Fjarlægt var bílana

Ég sá í Málvöndunarþættinum að verið var að gera athugasemd við setninguna „Fjarlægt var bílana sem voru í árekstrinum“ í frétt mbl.is af árekstri á Ölfusárbrú. Þessu var reyndar snarlega breytt og nú stendur í fréttinni „Bílarnir sem voru í árekstrinum voru fjarlægðir“. Það er hefðbundin þolmynd af germyndinni (einhver) fjarlægði bílana – andlagið bílana er fært í frumlagssæti fremst í setningunni og sett í nefnifall, auk þess sem vera er skotið inn. Upphaflega setningin var hins vegar dæmi um hina svokölluðu „nýju þolmynd“ eða „nýju ópersónulegu setningagerð“ sem ég hef áður skrifað um. Í henni er andlagið látið halda sæti sínu á eftir sögn, og jafnframt halda þolfalli sínu, í stað þess að færast í frumlagssætið og fá nefnifall.

En ef andlagið er ekki fært í frumlagssætið stendur það tómt og einhvern veginn þarf að fylla það – ekki er hægt að byrja á sögninni og segja *var fjarlægt bílana. Í óformlegu málsniði væri frumlagssætið venjulega fyllt með það og sagt það var fjarlægt bílana. En í tiltölulega formlegu málsniði, eins og í blaðafrétt, kann þetta að virka of óformlegt. Þegar fylla þarf frumlagssætið vegna þess að setning er frumlagslaus er því oft gripið til svokallaðrar stílfærslu, þar sem sögn í fallhætti (nafnhætti eða lýsingarhætti þátíðar) er færð fremst í setninguna. Í setningunni hér á undan hefði ég getað skrifað þegar það þarf að fylla frumlagssætið en það fannst mér of óformlegt og notaði þess vegna stílfærslu í staðinn – færði nafnháttinn fylla fremst í setninguna.

Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að fréttaskrifarinn beitti stílfærslu og skrifaði „Fjarlægt var bílana“ en ekki það var fjarlægt bílana. En við það skapast áhugavert stíllegt ósamræmi. Stílfærsla er nefnilega einkenni á tiltölulega formlegu máli eins og áður segir, en „nýja þolmyndin“ nýtur ekki viðurkenningar sem fullgilt mál þótt þetta sé eðlilegt mál mikils fjölda yngra fólks – og muni væntanlega fara að sjást meira og meira í formlegu málsniði. Þarna lýstur sem sé saman formlegu og óformlegu málsniði og þess vegna hljómar „Fjarlægt var bílana“ svolítið undarlega í mínum eyrum, þótt ég sé orðinn vanur „nýju þolmyndinni“ og hefði ekkert kippt mér upp við það var fjarlægt bílana í töluðu máli eða á samfélagsmiðlum.

Nú þykist ég vita að mörgum finnist einu gilda hvort sagt er fjarlægt var bílana eða það var fjarlægt bílana og telji hvort tveggja jafn fráleitt og ljótt. En „nýja þolmyndin“ á sér hundrað ára sögu í málinu og hefur breiðst mikið út undanfarna áratugi, og er eðlilegt mál mjög margs fólks undir fertugu. Miðað við venjulega skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ eru því engar forsendur fyrir öðru en telja hana rétt mál. Dæmið sem vitnað var til í upphafi bendir til þess að fyrir fréttaskrifara sé hún fullkomlega eðlileg og tengist ekki sérstaklega óformlegu málsniði en hann hafi hins vegar tilfinningu fyrir því að algengasta gerð hennar með það henti illa í formlegu málsniði og betur fari á að nota formlega setningagerð eins og stílfærslu með henni í staðinn.