Íslenska sem bitbein, blóraböggull og sökudólgur

Síaukin skautun í umræðu um útlendingamál undanfarið hefur ekki farið fram hjá neinum. Eðlilega – og því miður – nær sú skautun líka til umræðu um íslenskuna. Sífellt meira ber á pirringi Íslendinga yfir því að geta ekki notað íslensku við ýmis tækifæri, innflytjendur kvarta undan lítilli þolinmæði Íslendinga gagnvart skorti á íslenskukunnáttu, og ásakanir um dónaskap og skort á menningarnæmi ganga á víxl. Mér finnst bæði Íslendingar og innflytjendur hafa mikið til síns máls í þessu og því er sorglegt þegar þessir hópar deila og gagnrýna hvor annan. Þær deilur eru eingöngu vatn á myllu öfgafullra þjóðernissinna, andstæðinga útlendinga og einangrunarsinna. En almennir málnotendur tapa, bæði íslenskir og innfluttir – og svo íslenskan.

Samkvæmt Lögum um íslenska tungu og íslenskt táknmál er íslenska „þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi“ og „sameiginlegt mál landsmanna“ og skulu stjórnvöld „tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs“. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að fólk vísi í þetta og telji sig eiga rétt á að geta notað íslensku hvar og hvenær sem er, enda segir líka í lögunum: „Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi […].“ Vandinn er sá að stjórnvöld hafa ekki staðið sig á þessu sviði – því fer fjarri að öllum sem hingað koma hafi boðist góð tækifæri til íslenskunáms enda eru sjaldnast gerðar kröfur um íslenskukunnáttu þegar fólk er ráðið til starfa.

Fyrir tuttugu árum var undantekningarlítið hægt að nota íslensku við öll tækifæri, alls staðar á Íslandi. Breytingin hefur orðið mjög hröð og eðlilegt að mörgum þyki nóg um. Það má ekki heldur gleyma því að Íslendingar tala ekki allir reiprennandi ensku þótt svo mætti ætla af umræðunni. Margt eldra fólk lærði ekki mikla ensku í skóla og þótt yngra fólk geti yfirleitt bjargað sér sæmilega á ensku í hversdagslegum aðstæðum þýðir það ekki að það sé vant eða treysti sér til að tala um hvaða efni sem er á ensku. Það má þess vegna ekki afgreiða það sem ástæðulausa tilætlunarsemi, frekju eða þjóðrembu þótt Íslendingum þyki óþægilegt eða mislíki að geta ekki notað íslensku við ýmsar aðstæður. Fyrir því geta verið ýmsar gildar ástæður.

Aftur á móti er vitaskuld ótækt ef einstöku starfsfólki er mætt með hroka og dónaskap fyrir það eitt að tala ekki íslensku. Ábyrgðina á þessu bera fyrst og fremst atvinnurekendur og stjórnendur. Það er þeirra að sjá til þess að fólk í afgreiðslu- og þjónustustörfum annaðhvort geti bjargað sér á íslensku eða kunni að bregðast við þegar ætlast er til að það tali íslensku. Það er ótækt að henda starfsfólki sem ekki kann íslensku í djúpu laugina – setja það án nokkurs undirbúnings í störf sem fela í sér samskipti við Íslendinga og láta sem íslenskukunnátta skipti engu máli. Það er ávísun á árekstra, móðganir og sárindi á báða bóga sem vel væri hægt að komast hjá og við verðum að komast hjá – vegna Íslendinga, innflytjenda og íslenskunnar.

Bæði Íslendingar og innflytjendur þurfa að leggja nokkuð á sig til að laga sig að þeirri stöðu sem upp er komin með miklum fjölda innflytjenda í þjónustustörfum. Íslendingar þurfa að átta sig á því að þessi staða er komin upp og verður þannig áfram, og kunna að bregðast rétt við henni – byrja alltaf að nota íslensku og halda því áfram meðan kostur er án þess að það komi út sem dónaskapur en skipta yfir í ensku ef þörf krefur. Innflytjendur þurfa að leitast við að læra grundvallarorðaforða starfsins sem þeir gegna, en fyrst og fremst að kunna að bregðast við þegar Íslendingar tala íslensku við þá – svara á íslensku ef hægt er en skipta ella í ensku án þess að það komi út sem dónaskapur. Báðir aðilar þurfa svo að kunna að bregðast við dónaskap hins.

Það sem má ekki gerast í þessu er að íslenskan verði bitbein, blóraböggull eða sökudólgur í umræðunni. Við megum ekki láta öfgafólk komast upp með að nota eðlilegar og réttmætar óskir Íslendinga um að geta notað íslensku alls staðar til að magna upp útlendingaandúð. Með því er dregið stórlega úr líkum á því að innflytjendur hafi áhuga á og vilja til að tileinka sér íslensku og festa rætur í samfélaginu, og þar með jafnframt stuðlað að auknum klofningi og stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Það sem er sett fram sem umhyggja fyrir íslenskunni vinnur því í raun gegn henni og skerðir möguleika hennar á því að halda stöðu sinni sem burðarás samfélagsins og aðalsamskiptamálið í landinu. Eflum gagnkvæman skilning og umburðarlyndi!