Ef að sé og ef að mundi

Háttanotkun í skilyrðissetningum sem hefjast á ef hefur lengi verið á reiki, enda reglur þar um hvorki einfaldar né skýrar. Í Málfarsbankanum segir: „Í nútíðarsetningum er að jafnaði framsöguháttur: Hann kemur ef hann getur (ekki: „ef hann geti“). Þeir vilja fara ef það er hægt (ekki „ef það sé hægt“). Þegar sagnirnar segja, telja o.fl. koma á undan skilyrðissetningum má nota viðtengingarhátt: Hann segir að þetta versni ef kólni (eða kólnar) í veðri. Hún telur að ef ekki dragi (eða dregur) til tíðinda í kvöld verði ekkert úr þessum áformum.Þar sem vísað er til sagna eins og segja og telja er átt við sagnir sem geta tekið með sér skýringarsetningu (-setningu) með sögn sem verður að vera í viðtengingarhætti, t.d. halda, álíta, vona o.fl.

Þótt það sé ekki sagt berum orðum sést á dæmum Málfarsbankans að viðtengingarháttur er talinn koma til greina ef skilyrðissetningin (ef-setningin) er hluti af skýringarsetningu – þá getur skilyrðissetningin „erft“ viðtengingarháttinn frá skýringarsetningunni („domino effect“ eins og Höskuldur Þráinsson skrifaði einu sinni um). En vegna þess að notkun viðtengingarháttar á eftir ef er háð flóknum skilyrðum (því að skilyrðissetningin sé hluti skýringarsetningar og að skýringarsetningin standi með sögnum tiltekinnar merkingar) og er auk þess valfrjáls jafnvel að þessum skilyrðum uppfylltum er ekki undarlegt að tilbrigði komi upp. Við það bætist að í þátíð er viðtengingarháttur á eftir ef sé viðtengingarháttur í aðalsetningunni – ég kæmi ef ég gæti.

Á tímarit.is má finna dæmi andstæð reglu Málfarsbankans allt frá upphafi 20. aldar. Í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1901 segir: „Ef það sé gert, t.d. stungið í blöðruna, svo að hún springi, þá verði nykurinn spakur úr því.“ Í Sameiningunni 1902 segir: „En ef hann sé með, þá sé raunar ekkert á móti.“ Í Ísafold 1910 segir: „Lofar að kalla hann heim, ef hann sé að tala um stjórnmál.“ Í Vísi 1916 segir: „Og ef hann sé nokkuð að læðast um og reyna að koma sér í mjúkinn, þá skulið þér sjá um að hann ekki kembi hærurnar.“ Í Tímanum 1931 segir: „En ef það sé ekki hægt, þá er bylting eina ráðið.“ Í Alþýðublaðinu 1940 segir: „Þeim hlýtur því að sýnast lífið vera gripur, sem sjálfsagt sé að farga, ef það sé mönnum óþægilegt.“

Í Risamálheildinni er töluvert af dæmum af þessu tagi. Í héraðsdómi frá 2013 segir: „Ef það sé réttur skilningur sé stefndi tilbúinn til samninga um það.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2010 segir: „Ef það sé hægt hér eigi það að vera hægt annars staðar.“ Á fótbolti.net 2003 segir: „Ef hún sé brotin þá missi hann af næstu þremur vikum með liðinu.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Ef þetta sé leyfilegt þá séu hér uppi nýir tímar.“ Í ræðu á Alþingi 1956 segir: „Ef hann sé búinn að vera í tvö ár , þá er sýnilegt, að hann hefur átt í miklum erfiðleikum með að koma húsinu áfram.“ Á Bland.is 2014 segir: „Ef þetta sé vitlaust þá þarftu að leiðrétta.“ Á Hugi.is 2003 segir: „Ef þetta sé rétt þá gat hann borðað fyrstu 70-80 árin sem draugur, sem er rugl.“

Venjulega er viðtengingarháttur tengdur við óvissu og efa, en það er einmitt einkenni á skilyrðissetningum. Ef sagt er við förum núna ef þið eruð tilbúin felst auðvitað í því óvissa um hvort þið eruð tilbúin eða ekki. Það er líka hægt að sleppa tengingunni ef og þá er viðtengingarháttur nauðsynlegur – við förum núna, séuð þið tilbúin. Þegar þetta bætist við þær tiltölulega flóknu reglur sem gilda um háttanotkun í skilyrðissetningum er því engin furða að málnotendur hafi stundum tilhneigingu til að segja við förum núna ef þið séuð tilbúin. Það má meira að segja halda því fram að vegna óvissunnar sé viðtengingarháttur þarna „rökréttari“ en framsöguháttur, þótt hafa verði í huga að málið er ekki alltaf rökrétt og á ekki að vera það.

Ég hef á nokkrum stöðum séð gerðar athugasemdir við að forsetaframbjóðandi skuli hafa sagt „Ef að það sé pólitík að tala fyrir mannréttindum“ í sjónvarpsviðtali nýlega. Mér finnst fráleitt að reka hornin í það – þetta er algengt mál og forseti Íslands á ekki að tala eitthvert dauðhreinsað mál miðað við hundrað ára gamlan málstaðal, heldur það mál sem þjóðin talar. En fleira hangir á spýtunni. Það er oft talað um að viðtengingarháttur eigi í vök að verjast og framsöguháttur sé nú iðulega notaður þar sem hefð er fyrir viðtengingarhætti. En í þessu tilviki er því þveröfugt farið. Sé viðtengingarháttur hafður í skilyrðissetningum eins og þarna eykur það notkun hans og gæti því stuðlað að því að halda í honum lífinu. Það viljum við öll, er það ekki?