Íssland

Í Málvöndunarþættinum var – ekki í fyrsta skipti – verið að hnýta í framburðinn Íssland, þ.e. stutt í [istlant], og þessi framburður hefur iðulega verið gagnrýndur á undanförnum áratugum. Helgi Hálfdanarson sagði í Morgunblaðinu 1984: „Og ástæðan til þess, að ég tel rétt að kenna börnum að lesa fremur Ísland en Íssland, er ekki sú, að framburður með einu s-i sé að líkindum algengari enn sem komið er, heldur blátt áfram sú, að landið heitir Ísland (stofnsamsett) en ekki Íssland (laust samsett) og nafnið stafsett samkvæmt því.“ Í bréfi sem Gísli Jónsson birti í Morgunblaðinu 1993 sagði: „Ísland heitir Ís-land með löngu í-i og einu s-i, af því að menn sáu fjörð fullan af ís(i). Nú segja ýmsir, og jafnvel þeir sem síst skyldi, „Íssland“ […].“

Þegar nefndir eru „þeir sem síst skyldi“ er sennilega verið að vísa til Vigdísar Finnbogadóttur. Hún hefur þennan framburð og það var stundum gagnrýnt þótt yfirleitt væri það gert undir rós. En Vigdís veit venjulega hvað hún syngur og óvarlegt að gera athugasemdir við meðferð hennar á íslensku máli. Pistil Guðmundar Andra Thorssonar í Alþýðublaðinu 1996 undir fyrirsögninni „Íssland“ má líka skilja svo að honum finnist þessi framburður hafa einhver sérstök tengsl við landið: „… því hér er allt sem ann ég. Tveir dagar í viðbót og ég verð farinn að bera það fram eins og sannur ættjarðarvinur með stuttu í-i og tveimur essum: Íssland.“ En það er fjarri því að þessi framburður sé einhver nýjung eins og sjá má í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Jón Ófeigsson menntaskólakennari sem var fær hljóðfræðingur hljóðritaði öll flettiorð í þeirri bók. Orðið Ísland hljóðritar hann á tvo vegu, [iːslant] og [i·slant], þ.e. ýmist með tveimur punktum eða einum á eftir í – tveir punktar tákna langt hljóð en einn punktur „hálfa lengd“. Orð eins og ístra hljóðritar Jón [i·sdra], og ískra er einnig sýnt með hálfri lengd á í – aftur á móti eru orð eins og t.d. ístað og íslaus eingöngu hljóðrituð með löngu í. Það er því ljóst að Jón gerði ráð fyrir tvenns konar framburði á Ísland – annars vegar framburði með löngu í eins og í ístað og hins vegar framburði þar sem í-ið hefði sömu lengd og það hefur í orðum eins og ístra og ískra. Það er sá framburður sem við skynjum sem Íssland og er því a.m.k. hundrað ára gamall.

Það er alveg rétt að heiti landsins er ekki eignarfallssamsetning, Íss-land, þótt slík samsetning gæti vissulega staðist, heldur stofnsamsetning, Ís-land. En það táknar ekki að framburður með stuttu í sé rangur. Sá framburður kemur til ef reglu um lengd sérhljóða – sem segir að sérhljóð sé stutt ef tvö eða fleiri samhljóð fara á eftir – er beitt á orðið í heild, en ekki á hvern orðhluta fyrir sig. Það er eðlilegt og algengt í samsettum orðum, ekki síst örnefnum eins og ég hef skrifað um. Reglan tekur þá mið af bæði lokahljóði fyrri hlutans, s, og upphafshljóði þess seinni, l, og útkoman verður stutt í – en ef reglan miðar aðeins við samhljóð fyrri hlutans, s, verður í langt. Hvort tveggja er fullkomlega eðlilegur framburður og engin ástæða til að gera þar upp á milli.