Látbrögð
Í fyrradag var vakin hér athygli á því að í leikdómi í Ríkisútvarpinu sama dag hefði verið talað um „nóg af ýktum látbrögðum og grótesku“. Þarna er orðið látbragð notað í fleirtölu sem ekki er venja – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins gefin upp eintölubeyging orðsins. Það er eðlilegt miðað við þá merkingu orðsins sem gefin er upp í Íslenskri orðabók – 'fas, framganga, látæði'. Orðið kemur fyrir í þessari merkingu í fornu máli, t.d. í Laxdæla sögu: „Hann hafði allfagra hönd og sterklegan handlegg og allt var hans látbragð kurteislegt.“ Sama merking er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá miðri 19. öld: „Hún var velklædd, en þó skartlaus, kurteis í látbragði og hin fegursta.“ Þessi merking býður ekki upp á neina fleirtölu.
En þegar í upphafi 20. aldar er farið að nota látbragð til að vísa til einstakra athafna í tjáningu, og þá verður fleirtalan nauðsynleg og eðlileg. Elsta dæmi um fleirtöluna er í Heimskringlu 1902, en í Baldri 1905 segir: „Á vöxt voru þeir mjög líkir og í öllum látbrögðum, nema hvað Eliot var nokkuð hærri og þreknari.“ Sérlega áhugavert er dæmi úr Heimskringlu 1922: „En það eru ekki eingöngu þessar andlitsbreytingar og gráturinn, sem lýsa hugsunum vorum litlu síður en málið; limaburðir, látbrögð ýms og fas gera það oft eigi síður. […] Slík látbrögð eru það, sem ýmsir kynflokkar nota í stað reglulegs tungumáls. […] En einmitt á sama hátt og hvert látbragð er látið tákna eitthvað ákveðið hjá þessum mannflokkum […].“
Skýring orðsins í Íslenskri nútímamálsorðabók, 'tjáning með handarhreyfingum og líkamanum', fellur vel að þessari notkun og á tímarit.is er nokkuð af dæmum um að látbrögð vísi til líkamstjáningar leikara. Í Mánudagsblaðinu 1949 segir: „hann hefur fundið, hvaða setningar og látbrögð vekja mesta kátínu.“ Í Framsóknarblaðinu 1951 segir: „Nokkur tilsvör og látbrögð eru þó prýðilega af hendi leyst.“ Í Þjóðviljanum 1951 segir: „Hljómlist er með myndinni en ekkert tal – allt er tjáð með látbrögðum.“ Í Mánudagsblaðinu 1966 segir: „Arnar nær sér nú afbragðsvel upp, ekki aðeins sem leikari, látbrögðin eru honum eðlileg.“ Alls er nær hálft annað hundrað dæma um fleirtölumyndir orðsins látbragð á tímarit.is.
Orðið látbragðsleikur merkir 'leikræn þjáning með hreyfingum, svip og látbragði en án orða' en fyrri liðinn er hægt að túlka á tvo vegu. Annars vegar getur hann haft almenna vísun í fas og líkamstjáningu leikara, en hins vegar er hægt að skilja það svo að vísað sé til einstakra athafna í tjáningu. Myndin látbragðaleikur sem einnig er til endurspeglar væntanlega þann skilning. Þessar myndir eru álíka gamlar en látbragðaleikur þó aðeins eldri – elsta dæmi á tímarit.is frá 1942, en elsta dæmi um látbragðsleik frá 1947. Síðarnefnda myndin varð þó fljótt ofan á og hin hvarf algerlega. En þótt merking orðsins látbragð hafi víkkað út og það geti nú vísað til einstakra athafna í tjáningu heldur það vitaskuld eldri merkingu áfram.
Á seinustu árum hefur fleirtalan látbrögð fengið nýja merkingu, ekki síst í íþróttamáli. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Það var algjör óþarfi að tapa þeim leik en dómarinn féll fyrir látbrögðum sóknarmanns Búlgaríu.“ Á fótbolti.net 2019 segir: „hann svaraði illa fyrir sig, með ýmsum látbrögðum sem ekki eru fyrirliða sæmandi.“ Hér er merkingin líklega 'látalæti, blekkingar' (þar sem tenging við sögnina látast og nafnorðið brögð liggur hugsanlega að baki). En fleira kemur til. Á Vísi 2009 segir: „hún er alltaf tilbúin að létta andann hjá félögum sínum í liðinu með allskyns látbrögðum.“ Á Vísi 2021 segir: „Þar stóð fulltrúi sýslumanns með kjörseðil og hófust látbrögðin á ný.“ Hér virðist merkingin vera 'stælar, fíflagangur'.