Kolsvört PISA-skýrsla

Í skýrslu um niðurstöður PISA-prófsins 2022 sést að frammistaða íslenskra nemenda dalar bæði í samanburði við önnur lönd og fyrri próf:  „Frammistaða íslenskra nemenda í PISA 2022 var undir meðaltali OECD-ríkja og undir meðalframmistöðu jafnaldra þeirra á Norðurlöndunum á öllum þremur sviðum PISA […]. Frammistaða íslenskra nemenda hefur dalað frá því í síðustu fyrirlögn árið 2018 á PISA sviðunum þremur um sem nemur á bilinu 28–38 PISA-stigum [...]. Frammistaða dalaði einnig á sama tímabili í mörgum þátttökulöndum í stærðfræðilæsi og lesskilningi [...]. Lækkunin hér á landi var engu að síður nokkuð mikil í samanburði við önnur lönd, sérstaklega í lesskilningi (38 stig) og í læsi á náttúruvísindi (28 stig) [...].“

Það er athyglisvert að íslenskir unglingar skuli standa jafnöldrum sínum í öðrum OECD-ríkjum að baki á öllum þremur sviðum. Ég er nokkuð viss um að ástæðan fyrir því er sú sama – ófullnægjandi lesskilningur. PISA-prófin í náttúrufræði og stærðfræði byggjast fyrst og fremst upp á texta og nemendur sem ekki hafa nægilega góðan lesskilning koma því ekki vel út á þeim – skilja e.t.v. ekki um hvað er verið að biðja þótt þeir viti í raun og veru svarið. Vægi lesskilnings er sennilega minna í stærðfræðiprófinu en í náttúrufræði og því koma íslenskir unglingar skár út þar. Íslensk þýðing PISA-prófanna hefur reyndar ekki alltaf verið nógu góð og því má setja spurningarmerki við samanburð við önnur lönd, en samanburður við fyrri próf er samt gildur.

Fyrir fjórum árum skrifaði ég: „Þrátt fyrir að hafa miklar efasemdir um marktækni íslenska PISA-prófsins finnst mér ekki ástæða til að draga í efa að lesskilningi íslenskra ungmenna fari hrakandi, en ég held að það endurspegli fyrst og fremst veikari stöðu íslenskunnar í málsamfélaginu á síðustu árum en áður – sem ýmsar vísbendingar eru um. Það hefur margsinnis verið bent á hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa þrengt að íslenskunni undanfarinn áratug. Börn og unglingar eru í miklu meiri tengslum en áður við enskan málheim og lesa minna á íslensku. Það getur leitt til þess að þau tileinki sér ekki ýmis orð og setningagerðir sem eru forsenda þess að skilja fjölbreytta texta til hlítar. Þróunin ætti því ekki að koma á óvart […].“

Ástæðurnar fyrir því að íslenskir unglingar standa sig ekki betur á PISA-prófinu geta auðvitað verið ýmsar en ég held að tvær skipti mestu máli. Annars vegar er ég hræddur um að málsnið prófanna og orðaval sé ekki rétt – textinn sé einfaldlega of þungur miðað við það sem hægt er að ætlast til að unglingar á þessum aldri ráði við. Ég hef ekki séð síðustu próf og get því ekkert fullyrt um þetta, en miðað við athugun mína á fyrri PISA-prófum sem ég hef skrifað um finnst mér þetta ekki ólíklegt. En hins vegar er svo trúlegt að orðaforði íslenskra unglinga sé einfaldlega minni en hann ætti og þyrfti að vera, ekki síst vegna langdvala í enskum málheimi. Þetta er þó ekki það eina sem ástæða er til að hafa áhyggjur af – annað er ekki síður skuggalegt:

„Skýr merki eru um aukningu í ójöfnuði í námsárangri nemenda í PISA á Íslandi, út frá félags- og efnahagslegum bakgrunni nemenda, sérstaklega í lesskilningi. [...] Þegar ójöfnuður í námsárangri eykst yfir tíma má segja að frammistaða sé í meira mæli háð félags- og efnahagslegri stöðu foreldra nemenda en áður. Afleiðingar af því geta birst á öðrum sviðum samfélagsins og eru merki um aukinn stéttamun í tækifærum til menntunar og starfa í framtíðinni. Slíkt getur einnig verið merki um minnkandi félagslegan hreyfanleika í samfélaginu þar sem tækifæri barna verða í meira mæli háð þeim aðstæðum sem þau fæðast inn í m.t.t. efnahagslegra aðstæðna foreldra og félagslegu stöðu þeirra í lagskiptu samfélagi.“

Þarna er að koma í ljós það sem ég hef lengi haft áhyggjur af – stóraukin málfarsleg stéttaskipting. Það er hætta á að börn fólks með lágar tekjur og litla menntun, að ekki sé talað um börn fólks af erlendum uppruna, nái ekki nægilegu valdi á tungumálinu og sitji eftir – detti út úr skóla og eigi sér ekki viðreisnar von. Þau verða föst í láglaunastörfum og barna þeirra, þegar þar að kemur, bíða sömu örlög. Það ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um hversu hættuleg þessi þróun er – auðvitað fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir samfélagið. Þetta er ávísun á stórkostleg vandræði í framtíðinni, og því miður verður ekki séð að verið sé að taka á þessu. Ný aðgerðaáætlun um eflingu íslenskrar tungu gerir það a.m.k. ekki.