Aðgerðaáætlun lögð fram

Ég var áðan á kynningarfundi ráðherranefndar um íslenska tungu á þingsályktunartillögu sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram á Alþingi í morgun um „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026“. Fimm ráðherrar sitja í ráðherranefndinni og í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir: „Unnið hefur verið að mótun aðgerðanna í samstarfi ráðuneytanna fimm en þær snerta flest svið samfélagsins.“ Þessi tillaga hefur verið lengi á döfinni og fyrirsögnin eiginlega þegar orðin úrelt því að lítið er eftir af árinu 2023, en upphaflega átti að leggja tillöguna fram í mars sl. Í tillögunni er að finna lýsingu á „alls 19 aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar“ segir í áðurnefndri fréttatilkynningu.

Í tillögunni „er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Leiðarstef í aðgerðunum er að bæta aðgengi og gæði íslenskukennslu, stuðla að auknum sýni- og heyranleika tungumálsins og aukinni samvinnu um það langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.“

Tillagan var upphaflega kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun júní sl. og „bárust 36 umsagnir um tillöguna og ýmsar gagnlegar athugasemdir og ábendingar sem horft var til við nánari mótun aðgerðanna“ segir í áðurnefndri fréttatilkynningu. Ég hef borið upphafleg drög saman við framlagða tillögu og sýnist sáralítið hafa breyst. Einni aðgerð hefur verið bætt við, orðalagi hnikað til á stöku stað og samstarfsaðilum víða bætt í upptalningu, en efnislega er þetta nokkurn veginn sama tillagan. Þess vegna eru athugasemdir mínar um það sem vantar í tillöguna að mestu leyti enn í fullu gildi. Meginathugasemd mín laut að fjármögnun aðgerðanna sem ekki var nefnd í drögunum. Ég taldi mikilvægt að einstökum aðgerðum fylgdi kostnaðarmat.

Í athugasemdum mínum í sumar sagði ég: „Aðgerðaáætlunin er metnaðarfull á margan hátt og í henni er að finna fjölda góðra áforma um aðgerðir sem örugglega munu efla íslenskuna verulega ef þeim verður hrint í framkvæmd.“ Þetta er í fullu gildi, en við það má bæta því að mér finnst orðalag almennt of loðið í tillögunni. Hún er skrifuð í viðtengingarhætti – orðið verði kemur t.d. 43 sinnum fyrir í henni („leitað verði leiða“, „lögð verði áhersla“, „hvatt verði til“, „samráð verði“ o.s.frv.). Hér hefði ég kosið ákveðnara og afdráttarlausara orðalag. Í flestum liðum eru nefnd dæmi um hugsanlega samstarfsaðila – sem er gott – en ekki kemur fram hvort rætt hafi verið við þessa aðila eða hvort vitað sé um hug þeirra til samstarfs.

Kostnaðarmat einstakra aðgerða er ekki að finna í endanlegri tillögu fremur en í drögunum, en í áðurnefndri fréttatilkynningu segir þó: „Ráðgert er að framlög vegna aðgerðanna muni nema um 1.365 milljónum kr. en í áætluninni eru einnig aðgerðir sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar að fullu og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður verði hærri.“ Þetta gengur eiginlega ekki upp – inni í áætluninni eru aðgerðir í máltækni og þegar hefur því verið lýst yfir að 360 milljónum á ári verði varið í máltækni út árið 2026. Eins og ég hef áður nefnt sé ég engin merki um aukin framlög til íslenskunnar í fjármálaáætlun næstu fimm ára eða í fjárlagafrumvarpi næsta árs. En þar fyrir utan er þetta allt, allt, alltof lítið fé. Íslenskan má alveg kosta meira.