Þau hnerruðust á

Í gær var hópverji að velta fyrir sér hlutverki atviksorðsins á í orðasamböndum með sögn í miðmynd – fljúgast á, kveðast á, skrifast á og takast á – sem ættu öll við „um einhverskonar glímu eða keppni“. Ýmis fleiri sambönd af þessu tagi eru til í málinu, misjafnlega algeng – í Risamálheildinni fann ég í fljótu bragði tíu, auk áðurnefndra fjögurra: hringjast á, hvíslast á, kallast á, kankast á, sendast á, skiptast á, stangast á, togast á, vegast á, ýtast á. Í öllum þessum samböndum er á atviksorð en ekki forsetning – tekur ekki með sér neitt fallorð. Þess vegna eru t.d. fallast á og ráðast á annars eðlis – þar verður eitthvert fallorð að koma á eftir á (fallast á tillöguna, ráðast á óvininn). Reyndar getur skiptast á tekið fallorð í svolítið annarri merkingu.

Þessi sambönd fela ekki endilega í sér neina keppni en einhvers konar gagnkvæmni er sameiginleg þeim öllum – tveir þátttakendur framkvæma sömu aðgerð sem beinist á einhvern hátt að eða gegn hinum þátttakandanum sem þarf þá að gjalda í sömu mynt. Ef ég flýg á þig flýgur þú á mig á móti – við fljúgumst á. Ef ég hvísla til þín hvíslar þú til mín á móti – við hvíslumst á. Ef ég yrki eða fer með vísu og beini til þín verður þú að svara á sama hátt – við kveðumst á. Ef ég sendi þér tillögu gerir þú athugasemdir við hana og sendir mér – við sendumst á. Ef ég moka snjó í smátíma, svo tekur þú við, og svo ég aftur, mokum við til skiptis – við skiptumst á. Ef við glettumst svolítið hvort við annað erum við að kankast eitthvað á. O.s.frv.

Höfundur áðurnefnds innleggs nefndi að ekki væri talað um að syngjast á, né heldur að sparkast á í fótbolta. En um hvort tveggja eru þó til nokkur dæmi. Í Ísafold 1892 segir: „þegar þau syngjast á, Vermundur og hún, hefir hún allt af sömu tilburðina upp aptur og aptur“ og í Vísi 1981 segir: „Sparkast á við Skota á sunnudag.“ Ýmsar fleiri sagnir er hægt að nota á þennan hátt. Í Morgunblaðinu 2002 segir: „þið töluðust á og greinduð hvað væri líklega að.“ Í Þjóðviljanum 1966 segir: „drukknuðu yfirheyrslurnar í hrópum og köllum þar sem vitnin og formaður nefndarinnar æptust á.“ Í Unga Íslandi 1937 segir: „Þeir fara allir saman í bendu og byrja að hrindast á.“ Ekkert af þessu er algengt en þetta eru þó ekki eindæmi.

Ég held sem sé að þessi formgerð sé lifandi og virk en ekki bundin við einhverjar tilteknar sagnir, heldur getum við sett inn í hana ýmsar – kannski flestar – sagnir sem geta fallið undir lýsinguna hér að framan á athöfnum sem fólk framkvæmir til skiptis, hvert gegn öðru. Í leikdómi í Þjóðviljanum 1991 fann ég eftirfarandi lýsingu: „Til dæmis um þetta má taka litla senu, seint í verki Magnúsar, þar sem greifafjölskyldan situr og spilar á spil og hnerrar. Helgi og friður heimilisins hafa verið endurreist og árangurinn er spilamennska og hnerrar með fínni tímasetningu og nánum tengslum, í því hvernig leikararnir hnerrast á.“ Ef Ragnar Kjartansson hefði hrækt til baka á móður sína í frægu listaverki hefði mátt segja þau hrækjast á.

Vitanlega er það samt þannig að sum þessi sambönd eiga sér fastan sess í málinu, eins og þau sem nefnd voru í upphafi, en önnur eru sjaldgæfari og jafnvel einnota – og e.t.v. stundum notuð í hálfkæringi. En fyrir utan gagnkvæmnina er það sameiginlegt með þessum samböndum að sagnirnar sem um er að ræða eru annars sjaldan eða aldrei notaðar í miðmynd, nema þá í annarri merkingu. Þannig getur sendast t.d. merkt 'fara í sendiferðir' og 'fara hratt, hlaupa' en það er önnur merking en í sendast á, og kveðast getur merkt 'segjast' en það er önnur merking en í kveðast á. En stundum er gagnkvæmnin innifalin í miðmyndinni einni og sér og þá er á ofaukið – við segjum ekki *berjast á, *kyssast á, *hittast á, *mætast á o.fl.