Til skamms tíma
Í frétt á vef Feykis stendur í dag: „Það má geta þess að Arna Rún er svolítill Króksari, bjó til skamms tíma í foreldrahúsum hjá Óskari Jónssyni lækni og Aðalheiði Arnórsdóttur.“ Það vill svo til að ég þekki til á Króknum og veit því að til skamms tíma merkir þarna 'í stuttan tíma' – annars hefði ég skilið þetta sem 'þar til nú fyrir stuttu'. Á Vísindavefnum var eitt sinn spurt: „Mig langar líka að fá að vita um „til skamms tíma“. Það virðist vera mjög skipt milli þeirra sem ég hef spurt. Sumir vilja meina að það þýði „í stuttan tíma“ án tillits til hvort það var í nýlega eða fyrir löngu. En ég ólst upp við að það þýddi „var lengi en hætti fyrir stuttu“, sem sagt „var kennari til skamms tíma“ þýðir „var kennari í langan tíma en hætti fyrir stuttu síðan“.“
Ég ólst líka upp við þessa merkingu, og í svari Guðrúnar Kvaran var sagt að merkingin væri 'fram til þessa, þar til nú fyrir skemmstu' og vísað því til staðfestingar í dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar – og einnig í Íslenska orðabók, þar sem þó eru gefnar tvær merkingar – 'í stuttan tíma' og 'þar til nú fyrir stuttu'. Það er ljóst að mjög oft hefur sambandið fyrrnefndu merkinguna og sú síðarnefnda er útilokuð, t.d. ef setningin er í nútíð. Í Samtíðinni 1943 segir: „Húsgögnin eru fremur fátækleg og flest fengin að láni hér og hvar í þorpinu, því að tjaldað er til skamms tíma.“ Í Vísi 1946 segir: „Samningurinn er gerður til skamms tíma“. Í DV 1993 segir: „má gefa út sérstakt vegabréf sem gildir til skamms tíma og rennur út að áætlaðri ferð lokinni.“
Sé setningin aftur á móti í þátíð flækist málið. Stundum er þó ótvírætt að merkingin er 'í stuttan tíma', eins og í „Samningurinn var til skamms tíma“ í Morgunblaðinu 2020. En oft verður samhengið að skera úr. Í Tímanum 1987 segir: „Nú í haust fékk Natalja loks leyfi til að heimsækja mann sinn til München. […] Leyfið gilti til skamms tíma.“ Þarna er merkingin augljóslega 'í stuttan tíma'. Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 segir: „Fyrirkomulagið var í gildi til skamms tíma og þurfti úrskurð alþjóðadómstóls til að afnema það“ en í Morgunblaðinu 2009 segir: „Hann var í gildi til skamms tíma í senn, viku eða tvær vikur.“ Þarna sýnir samhengið ótvírætt að fyrra dæmið merkir 'þar til nú fyrir stuttu' en það seinna 'í stuttan tíma'.
Í sjálfu sér má segja að það liggi miklu beinna við að skilja til skamms tíma sem 'í stuttan tíma' en 'þar til nú fyrir stuttu' – í fyrrnefnda tilvikinu hafa orðin sína venjulegu merkingu hvert fyrir sig, en í síðarnefnda tilvikinu hefur sambandið sem heild ákveðna merkingu sem ekki verður ráðin af merkingu einstakra orða þess. Þetta má bera saman við hliðstæð sambönd eins og til langs tíma og til lengri tíma sem merkja 'í langan tíma' og til stutts tíma, til styttri tíma og til skemmri tíma sem merkja 'í stuttan tíma'. Í öllum þessum samböndum halda orðin venjulegri merkingu sinni og því er ekkert undarlegt að skilningur málnotenda á sambandinu til skamms tíma breytist og farið sé að skilja það á hliðstæðan hátt og hin samböndin, þ.e. 'í stuttan tíma'.
Þetta er alveg eðlilegur skilningur og því ekki lengur hægt að halda því fram að til skamms tíma merki eingöngu 'þar til nú fyrir stuttu'. Í Málfarsbankanum segir líka: „Orðasambandið til skamms tíma merkir að jafnaði: þar til fyrir stuttu.“ Athyglisvert er að þarna er sagt „að jafnaði“ og því viðurkennt að þessi merking er ekki algild. Það er hins vegar óheppilegt að þessi breytti skilningur á sambandinu leiðir til þess að í mörgum tilvikum er það tvírætt og þarf að reiða sig á samhengi til að skilja það eins og til var ætlast – og í sumum tilvikum dugir mállegt samhengi ekki einu sinni, heldur þarf þekkingu á aðstæðum eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi. En við það verðum við líklega bara að búa – það er enginn heimsendir.