Ástríða og Ástríður

Í Málvöndunarþættinum hefur verið nokkur umræða um framburð orðsins ástríða sem skýrt er 'áköf löngun' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það er komið af sögninni stríða með forliðnum á, sbr. sambandið stríða á sem getur m.a. merkt 'leita fast á'. Í Málfarsbankanum segir: „Orðið ástríða skiptist þannig milli lína: á-stríða.“ Ekkert er hins vegar sagt um framburð orðsins en út frá þessum uppruna mætti búast við að orðið væri borið fram með löngu á, [au:striða], eins og flest orð sem mynduð eru á sama hátt, t.d. á-skorun, á-skilja, á-skapa, á-sjóna, á-sláttur o.s.frv. Sá framburður er vissulega algengur, en einnig er algengt að orðið sé borið fram með stuttu á, [austriða], eins og í orðinu ást. Mörgum fellur sá framburður ekki í geð.

Framburður með stuttu á er a.m.k. þrjátíu ára gamall en sennilega mun eldri. Elsta dæmi sem ég hef fundið um að varað sé við honum er í dálknum „Hvað skal segja?“ í Morgunblaðinu 1996. Þar segir: „Nafnorðið ástríða er myndað af því, að eitthvað stríðir á einhvern. Í framburði hlýtur það því að skiptast í á-stríða.“ Árið eftir sagði Gísli Jónsson í þætti sínum í Morgunblaðinu: „Greina verður á milli kvenmannsnafnsins Ástríður og fleirtölunnar af ástríða. Í kvenheitinu er á-ið stutt, eins og í ást, en í hinu orðinu er á-ið langt, enda er það forskeyti, orðið samsett á-stríður.“ Framburður orðsins ástríður var líka Pétri Péturssyni þul mjög hugleikinn og hann skrifaði nokkrum sinnum um málið í Morgunblaðinu.

Önnur orð sýna þó að framburður orða af þessu tagi hefur verið á reiki fyrr. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Hyggjum að skiptingu orðanna ástand og ástúð í framburði! Réttur framburður er á-stand og ást-úð. (Ath. á-stúð er rangur framburður.)“ Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 1993: „Umsjónarmaður hefur heyrt undarlegan framburð kvenmannsnafnsins Ástríður, og það jafnvel hjá þeim sem prýðilega eru talandi. Er þá kvenheitið borið fram eins og fleirtala af samnafninu ástríða, það er „á-stríður“. Ástríða er náttúrlega eitthvað það sem stríðir á mann. En kvenmannsnafnið er auðvitað samsett af ást. […] Engum manni dettur í hug að bera karlheitið Ástráður fram „á-stráður“, enda auðvelt að snúa út úr slíku.“

Þessi dæmi benda til þess að óvissa í framburði orða sem byrja á ást- sé a.m.k. fjörutíu ára gömul. Hún kemur einkum þannig fram að orð þar sem á- er forliður og búast mætti við löngu sérhljóði séu borin fram með stuttu sérhljóði (a.m.k. ástríða og e.t.v. ástand ef marka má dæmið úr Gætum tungunnar) eða þannig að orð mynduð af nafnorðinu ást þar sem búast mætti við stuttu sérhljóði séu borin fram með löngu sérhljóði (á-stúð, Á-stríður – sem reyndar mun fremur komið af *Ásríður sem upphaflega var *Ásfríður). Þótt Gísli Jónsson segi að engum detti í hug að bera Ástráður fram Á-stráður er ég nokkuð viss um að hafa heyrt það. Í seinna tilvikinu er hugsanlega um ofvöndun að ræða sem rekja má til leiðréttinga á framburði orðsins ástríða.

Vissulega er ljóst að framburður með löngu á er hinn upphaflegi í orðinu ástríða, og trúlegt að stutta hljóðið sé tilkomið vegna þess að málnotendur tengi orðið við ást sem er mjög skiljanlegt því að merkingarsvið orðanna skarast. En það þýðir ekki að framburður með stuttu sérhljóði sé rangur. Í íslensku eru sérhljóð að jafnaði stutt á undan tveimur eða fleiri samhljóðum en löng annars, en í samsettum orðum getur verið misjafnt hvort reglan verkar innan hvers orðhluta fyrir sig eða í orðinu öllu í einu. Ef reglan verkar sérstaklega í hvorum orðhluta í á-stríða verður sérhljóðið langt, en ef hún verkar í orðinu öllu tekur hún tillit til st í upphafi seinni hlutans sem gefur stutt sérhljóð. Hvort tveggja á sér fjölda fordæma í málinu og er fullkomlega eðlilegt.