Eflum leikskólana!

Ég get ekki stillt mig um að halda áfram með umræðu um PISA-prófið. Ég hef nefnt – og er ekki einn um það – að grundvöllur málþroskans sé lagður á heimilunum, á fyrstu mánuðum og árum barna, og það sé á ábyrgð foreldra að leggja þennan grunn. Í umræðum hefur verið nefnt að sumir foreldrar standi þar illa að vígi – m.a. innflytjendur og fólk sem þarf að vinna langan vinnudag vegna lágra launa, mikils húsnæðiskostnaðar o.fl. Þessir foreldrar eigi þess ekki kost, hversu mikið sem þau vildu, að sinna börnum sínum nægilega vel að þessu leyti. Þar verður samfélagið að koma til aðstoðar og sjá til þess að jafna aðstæður þessara barna við önnur þannig að ófullnægjandi málörvun á heimilinu leiði ekki til þess að þau lendi á eftir í málþroska.

Í umræðum hefur verið bent á þá sérstöðu Íslands að hér ganga nær öll börn í leikskóla og því gefst einstakt tækifæri á að ná til þeirra og jafna aðstöðuna. En þá þarf auðvitað að skapa leikskólanum skilyrði til að sinna þessu hlutverki. Kannanir sýna yfirleitt mikla ánægju foreldra með starf leikskóla – þau telja að börnunum líði þar vel, þar ríki notalegt og vingjarnlegt andrúmsloft, viðfangsefni barnanna séu áhugaverð o.s.frv. En meginvandinn er sá að hlutfall menntaðs leikskólastarfsfólks er alltof lágt – aðeins rétt rúmur fjórðungur þess hefur kennaramenntun, þar af rúm 88% með leikskólakennaramenntun. En leikskólar eru mjög misvel staddir að þessu leyti og sums staðar virðist hlutfall leikskólakennara vera mjög lágt.

Sú breyting að hafa eitt leyfisbréf fyrir alla kennara jók á vandann því að talsverður fjöldi leikskólakennara hefur fært sig í grunnskóla. Ófaglært starfsfólk er hátt í 60% af heildarfjölda starfsfólks og rúmur helmingur starfsfólksins með menntun á framhaldsskólastigi eða minni. Við það bætist að talsverður fjöldi ófaglærðs leikskólastarfsfólks er af erlendum uppruna og talar stundum litla eða ófullkomna íslensku og er þar með ekki í aðstöðu til að efla málþroska barnanna í íslensku. Með þessu er alls ekki verið að gera lítið úr þessu fólki – vitanlega er margt ófaglært starfsfólk, hvort sem það er íslenskt eða af erlendum uppruna, frábært í því að sinna ýmsum þörfum barnanna og stuðla að þeirri almennu ánægju sem ríkir með leikskólastarfið.

En ófaglært starfsfólk hefur ekki þá fagþekkingu sem nauðsynleg er til að vinna á skipulegan hátt að málörvun, eflingu málþroska og aukningu orðaforða barnanna. Slík þekking er hluti af námi leikskólakennara og mætti reyndar vera stærri. Fjölmargar rannsóknir, innlendar og erlendar, sýna nefnilega fram á að ónógur málþroski á leikskólaaldri dregur langan slóða. Þetta hefur m.a. komið fram í ýmsum rannsóknum Hrafnhildar Ragnarsdóttur prófessors emeritus á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Í grein hennar í Netlu 2015 er bent á að „mælingar á málþroska íslenskra barna undir lok leikskóla spái fyrir um lesskilning þeirra frá og með öðrum eða þriðja bekk (eins og fjölmargar rannsóknir á börnum í öðrum löndum hafa sýnt)“.

Í greininni segir enn fremur: „Niðurstöðurnar staðfesta að meðal íslenskra barna eru síðustu árin í leikskóla mikið gróskutímabil fyrir málþroskaþætti sem gegna lykilhlutverki í alhliða þroska og leggja grunn að læsi og námsárangri síðar. Þær leiða jafnframt í ljós að munur á málþroska jafngamalla íslenskra barna er þá þegar orðinn verulegur og að sá munur tengist að hluta ýmsum áhættuþáttum í aðstæðum barnanna og fjölskyldna þeirra. Niðurstöðurnar undirstrika þannig hversu mikilvægt er að fylgjast grannt með málþroska/þróun orðaforða, málfræði og hlustunarskilnings barna á leikskólaárunum, ekki síst þeirra sem slakast standa og tryggja að þau fái fjölþætta og vandaða málörvun bæði í leikskóla og heima.“

Vegna þessa þarf slakt gengi á PISA-prófinu ekki að koma á óvart – við hefðum getað séð það fyrir út frá málþroska leikskólabarna fyrir tíu árum eða svo, og út frá lesferilsprófum undanfarinna ára eins og Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor hefur bent á. Þetta sýnir glöggt að vandinn verður ekki leystur með einhverjum skammvinnum átaksverkefnum. Það sem við gerum núna hefur áhrif á útkomu barna sem nú eru á leikskóla í PISA-prófinu 2034. Þess vegna er ekki eftir neinu að bíða. Við þurfum að leggja megináherslu á að efla leikskólann, fjölga fagmenntuðu starfsfólki þar og auka áherslu á málörvun og málþroska. En forsenda þess er að kjör leikskólakennara verði stórbætt – erum við tilbúin til þess?