Vísandi kyn og sjálfgefið málfræðilegt karlkyn

Ég í Málvöndunarþættinum að fólk var að reka hornin í fyrirsögnina „Hver komast í úrslit?“ í frétt um spurningaþáttinn „Kviss“ á síðu Stöðvar tvö fyrir helgi. Sumum fannst að þarna ætti frekar að vera hverjir komast í úrslit þar eð venja væri að nota sjálfgefið málfræðilegt karlkyn (karlkyn í kynhlutlausri merkingu) í slíkum setningum, og það hefði vissulega getað staðist. En í umræddum þætti kepptu tvö lið, hvort skipað karli og konu. Það var því ljóst að hvort liðið sem ynni yrðu það karl og kona sem kæmust í úrslit og vegna þess að það er vitað er eðlilegt að nota hvorugkyn fleirtölu, hver. „Hvorugkynið er sem sé ekki kynhlutlaust í þessu samhengi heldur vísandi, hlýtur að vísa í blandaðan hóp“ eins og Höskuldur Þráinsson hefur bent á.

Í frétt Vísis um tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna var aftur á móti notað karlkyn – „Þessir eru tilnefndir til hinna Íslensku bókmenntaverðlauna“ stóð í fyrirsögn. Það er vissulega í fullu samræmi við málhefð, og auk þess má hugsa sér að karlkynsorðið höfundar sé þarna undirskilið. Á hinn bóginn var fólk af öllum kynjum tilnefnt, karlar, konur og kvár, og það kemur fram í fréttinni. Því hefði einnig verið eðlilegt og í samræmi við málhefð að nota vísandi hvorugkyn og segja þessi voru tilnefnd – og sumum hefði örugglega þótt það eðlilegra, a.m.k. einu hinna tilnefndu sem vakti athygli mína á þessu. Í annarri hliðstæðri frétt Vísis fyrr á árinu var notað hvorugkyn – „Þessi eru tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023“.

Í báðum tilvikum höfum við sem sé val um það hvort við notum sjálfgefið málfræðilegt karlkyn og segjum hverjir komast í úrslit og þessir eru tilnefndir, eða vísandi hvorugkyn og segjum hver komast í úrslit og þessi eru tilnefnd. Hvort tveggja er fullkomlega eðlilegt og í fullu samræmi við íslenska málhefð – karlkynið er ekki til marks um karlrembu og hvorugkynið er ekki til marks um handstýrða breytingu á málinu. Ef hvorugkynið væri aftur á móti notað án þess að vitað væri að um kynjablandaða hópa væri að ræða væri þar vikið frá málhefð – sem sumum finnst eðlilegt eða nauðsynlegt en öðrum ekki. Aðalatriðið er að sýna umburðarlyndi og átta sig á því að innan ramma málhefðarinnar er oft um fleiri en einn kost að velja.

Við vissar aðstæður geta þó verið skiptar skoðanir um það hvort sjálfgefið málfræðilegt karlkyn eigi við eða hvort eðlilegt sé að nota vísandi kyn. Á Facebook-síðu Vísis 2015 er t.d. notað karlkyn og sagt „Hverjir verða tilnefndir til Eddunnar?“ en á síðu Ríkisútvarpsins 2020 er notað hvorugkyn og sagt „Hver verða tilnefnd til Óskarsverðlauna?“. Því má halda fram að einungis sjálfgefið málfræðilegt karlkyn sé þarna í samræmi við málhefð vegna þess að ekki er vitað þegar fréttin er skrifuð um hvaða einstaklinga er að ræða. Á móti má segja að þótt nöfn tilnefndra séu ekki þekkt sé vitað vegna flokkaskiptingar verðlaunanna að bæði karlar og konur verði tilnefnd og þess vegna sé ekki óeðlilegt að nota vísandi hvorugkyn. Þetta er smekksatriði.