Það er rangt mál að tala um tvennra dyra bíl

Í Málfarsbankanum segir: „Orðið dyr er fleirtöluorð í kvenkyni. Einar, tvennar, þrennar, fernar dyr. Tvennra dyra bíll og fernra dyra bíll (ekki „tveggja dyra“ eða „fjögurra dyra bíll“).“ Frá upphafi bílaaldar á Íslandi var þó ævinlega talað um tveggja dyra og fjög(ur)ra dyra bíla. Elsta dæmið er í Morgunblaðinu 1926: „Hinn endurbætti tveggja dyra „Sedan“ er hið ákjósanlegasta fjölskyldufarartæki.“ Í auglýsingu í Vísi 1927 segir: „Ennfremur 2 FORD bifreiðar, yfirbygðar, tveggja og fjögra dyra.“ Næstu fimmtíu árin er samtals á fjórtánda hundrað dæma um tveggja og fjög(ur)ra dyra bíla á tímarit.is en ekki eitt einasta um tvennra eða fernra dyra bíla – fyrr en 1977. En 23. febrúar það ár skrifaði Helgi Hálfdanarson í Morgunblaðinu:

„Það leið heldur ekki á löngu, unz Ríkisútvarpið, í nafni einhvers kaupsýslumanns, tók til að bjóða Íslendingum „tveggja dyra“ bíla. […] [E]intöluorðið „dyr“ er ekki til í íslensku fremur en „ein buxa“ eða „eitt skæri“. Hver sem er svo málhaltur að geta ekki sagt „tvennra dyra bíll“ eða „fernra dyra bíll“, ætti þó að geta klöngrazt fram úr því að segja „bíll með tvennum dyrum“ og „bíll með fernum dyrum“, sem raunar færi betur á allan hátt. En sé hann svo heillum horfinn og skyni skroppinn, að honum séu einnig þær bjargir bannaðar, á hann þess enn kost að segja blátt áfram „tveggja hurða bíll“ og „fjögurra hurða bíll“, þó víst sé það vesall Íslendingur, sem leggur á flótta frá þeim yndislega vanda að tala íslenzku.“ Hér er ekki skafið utan af hlutunum.

Í ljósi sögunnar er dálítið skondið að Þjóðviljinn skyldi í þetta skipti verða fyrstur til að hlaupa eftir því sem stóð í Morgunblaðinu. Strax daginn eftir,  24. febrúar 1977, stóð í auglýsingum þar: „Opel Rekord, árg. ´68, tvennra dyra bíll, blár“ og „Peugeot 203, árg. ´69, grár, fernra dyra bíll.“ Þjóðviljinn var svo einn um að nota þetta orðalag í auglýsingum fyrst um sinn, en eftir 1980 breiddist það út, enda hnykkti Helgi margoft á því í molunum Gætum tungunnar sem birtust í öllum dagblöðum á árunum 1982-1983 og í samnefndu kveri 1984. Síðan þá hefur verið algengt að tala um tvennra og fernra dyra bíla í auglýsingum þótt tveggja og fjögurra dyra sé einnig algengt. Aftur á móti sló „flóttaleiðin“ tveggja og fjögurra hurða bíll ekki í gegn.

Í bílaþætti í Lesbók Morgunblaðsins 1979 segir: „Gerðin, sem hingað flytzt er frá Simca-verksmiðjunum í Frakklandi og ævinlega fjögurra dyra eins og sagt er samkvæmt rótgróinni, íslenzkri málvenju og trúlegt er að haldist, þótt einn af spekingum okkar í meðferð móðurmálsins vilji fremur hafa það „fjögurra hurða“.“ Í bílaþætti Morgunblaðsins 1993 segir: „Í daglegu, mæltu máli er vart talað um annað en tveggja dyra, eða fjögra dyra bíla. […] Þessvegna munum við í bílaumfjöllun Morgunblaðsins halda okkur við dyr og tala áfram eins og hingað til um tvennra, fernra eða fimm dyra bíla.“ Þetta tókst þó ekki alltaf – í bílaþætti blaðsins 1997 segir: „Fyrir vikið virðist bíllinn tveggja dyra þegar hann er í raun fernra dyra.“

Það er auðvitað rétt að dyr er fleirtöluorð og samkvæmt því „ætti“ að tala um tvennar og fernar dyr. En hitt er ekki síður rétt, og þungvægara í þessu tilviki, að „samkvæmt rótgróinni, íslenzkri málvenju“ og í „daglegu, mæltu máli“ er nær undantekningarlaust talað um tveggja og fjögurra dyra bíla. Það orðalag var einhaft frá upphafi og í hálfa öld, þar til farið var að berjast gegn því með „rökrétt mál“ að vopni. En eins og hér hefur margsinnis verið skrifað um fer því fjarri að tungumálið sé alltaf „rökrétt“ – eða eigi að vera það. Það eru fjölmörg dæmi um það að óvenjulegar eða „órökréttar“ myndir orða séu notaðar í tilteknum föstum orðasamböndum. Það er ekki málvenja neinna að tala um tvennra og fernra dyra bíla – það er því í raun rangt mál.