Mannmergi

Áðan var bent hér á að í Ríkisútvarpinu hefði verið sagt „búist er við mannmergi“ á kappleik sem er að hefjast, og spurt hvort þarna væri um nýyrði að ræða. Orðið mannmergi er ekki að finna í neinum orðabókum nútímamáls og engin dæmi eru um það á tímarit.is eða í Risamálheildinni – og ekki heldur um seinni hlutann mergi. Í fljótu bragði taldi ég líklegast að þetta væri mismæli og hefði átt að vera margmenni – samhljóðaklasarnir rg og nn hefðu skipt um sæti innan orðsins þannig að í stað margmenni hefði komið mannmergi. En þótt þetta kunni að vera mismæli leiðir það til eðlilegs íslensks orðs – mann- er auðvitað alþekktur fyrri liður samsetninga og þótt mergi sé ekki til höfum við orðið mergð og samsetninguna mannmergð.

Mismæli af þessu tagi þar sem hljóð eða hljóðasambönd færast milli orðhluta eru vel þekkt. Sigurður Jónsson skrifaði fyrir nokkrum árum meistararitgerð sem heitir Mismæli og íslensk málfræði og þar er ýmis svipuð dæmi að finna. Meðal þeirra eru reingraunum í stað raungreinum, kltripping í stað trklipping, andlúmsroft í stað andrúmsloft, Polakortið í stað Kolaportið, dallettbansmær í stað ballettdansmær, pleyjublast í stað bleyjuplast og frámarkshádrátt í stað hámarksfrádrátt. Þetta eru allt saman samsett orð þar sem eitt eða fleiri hljóð, sérhljóð eða samhljóð, víxlast milli orðhluta. Í öllum tilvikum er útkoman orðleysa eins og algengast er um mismæli, öfugt við mannmergi sem gæti verið íslenskt orð sem fyrr segir.

En þegar að var gáð kom í ljós að kvenkynsorðið mannmergi er flettiorð í safni Ordbog over det norrøne prosasprog – fjögur dæmi má finna um það í fornum handritum. Það er þó athyglisvert að í öllum tilvikum er annað orð haft í staðinn í öðrum varðveittum handritum sama texta – í þremur dæmum margmenni en í einu mannmergð, en bæði orðin eru margfalt algengari í fornu máli en mannmergi. Ég átta mig ekki alveg á aldri og skyldleika þeirra handrita sem um er að ræða en sýnist þó að handritin með mannmergi séu yfirleitt eldri og því er ekki ótrúlegt að sjaldgæfara orði hafi verið skipt út fyrir algengara í uppskriftum – hugsanlega hafa skrifarar talið um villu að ræða, svipað því að okkur dettur helst í hug að mannmergi sé mismæli nú.

Hvað á þá að segja um það þegar mannmergi heyrist í Ríkisútvarpinu árið 2024 – orð sem engar heimildir eru til um undanfarin mörg hundruð ár? Er trúlegt að orðið hafi varðveist í málinu allan þennan tíma án þess að komast nokkru sinni á prent? Þótt það virðist kannski ekki líklegt er rétt að hafa í huga að meðan starfsfólk Orðabókar Háskólans hélt uppi fyrirspurnum um orð í útvarpsþættinum Íslenskt mál voru stundum að dúkka upp meðal almennings orð sem fá eða engin dæmi voru um á prenti en hlutu þó að vera gömul í málinu. Mér finnst ekki óhugsandi að sama máli gegni um mannmergi þótt óneitanlega séu meiri líkur á að um mismæli hafi verið að ræða. En hvað sem því líður er mannmergi orð sem myndi sóma sér vel í málinu.