Lítilmagnar, undirhundar – og underdogs

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær var haft eftir landsliðsþjálfaranum Åge Hareide: „Stundum getur hinn svokallaði lítilmagni [underdog] slegið til baka“ og í frétt undir fyrirsögninni „Undirhundar geta stundum bitið frá sér“ á vefnum fótbolti.net voru sömu ummæli endursögð „stundum geta undirhundarnir (litla liðið eða það ólíklegra, e. underdogs) bitið frá sér“. Þarna hefur landsliðsþjálfarinn sem sé notað enska orðið underdogs og það er í öðru tilvikinu þýtt lið fyrir lið, undirhundar, en í hinu tilvikinu er fundin íslensk samsvörun, lítilmagni. Það er þó sameiginlegt með báðum fréttum að íslenska orðið er skýrt með því enska og það má velta því fyrir sér hvers vegna það er gert og hvort fyrir því sé gild ástæða eða jafnvel brýn nauðsyn.

Orðið underdog merkir 'a person or group of people with less power, money, etc. than the rest of society' eða 'einstaklingur eða hópur fólks með minna vald, peninga o.s.frv. en annað fólk í samfélaginu'. Í Ensk-íslensku orðabókinni á Snöru er orðið skýrt 'sá sem má sín minna, lítilmagni; olnbogabarn'. Orðið kemur fyrst fyrir í íslensku samhengi í Þjóðviljanum 1973: „Með nokkrum hætti er hver „topdog“ háður „underdog“ (þeim sem minna má sín).“ Í DV 2000 er haft eftir Megasi: „Ég meina, ekki er ég kvenkyns og mér finnst ég vera hryllilega mikill „underdog“.“ Í grein eftir Ármann Jakobsson í Skírni 2006 segir: „Stephenie og Bobby Jon urðu það sem Bandaríkjamenn kalla „undirhunda“ (underdog) en við köllum smælingja.“

Á síðustu 10-15 árum hefur underdog verið töluvert notað í íslensku samhengi, einkum í íþróttafréttum – oft í gæsalöppum og stundum skýrt á íslensku. Á Vísi 2012 segir: „Ég er „underdog“ en það verður einhver að vera í því hlutverki.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „Okkur líður langbest þegar við erum litla liðið eða „underdog“.“ Í Fréttatímanum 2014 segir: „Ég hef alltaf verið „underdog“ og held að mér muni alltaf líða þannig.“ Á fótbolti.net 2013 segir: „Augljóslega yrði Ísland mesti „underdog-inn“ sem kæmist á heimsmeistaramótið.“ Í DV 2017 segir: „Portúgalar eru „the underdog“ í þessari keppni eins og við Íslendingar.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „Við erum alltaf svolitlir „underdogs“ (e. minni máttar).“

Skýringu á orðinu undirhundur er ekki að finna í neinum orðabókum. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í vesturíslenska blaðinu Heimskringlu 1943 en það sést fyrst í íslensku blaði 50 árum síðar. Samkvæmt Ritmálssafni Árnastofnunar kemur það þó fyrir í bók eftir Halldór Stefánsson frá 1959. Í Risamálheildinni eru um 60 dæmi um orðið frá síðustu 15 árum, megnið af samfélagsmiðlum. Dæmi úr öðrum textum eru nær öll innan gæsalappa og stundum skýrð á ensku eða íslensku. Í Kjarnanum 2018 segir: „Ernirnir hafa með undraverðum hætti tekið „undirhunda“ eða „underdog “ hlutverk sitt í fangið.“ Í Morgunblaðinu 2019 segir: „En að þessu sinni mæta þær til leiks sem svokallaðir „undirhundar“, eða það lið sem er ólíklegra til sigurs.“

Orðið undirhundur er vitanlega íslenska í þeim skilningi að báðir hlutar þess eru íslensk orð. En upphafleg merking enska orðsins er „the beaten dog in a fight“ eða „hundur sem er sigraður í átökum“ og þótt under samsvari undir og dog samsvari hundur má deila um hvort sömu merkingarvensl milli orðhlutanna og eru í underdog fáist með tengingu þeirra í íslensku. Orðið er líka óþarft því að við höfum gömul og þekkt íslensk orð yfir þessa merkingu eins og áður er komið fram – einkum lítilmagni en einnig smælingi o.fl. Í viðtali í Stundinni 2015 segir Jón Gnarr: „hugmyndafræði Besta flokksins gekk út á alls konar fyrir aumingja, sem var skásta þýðingin sem við fundum á hugtakinu underdog“ – en sú þýðing er kannski ekki heppileg.

Hvað sem þessu líður er undirhundur greinilega komið í einhverja notkun og venst sjálfsagt eins og önnur orð, og vitanlega má segja að það sé betri kostur en að nota underdog óbreytt. Hins vegar er það umhugsunarefni að ástæða skuli talin til að skýra íslensk orð eins og lítilmagni og undirhundar með ensku orði. Hægt er að líta á þetta sem eðlilega þjónustu við lesendur – fréttaskrifarar vilja hjálpa þeim til að skilja orðið með því að benda á enskt orð sem talið er líklegra að lesendur skilji. En einnig má líta á þetta sem vantraust á lesendum – talið óvíst að þeir muni skilja þetta annars. Hvort sem heldur er finnst mér það umhugsunarefni ef málnotendur þurfa stuðning ensku til að skilja íslensku. Þá erum við á varasamri braut.