu á tímarit.is sem vitnað var í hér að framan, en í öðru dæmi frá sama ári tekur hún með sér þágufall: „Hágleði var hjá hestum í Viðey, sem brutust inn í veitingaskála Hafsteins Sveinssonar og gröðguðu þar í sig pönnukökum og kleinum“ segir í Morgunblaðinu 1971. Þolfallið virðist algengara með sögninni en þágufallið er þó greinilega í sókn, einkum á samfélagsmiðlum – „Graðgaði í mig tveim hamborgurum yfir kvöldvinnunni“ segir t.d. á Twitter 2020. Þróun fallstjórnar hjá graðga virðist því vera mjög svipuð og hjá hesthúsa, og sama máli gegnir um þróun merkingarinnar – „Ég graðgaði þættina í mig á þremur kvöldstundum“ segir í Morgunblaðinu 2021.

Bæði hesthúsa og graðga taka sem sé æ oftar með sér þágufall, og sagnir eins og torga 'borða (e-ð) upp, ljúka við að borða (e-ð)' og sporðrenna 'borða hratt og af mikilli matarlyst' stýra alltaf þágufalli. Munurinn á þessum sögnum og þeim sem stjórna alltaf þolfalli, eins og borða, éta, snæða o.fl., er sá að í setningum með þeim fyrrnefndu, eins og ég torgaði matnum, ég sporðrenndi matnum, ég hesthúsaði matinn / matnum og ég graðgaði matinn / matnum í mig er ekki bara vísað til athafnar heldur einnig til endaloka hennar – þess að maturinn klárast. Sagnir með þann merkingarþátt („verbs of finishing and stopping“ eins og Joan Maling kallaði þær) stjórna oftast þágufalli og því eðlilegt að fallstjórn hesthúsa og graðga sé að breytast í þá átt.