Er reynslumikill sama og reyndur?
Í dag var hér spurt um orðið reynslumikill sem fyrirspyrjanda sýndist að væri æ meira notað í stað þess að vera reyndur eða með reynslu og spurði hvort þetta væri ekki nýleg tilhneiging. Svarið er játandi – elsta dæmi um reynslumikill á tímarit.is er reyndar frá 1902 – „Banalega hennar va'r löng og reynslumikil“ segir í Lögbergi. En þarna merkir orðið ekki það sama og nú, heldur þung, erfið, sem reyndi á' eða eitthvað slíkt. Elsta dæmi um orðið í nútímamerkingunni er í Stormi 1936: „Duglegustu mennirnir og reynslumestu innan stéttarinnar eru ofsóttir og rægðir.“ Annað dæmi er í Þjóðviljanum 1939: „hann hefur yfirsýn viturs manns og reynslumikils.“ En fram yfir 1960 eru aðeins fjögur dæmi um reynslumikill í nútímamerkingu.
Frá sjöunda áratugnum eru rúm 20 dæmi um orðið á tímarit.is, frá þeim áttunda um 60, en um 1980 tekur orðið mikinn kipp og notkun þess hefur farið mjög hratt vaxandi síðan. Í Risamálheildinni er á ellefta þúsund dæma um orðið – en rúm þrjátíu þúsund um reyndur þannig að það orð er a.m.k. ekki að hverfa. Orðið reynslumikill er ekki að finna í Íslenskri orðabók en í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'sem býr yfir mikilli reynslu'. Lýsingarorðið reyndur er aftur á móti skýrt 'sem hefur öðlast reynslu'. Þetta má e.t.v. túlka svo að reynslumikill feli í sér meiri reynslu en reyndur sem kann að vera þótt kannski sé hæpið að alhæfa um það, í ljósi þess að reyndur er skýrt 'sem hefur mikla reynslu' í Íslenskri orðabók.
En þótt merkingarmunur orðanna sé ekki augljós og mjög oft sé hægt að setja annað í stað hins finnst mér merkingin í reynslumikill vera almennari – vísa síður til einhverrar tiltekinnar reynslu. „Ég veit hvað þarf að gera og er orðinn reynslumikill“ segir í Vísi 2012. „Hann virkaði traustur, rólegur, reynslumikill, sanngjarn, vel menntaður“ segir í DV 2009. „Hann var reynslumikill, fumlaus og faglegur í sínum störfum“ segir í Morgunblaðinu 2018. Í þessum dæmum finnst mér reynslumikill vísa til almennrar reynslu, jafnvel merkja 'lífsreyndur', 'sjóaður' eða eitthvað slíkt. Ef reyndur væri notað í staðinn fyndist mér það fremur vísa til reynslu á einhverju ákveðnu sviði. En ég veit ekki hvort þetta er almenn tilfinning.