Dagar útvaldra eru talnir
Hér var í dag spurt um myndina útvaldur sem er merkt !? í Íslenskri orðabók og vísað á útvalinn, en !? merkir „orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi“. Þó eru tæp 40 dæmi um myndina útvaldur á tímarit.is, það elsta frá 1897, og í Risamálheildinni eru rúm 20 dæmi um hana, öll nema tvö af samfélagsmiðlum. Stofn orðsins er útvalin- en það er almenn regla í málinu (sem vissulega á sér þó undantekningar) að áherslulaust sérhljóð í stofni falli brott á undan l, n og r ef beygingarending hefst á sérhljóði. Þess vegna fáum við t.d. lykli, jötni og hamri en ekki lykil-i, jötun-i og hamar-i í þágufalli eintölu, og lyklar, jötnar og hamrar en ekki lykil-ar, jötun-ar og hamar-ar í nefnifalli fleirtölu.
Í lýsingarorðum og lýsingarháttum sem enda á -in- leiðir þetta brottfall áherslulausa sérhljóðsins i til þess að n-ið stendur næst lokasamhljóði rótarinnar. Í karlkyni eintölu af útvalinn bætist endingin -um við stofninn í þágufalli og eftir brottfall mætti því búast við myndinni útvöln-um þar sem endingin veldur u-hljóðvarpi. En þá bregður svo við að í stað klasans ln kemur ld, og við fáum útvöld-um. Sama gerist í öðrum myndum þar sem brottfall verður – í þolfalli eintölu kvenkyni fáum við ekki útvaln-a heldur útvald-a, í þágufalli eintölu hvorugkyni fáum við útvöld-u, í karlkyni fleirtölu fáum við útvald-ir í nefnifalli og útvald-a í þolfalli, í kvenkyni fleirtölu fáum við útvald-ar í nefnifalli og þolfalli, og í þágufalli fleirtölu allra kynja útvöld-um.
Klasinn ld kemur því fyrir í samtals 10 af 24 myndum í sterku beygingunni (4 föll × 2 tölur × 3 kyn). En auk þess kemur hann fyrir í öllum 24 myndum veiku beygingarinnar því að þar hefst beygingarendingin alltaf á sérhljóði og því verður alltaf brottfall. Sama gildir um allar beygingarmyndir miðstigs og efsta stigs. Því kemur ld fyrir í yfirgnæfandi meirihluta beygingarmynda orðsins, þótt sumar myndanna með lin, þar sem ekki verður brottfall, séu vissulega meðal algengustu mynda orðsins. En vegna þessa mikla fjölda mynda með ld er engin furða að þær smiti út frá sér, ef svo má segja, og til verði ld-myndir í þeim föllum sem hafa lin í hefðbundinni beygingu. Meðal þeirra er myndin útvaldur sem nefnd var í upphafi.
Það er þó ekki bara fjöldi ld-mynda sem þarna skiptir máli – einnig geta verið áhrif frá öðrum orðum sem hafa ld en engin víxl. Út frá því að til fleirtölunnar kaldir og kaldar, margfaldir og margfaldar svarar eintalan kaldur og köld, margfaldur og margföld, mætti álykta að til fleirtölunnar útvaldir og útvaldar svaraði eintalan útvaldur og útvöld. Á tímarit.is eru um 90 dæmi um útvöld, tæp 40 um útvaldri, rúm 30 um útvaldan en mun færri um aðrar óhefðbundnar ld-myndir. Í Risamálheildinni eru 18 dæmi um útvöld og 17 um útvaldan. Elstu dæmin á tímarit.is eru frá miðri 19. öld og í ljósi aldurs og tíðni beygingarmynda með ld í stað lin finnst mér eðlilegt að líta svo á að beyging með ld í öllum myndum hafi unnið sér hefð í málinu.
Þótt hér hafi eingöngu verið fjallað um beygingu orðsins útvalinn vegna þess að um það var spurt gildir það sama um önnur orð með sambærilegum víxlum – þar koma oft fram myndir með ld í stað mynda með lin, t.d. taldur í stað talinn. En þetta er ekki bundið við l – hliðstæð víxl verða líka í tengslum við brottfall áherslulauss sérhljóðs í sumum orðum þar sem rótin endar á m, eins og taminn – tamd-ir, í stað *tamn-ir; orðum með n, eins og þaninn – þand-ir, í stað *þann-ir; og orðum með r, eins og barinn – barð-ir, í stað *barn-ir. Í þeim orðum eru klasarnir md, nd og rð líka stundum alhæfðir og sagt tamdur í stað taminn, þandur í stað þaninn – og „Barður þræll er mikill maður, því í hans brjósti á frelsið heima“ segir í Íslandsklukkunni.
Þótt það sé miklu sjaldgæfara gerist það líka í sumum orðum að klasinn ln sem verður til við brottfall áherslulauss sérhljóðs helst í öllum beygingarmyndum í stað þess að breytast í ld. „Dagar íslenskukunnáttunnar eru talnir“ var brandari sem gekk fyrir 30 árum eða svo og það eru sex dæmi um talnir í stað taldir á tímarit.is og þrjú um talnar í stað taldar. Í Risamálheildinni eru dæmin mun fleiri – 45 um talnir og 15 um talnar. Einnig eru þar dæmi um barnir og barnar í stað barðir og barðar, tamnir í stað tamdir – og eitt dæmi um útvölnum í stað útvöldum. Út frá því að dæmin í Risamálheildinni eru mun fleiri en á tímarit.is má ímynda sér að þetta færist heldur í vöxt, en það þarf þó að kanna miklu nánar til að fullyrða nokkuð.