Er að bera virðingu fyrir það sama og virða?
Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Guðveig segist bera virðingu fyrir þessum sjónarmiðum.“ Þetta er algeng málnotkun og hvarflar ekki að mér að nýta í hana eða halda því fram að hún sé röng í einhverjum skilningi, en þarna hefði ég fremur sagt Guðveig segist virða þessi sjónarmið. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið virðing skýrt 'viðurkenning og gott álit sem maður ávinnur sér frá öðrum, heiður' og í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'álit, heiður; það að virða'. Þótt sögnin virða sé vissulega skýrð 'bera virðingu fyrir' í Íslenskri nútímamálsorðabók mætti skilja skýringarnar á nafnorðinu virðing á þann veg að það sé einkum fólk fremur en skoðanir sem getur notið virðingar – sem hægt er að bera virðingu fyrir.
Þetta er samt ekki svo einfalt – það má finna ótal gömul dæmi um að virðing sé notað um annað en fólk. Í Kvennablaðinu 1913 segir: „þær bera þá virðingu fyrir þessu mikilvægasta máli íslenzku þjóðarinnar.“ Í Íslandi 1927 segir: „Maður hefir ekki getað séð það á blaðinu, að það bæri sérlega virðingu fyrir þessu ríki.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „Ég hafði borið svo óstjórnlega virðingu fyrir þessu bréfi.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „En alt í einu hjer um daginn fjekk jeg djúpa virðingu fyrir þessu gamla húsi.“ Í Morgunblaðinu 1955 segir: „Við verðum að bera mikla virðingu fyrir þessu framtaki.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „Þegar maður gengur um götur Varsjár, setur mann hljóðan af virðingu fyrir þessu minnismerki.“
Í staðinn fyrir virðing væri í flestum eða öllum þessum dæmum hægt að setja orðið lotning sem einmitt er skýrt 'djúp virðing' bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. En það eru líka dæmi frá ýmsum tímum um að bera virðingu fyrir skoðunum eða sjónarmiðum og þar væri tæpast eðlilegt að tala um lotningu. Í Dagskrá 1899 segir: „látum oss líka bera virðingu fyrir skoðunum annara manna.“ Í Heimskringlu 1902 segir: „Hann sýndi virðingu fyrir skoðununum og talaði heiðarlega um mótstöðumenn sína.“ Í Alþýðublaðinu 1966 segir: „en berum fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hvors annars.“ Í Tímanum 1982 segir: „Staðreyndin er jafnframt sú að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum landverndarmanna.“
Í þessum dæmum myndi ég nota sögnina virða í stað bera virðingu fyrir. Mér finnst virða í samhengi af þessu tagi merkja 'taka tillit til, taka mark á, taka alvarlega, gera ekki lítið úr' eða eitthvað slíkt fremur en tengjast áliti eða heiðri. En mér sýnist notkun sambandsins bera virðingu fyrir í þessari merkingu hafa aukist mjög á síðustu árum. Í Alþingisræðum í Risamálheildinni eru 129 dæmi um bera virðingu fyrir skoðun / sjónarmiði, þar af aðeins ellefu frá því fyrir aldamót. Auðvitað er ekkert athugavert við það eins og áður segir – þetta sýnir bara að við leggjum ekki öll nákvæmlega sömu merkingu í ýmis orð og orðasambönd. Það er í fínu lagi, svo framarlega sem það veldur ekki alvarlegum misskilningi – sem sjaldnast er.