„Enskuslettur“ eru bara ensk orð í íslensku samhengi
Hér hefur iðulega verið talað um „slettur“ í merkingunni 'erlent orð eða orðasamband sem ekki nýtur viðurkenningar í viðtökumálinu vegna ónógrar aðlögunar að hljóð- eða beygingakerfi eða annars konar framandi einkenna' eins og orðið er skilgreint í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þessi merking er gömul í málinu – samsetningin dönskusletta kemur fyrir þegar í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „Málið átti að vera vandað, og er það líka á sumum stöðum, enn nokkurskonar tilgerð og sérílagi dönskusletturnar skemma þó víðahvar gott efni.“ Orðið enskusletta er yngra eins og við er að búast og kemur fyrst fyrir í Vesturheimsblaðinu Heimskringlu 1895: „Það gerir hann með sífeldum enskuslettum, með því að útskýra algengustu íslenzk orð með ensku!“
Samhljóma sögn er líka algeng í þessu samhengi – ein skýring hennar í Íslenskri orðabók er 'nota erlend orð í máli sínu'. Elsta dæmi sem ég finn um sletta dönsku er í Þjóðólfi 1848: „Mig minnir ekki betur, en Ármann á alþingi sýni oss það berlega, hversu hlægilegt það er, þegar vjer Íslendingar erum að böglast við að sletta dönskunni í daglegu tali.“ Nafnorðið og sögnin sletta eru hvort tveggja fremur neikvæð orð – aðalmerking sagnarinnar er t.d. sögð 'þeyta, skvetta (e-u blautu)' í Íslenskri nútímamálsorðabók og ein merking hennar í Íslenskri orðabók er 'þeyta, setja hirðuleysislega'. Merking nafnorðsins er sögð 'e-ð sem slett er á e-ð, blettir eftir vökva' í Íslenskri nútímamálsorðabók og ein merking þess í Íslenskri orðabók er 'flekkur, lýti'.
Það var vitanlega ekki tilviljun að svo neikvæð orð voru valin til að nota í þessari merkingu. Á tímum þjóðernisvakningar og sjálfstæðisbaráttu frá því snemma á nítjándu öld var áhersla lögð á að hreinsa málið af dönskum áhrifum og reka til baka ýmsar breytingar sem höfðu orðið frá fornu máli. Dönsk orð í íslensku spilltu hreinleik málsins – voru ljótar slettur á íslenskunni sem nauðsynlegt þótti að þvo af með öllum ráðum. Einn þáttur í þeirri baráttu var að gefa dönskum orðum og notkun þeirra í íslensku neikvætt heiti sem við sitjum enn uppi með, tvö hundruð árum síðar og hundrað árum eftir að sjálfstæðisbaráttunni lauk, þótt dönskuslettur séu nú taldar meinlitlar en enskuslettur þeim mun skæðari. Er kannski mál til komið að endurskoða þetta?
Ég hef iðulega notað hér sögnina sletta og talað um slettur og enskuslettur – síðast fyrir nokkrum dögum. En það er óheppilegt orðalag vegna þess hve gildishlaðið það er. Umræða um mál og málnotkun á ekki að byggjast á neikvæðum orðum eins og „eignarfallsflótti“, „enskusletta“, „flámæli“, „þágufallssýki“ o.þ.h. Það er hvorki til þess fallið að efla jákvæða ímynd íslenskunnar né líklegt til að breyta málnotkun þeirra sem þetta beinist að. „Enskuslettur“ eru bara orð – ensk orð í íslensku samhengi. Stundum eru þau eðlileg og gagnleg, en oft eru þau óþörf. Í stað þess að einblína á þessi orð og tala um þau á neikvæðan hátt eigum við að skoða hvers vegna þau eru notuð í íslensku – og leita ráða til að fækka tilefnum til að nota þau.