Stafa málbreytingar af leti?
Í gær var hér minnst á tiltekna málbreytingu þar sem smáorði er sleppt úr samtengingu og hún þar með stytt. Í umræðum var þess getið til að ástæða breytingarinnar væri leti – hugmyndin er þá væntanlega sú að málnotendur nenni ekki að nota lengri og eldri gerð samtengingarinnar og stytti hana þess vegna. Þetta er sannarlega ekki í fyrsta eða eina skipti sem málbreytingar hafa verið taldar stafa af leti – um það má finna ótal dæmi í skrifum frá 19. öld og til þessa dags. Þessi hugmynd kemur líka fram í orðum eins og latmæli sem 271 dæmi er um á tímarit.is, það elsta frá 1884 en það yngsta frá 2019; latmælgi sem 58 dæmi eru um, það elsta frá 1916 en það yngsta frá 2014; og málleti sem 25 dæmi eru um, það elsta frá 1911 en það yngsta frá 2002.
Þegar skoðað er í hverju hið meinta latmæli er talið felast kemur margt í ljós. Þannig er Steinastaðir talið latmæli fyrir Steinólfsstaðir, kvöld fyrir kveld eða hvíld, Skoradals- fyrir Skorradals-, sæli nú fyrir sælir nú, Olgeir fyrir Holgeir eða Hólmgeir, attur og ettir fyrir aftur og eftir, Effersey fyrir Örfirisey, skifti fyrir skipti, á stað fyrir af stað, Egla og Grettla fyrir Egils saga og Grettis saga, öðli fyrir röðli, Rifkelsstaðir fyrir Hripkelsstaðir, fjalla fyrir fjatla, netagerð fyrir netjagerð, daginn, bless og gúmorin fyrir sæll vertu og vertu sæll, hurðarás fyrir burðarás, Reyggjavigg og Agureyri fyrir Reykjavík og Akureyri, uppgöfga fyrir uppgötva, Normannar fyrir Norðmenn, pilsonum fyrir pilsunum, Holt fyrir Þjórsárholt, o.s.frv.
Hér eru býsna blandaðir réttir á borðum og skýringarnar misáreiðanlegar, og svipuð dæmi mætti taka um orðin latmælgi og málleti þótt það síðarnefnda hafi oft almenna vísun frekar en tengjast einstökum atriðum. En frá því fyrir miðja 20. öld eru orðin latmæli og latmælgi þó aðallega notuð um framburð: „Það er hið sunnlenzka latmæli, þegar p, t, k verður b, d, g milli sérhljóða og í enda orðs eftir löngu sérhljóði“ segir Stefán Einarsson í Studia Islandica 1949. „Latmæli, flámæli, linmæli og hvers kyns ófögnuður veður uppi, svo að ósköp eru á að hlýða“ segir Steindór Steindórsson í Heima er bezt 1960. Stundum virðist linmæli notað sem samheiti við latmæli en annars staðar virðist gerður einhver munur á þessu, en óljóst er hver hann er talinn.
Vissulega má segja að margar málbreytingar komi fram í einfaldari starfsemi talfæranna – samlögun hljóða, brottfall hljóða og atkvæða úr orðum, brottfall orða úr orðasamböndum o.fl. Með því að kenna þetta við leti sem þykir almennt neikvæður eiginleiki er vitanlega verið að lýsa vanþóknun á þessum breytingum. En eins er hægt – og miklu nær – að lýsa þeim á jákvæðan hátt sem vinnusparnaði og hagræðingu. Því fer líka fjarri að allar málbreytingar sem kenndar hafa verið við leti felist í einhverri einföldun. Til dæmis bendir ekkert til að „latmæli“ eins og framburður ófráblásinna lokhljóða í innstöðu í orðum á við hopa, vita, loka sé á nokkurn hátt einfaldari eða krefjist minni áreynslu eða orku en framburður fráblásinna lokhljóða.
Á árunum 600-800 tók ættmóðir íslenskunnar, frumnorræna, miklum breytingum. Mesta breytingin var hið svonefnda stórabrottfall, sem fólst í því að öll stutt, áherslulaus, ónefkveðin sérhljóð féllu brott. Eitthvert róttækasta dæmið um þetta er að úr orðinu harabanaR féllu brott hvorki meira né minna en þrjú sérhljóð – orðið styttist um þriðjung, fór úr níu hljóðum í sex og varð hrafnr, og styttist síðar enn þegar -r féll brott í enda þess og til varð nútímamyndin hrafn. Þrátt fyrir það hefur aldrei tíðkast að rekja þetta brottfall til leti forfeðra okkar og formæðra þarna í aðdraganda víkingatímans, enda væri það fráleitt. En jafn fráleitt er að kenna málbreytingar í samtímanum við leti. Ýmislegt óæskilegt á rót sína í leti, en ekki málbreytingar.