Þrotaður

Í fyrradag var lýsingarorðið þrotaður nefnt hér en málshefjandi sagðist hafa heyrt það öðru hverju undanfarin ár. Það er hvorki flettiorð í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en hins vegar hefur það tvisvar verið að finna í listum um slangur í Fréttablaðinu, í fyrra skiptið í ársbyrjun 2014 undir yfirskriftinni „Slangur ársins 2013“ þar sem það er aðeins skýrt 'lélegur'. Árið 2015 var skýringin hins vegar mun ítarlegri: „Þrotaður/Þrotabú = Að vera búinn á því. Orðið þrotabú er notað yfir þá sem eru alveg búnir á því, hvort sem það er þreyta eða eitthvað annað. Þeir sem hafa gert mörg mistök eða eru ekki að gera góða hluti í lífinu geta eru ýmist þrotaðir eða þrotabú.“ Á tímarit.is eru innan við tíu dæmi um orðið.

Orðið hefur hins vegar blómstrað í óformlegu málsniði á síðustu árum. Í Risamálheildinni er hátt á áttunda hundrað dæma um það, næstum öll af samfélagsmiðlum (twitter). Þau elstu eru frá 2012 og notkunin virðist hafa aukist mjög hratt fram til 2015 en verið í nokkru jafnvægi síðan. Þegar orðið er notað um ástand fólks virðist merkingin oftast vera 'að þrotum kominn, búinn á því' en ef það er notað um eitthvað annað, svo sem frammistöðu fólks (t.d. listafólks), atburði, aðstæður eða hluti, er merkingin fremur 'lélegur, úreltur, leiðigjarn, búinn að vera' eða eitthvað slíkt – svipað og þreytt er oft notað. Vissulega eru þó engin skörp skil þarna á milli og eins og algengt er með lýsingarorð sem lýsa ástandi fer túlkunin eftir aðstæðum hverju sinni.

„„Það er frekar þrotað bara, ef ég á að segja eins og er“ segir á vef Ríkisútvarpsins 2020 um útgöngubann í covid. Á Vísi 2018 segir: „Víkingar eru í dauðafæri að næla í þriðja sigur sinn í röð er liðið fær hið þrotaða botnlið Keflavíkur í heimsókn.“ Á fótbolti.net 2019 segir: „Hann spilar þrotaðan fótbolta og hefur þrotaða og karakterslausa nærveru.“ Í Kjarnanum 2014 segir: „Nota þrotaðan Samsung Galaxy Young síma.“ Dæmi af twitter: „Þessi leikur hérna í Vesturbænum er gjörsamlega þrotaður“ (2014), „Þetta er þrotaðasti þriðjudagur ever“ (2015), „Ég er svo þrotuð og leiðinleg í dag“ (2015), „Þetta er svo þrotuð umræða finnst mér“ (2016), „Aðeins minni kvíði en ótrúlega þrotuð og þreytt“ (2016), „Það er þrotuð þjónusta!“ (2017).

Lýsingarorð sem enda á -aður eru yfirleitt upphaflega lýsingarháttur þátíðar af sögn, en sögnin þrota er ekki notuð í nútímamáli og hana er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók. Sögnin hefur þó verið til í málinu og er m.a. nefnd í Íslenskri orðsifjabók í merkingunni 'ganga til þurrðar, skorta' og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem hún er skýrð 'faa Ende, mangle, fattes' sem merkir u.þ.b. það sama. Þar kemur fram að sögnin tók þolfallsfrumlag – einhvern þrotar eitthvað. Í Ritmálssafni Árnastofnunar eru fjögur dæmi um sögnina, öll frá 16. og 17. öld, og þau örfáu dæmi sem ég fann um hana á tímarit.is virðast flest eða öll vera úr gömlum textum. Hún virðist því með öllu horfin úr málinu.

Þótt lýsingarorðið þrotaður líti út eins og lýsingarháttur þátíðar af þrota er ekki líklegt að það sé myndað af sögn sem varla hefur verið notuð í fleiri aldir. Væntanlega er það fremur leitt af nafnorðinu þrot sem vitanlega er af sömu rót og notað í samböndum eins og komast í þrot og vera að þrotum kominn. Einnig gætu verið tengsl við orðið þrotabú eins og í áðurnefndri orðaskýringu í Fréttablaðinu en ég átta mig ekki á því hversu mikið það er notað í þessari merkingu. Einhver dæmi er þó að finna í Risamálheildinni eins og „Er ég algjört þrotabú ef ég er að pæla í að rölta niður í vinnu og tékka á stemmaranum á fyrsta sumarfrídeginum mínum?“ á twitter 2016. En hvað sem þessu líður er þrotaður ágætt orð og fellur vel að málinu.