Íslenska og útlendingar – áform stjórnvalda
Í gær kynnti ríkisstjórnin nýja heildarsýn sína í útlendingamálum. Um hana mætti ýmislegt segja en megnið af því á ekki erindi í þennan hóp. Þar er þó að finna mjög mikilsverð ákvæði sem varða stöðu íslenskunnar, ekki síst um aukinn og bættan stuðning í skólakerfinu: „Stóraukinn stuðningur við börn af erlendum uppruna þar sem áhersla er lögð á fyrstu þrjú árin eftir komu til landsins óháð aldri og skólastigi. Stuðningurinn miðast við þarfir hvers barns og aðstæður þess. Sett verður aukið fjármagn í kennslu í íslensku sem annað mál í grunnskólum, stuðningur aukinn við móttöku og málörvun á leikskólastigi og íslenskubrautum í framhaldsskólum fjölgað, ásamt því að aukin verður samfélagsfræðsla á íslenskubrautunum.“
Góður stuðningur við íslenskunám í skólakerfinu er grundvallaratriði, en einnig er fjallað um íslenskukennslu fullorðinna innflytjenda: „Íslenskt mál er lykillinn að inngildingu og þátttöku í samfélaginu. Stórauka framboð af íslenskunámi, innleiddir hvatar til íslenskunáms og meta þörf fyrir kröfu um íslenskunám og/eða færni í íslensku, í ákveðnum tilfellum. Réttur innflytjenda til íslenskunáms verði tryggður og dregið verði úr kostnaðarþátttöku þeirra. Aðgengi að starfstengdu íslenskunámi verði aukið og fólk geti stundað nám sem mest á vinnutíma. Þá verður jafnframt unnið að fjölgun kennara með fagþekkingu í kennslu íslensku sem annars máls fyrir fullorðna, bættu námsframboði og kennsluefni á því sviði.“
Hér hefur oft verið rætt um það að Íslendinga skorti iðulega þolinmæði gagnvart „ófullkominni“ íslensku og því er ástæða til að fagna eftirfarandi ákvæði alveg sérstaklega: „Farið verði í sérstakt tveggja ára kynningarátak til að auka umburðarlyndi gagnvart íslensku með hreim og að auka íslenskunotkun í samskiptum við innflytjendur hér á landi.“ Formaður Miðflokksins sá þó ástæðu til að hnýta í þetta og sagði: „Í hvaða heimi býr þetta fólk? Ég veit ekki betur en að Íslendingar kunni mjög að meta það þegar útlendingar leggja á sig að læra málið. Vandinn liggur ekki þar.“ Þótt viðhorfin hafi reyndar eitthvað verið að breytast liggur samt fyrir fjöldi vitnisburða um að vandinn er að hluta til þarna og dregur úr áhuga útlendinga á íslenskunámi.
Þær hugmyndir um styrkingu íslensku og íslenskukennslu sem koma fram í áðurnefndri heildarsýn ríkisstjórnarinnar eru sem sé góðra gjalda verðar og fagnaðarefni en eru svo sem ekki mikið nýmæli – hafa að talsverðu leyti verið settar fram áður, í þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu fyrir árin 2023-2026 sem lögð var fram í nóvember. Gallinn við þessar nýju tillögur er sá sami og við þingsályktunartillöguna – það vantar skýr fyrirheit um fjármögnun. Það er ljóst að til að hrinda í framkvæmd þeim metnaðarfullu tillögum sem þarna er að finna þarf fjármagn og þess sér a.m.k. ekki stað í fjárlögum yfirstandandi árs, né heldur í fjármálaáætlun næstu fimm ára. Án verulega aukins fjár eru þessi áform marklaus.