Þetta skýrist senn
Forseti Íslands sagði á Bessastöðum áðan að hann vænti þess að það myndi skýrast „senn“ hver tæki við af Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra. Þetta endurtók hann nokkrum sinnum og þrátt fyrir að vera þráspurður fékkst hann ekki til að nefna nánari tímasetningu þótt á honum mætti skilja að hann væri að vísa til fáeinna daga í mesta lagi. En er hægt að negla nákvæma merkingu atviksorðsins senn niður? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'bráðum' en bráðum er aftur skýrt 'innan skamms tíma'. Í Íslenskri orðabók er senn skýrt 'bráðum, fljótlega, rétt strax'. Í fornu máli merkir orðið yfirleitt 'á sama tíma, í einu' eða 'strax, umsvifalaust'. Það er því að sjá að frá fornu máli hafi heldur teygst á þeim tíma sem orðið vísar til.
Það er ekki einsdæmi að fólk velti fyrir sé merkingu atviksorða sem vísa til tíma. Þekkt dæmi um það eru orð Vigdísar Hauksdóttur, þáverandi þingmanns Framsóknarflokksins, í Kastljósi 3. október 2013: „Og þegar er verið að ræða svona mál, svona brýn mál, þá er kannski strax teygjanlegt hugtak.“ Þetta vakti mikla athygli og á Vísindavefnum er að finna ítarlegt svar við spurningunni hvort strax sé virkilega teygjanlegt hugtak. Þar segir m.a. að „þegar orðið ‚strax‘ er notað sé mikilvægt fyrir árangursrík tjáskipti að gagnkvæmur skilningur sé á samhenginu sem orðið er notað í“ og slíkur skilningur þurfi „að vera til staðar til að báðir aðilar komi sér saman um hve langt sé í teygjunni“. Nú er spurningin: Hve löng er teygjan í senn?