Mörg mör

Í Málvöndunarþættinum var í gær spurt út í orðmyndina mör sem hafði verið notuð um manneskju sem var mikið marin. Þarna er augljóslega verið að nota orðið mar í fleirtölu – það er skýrt 'áverki á líkama af völdum höggs eða þrýstings, þar sem líkamshluti hefur kramist' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en er venjulega aðeins notað í eintölu og engin fleirtala gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í stað fleirtölunnar er venjulega notað orðið marblettur sem er skýrt 'blár eða gulur blettur á húð af völdum höggs, mar'. Merkingarmunur orðanna virðist kannski ekki mikill, en þó má segja að marblettur sé sýnilegri eða áþreifanlegri en marmarið er ekki bara hin sýnilegu ummerki á húðinni en marbletturinn er birtingarmynd þess.

En þrátt fyrir þetta er ljóst að mar er mjög oft notað í sömu merkingu og marblettur. Þannig er algengt að talað sé um stórt mar, ljótt mar, blátt mar o.s.frv. þar sem augljóslega er vísað til birtingarmyndarinnar frekar en undirliggjandi áverka. Þess vegna mætti búast við því að orðið væri notað í fleirtölu, ekkert síður en marblettur, en það er yfirleitt ekki gert. Hugsanlega stafar það af því að mör, sem er eina fleirtölumynd orðsins sem kemur til greina, fellur saman við nafnorðið mör sem merkir 'innanfita í dýrum, netja'. Þótt það samfall ætti svo sem ekki að geta valdið misskilningi getur það eigi að síður verið truflandi og valdið því að fólk forðist að nota mör í fleirtölu. Einstöku dæmi má þó finna um að það sé gert.

Þannig segir í héraðsdómi frá 2008: „4-5 cm mar sitt hvoru megin á höfði, 2 mör aftan á höfði, 4-5 cm hvort.“ Í mbl.is 2016 segir: „„Það fóru líka að birtast mör á handleggjum og fótleggjum, marblettir sem mér fannst erfitt að útskýra.“ Í annarri frétt á sama miðli sama ár segir: „Konan slasaðist nokkuð og er hún meðal annars með brotna hryggjarliði, brákað rifbein, skurð og mör.“ Á Hugi.is 2007 segir: „Ég veit ekki með hina en þessi sem ég þekki lenti uppi á slysó með nokkra skurði, þetta fína glóðurauga og mör útum allt.“ Á Twitter 2020 segir: „Er með mör á bakinu.“ Á Hugi.is 2007 kemur fram vafi um fleirtöluna: „Ég er bara með svo rosalega viðkvæma húð að ég fékk mar (mör?).“ En þetta er vissulega mjög sjaldgæft.

En orðið mar er þó stundum notað um annað en fólk, ekki síst um við, og þá vandast málið. Í héraðsdómi frá 2009 segir t.d.: „Ekki hefur verið gætt nægilega að því að skaða gluggana ekki, neglt í þá og viðurinn marinn og klofinn.“ Í héraðsdómi frá 2019 segir: „Mikið sé um litlar skemmdir og mar í viðnum.“ Þarna væri ekki hægt að nota marblettur í staðinn – þetta er annars eðlis. Ef þörf er á að nota fleirtölu er því ekki um annað að ræða en nota mör, eins og kemur fram á Hugi.is 2011: „Hann er í fullkomnu ástandi fyrir utan smávægileg mör á tveimur aftari hornum magnarans.“ Þarna er fleirtalan mör eðlileg og ég sé ekkert að því að nota hana líka um mar á fólki en auðvitað er það smekksatriði og þyrfti að venjast.