Hvenær hefst þrítugsaldur?

Hér hefur í dag sprottið nokkur umræða um það hvenær fólk komist á þrítugs-, fertugs-, fimmtugsaldur o.s.frv. Það er enginn vafi á því að daginn sem tuttugu ár eru liðin frá fæðingu verður maður tvítugur, daginn sem þrjátíu ár eru liðin frá fæðingu verður maður þrítugur, o.s.frv. Það er ekki heldur neinn vafi á því að málvenja er að segja að fólk sem er milli tvítugs og þrítugs sé á þrítugsaldri, fólk sem er milli þrítugs og fertugs á fertugsaldri, o.s.frv. Það er sem sé miðað við hærri tuginn, öfugt við það sem gert er í málum eins og dönsku þar sem talað er um tyverne, trediverne o.s.frv., og ensku þar sem talað er um twenties, thirties o.s.frv. Þessi málvenja hefur vissulega oft farið fyrir brjóstið á mörgum, en svona er hún nú samt.

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að fólk komist á þrítugsaldur, fertugsaldur o.s.frv. um leið og undanfarandi áratug lýkur – á tvítugsafmælinu hefjist þrítugsaldurinn, á þrítugsafmælinu hefjist fertugsaldurinn, o.s.frv. Þessi skilningur fær stuðning í orðabókum – í Íslenskri nútímamálsorðabók er þrítugsaldur í sambandinu á þrítugsaldri skýrt '20-29 ára aldur' og önnur sams konar orð á sama hátt. Í Íslenskri orðabók er þrítugsaldur skýrt 'aldurinn milli 20 og 30 ára (þó oft nær 30 ára)', fertugsaldur 'aldurinn milli 30 og 40 ára' o.s.frv. En skilningur sumra er aftur á móti sá að fólk sem er á tuttugasta og fyrsta ári sé ekki komið á þrítugsaldur, heldur standi á tvítugu – þrítugsaldurinn hefjist ekki fyrr en á tuttugu og eins árs afmælinu.

Ef fólk kemst ekki á þrítugsaldur fyrr en það verður tuttugu og eins árs gamalt er það ekki á þrítugsaldri nema í níu ár, og sama gildir um fertugsaldur, fimmtugsaldur o.s.frv. Það væri óeðlilegt ef um stærðfræði væri að ræða, en þarna er ekki verið að segja að þriðji tugur ævinnar sé aðeins níu ár, heldur þrítugsaldurinn. Það eru reyndar fordæmi fyrir því – í máli allra – að orð af þessu tagi vísi ekki til heils áratugar. Þannig merkir orðið tvítugsaldur 'aldurinn í kringum tvítugt' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók en 'aldur manns sem er kominn nálægt tvítugu (t.d. frá 16-18 ára aldri)' samkvæmt Íslenskri orðabók. Þarna er blæbrigðamunur, en engum dytti í hug að nota orðið um tíu eða ellefu ára börn þótt þau séu komin á annan tug ævinnar.

Þarna skiptir máli að gera mun á stærðfræði og málfræði. Orðið tugur er stærðfræðilegt íðorð sem miklu skiptir að við leggjum öll sömu merkingu í. Það væri óheppilegt og raunar fráleitt ef fólk færi t.d. að nota orðið tvítugur í merkingunni 'sem hefur lifað í 21 ár' eða eitthvað slíkt. Það er enginn vafi á því hvenær tveir tugir eru liðnir af ævinni. Orð eins og þrítugsaldur er hins vegar ekki íðorð og um merkingu þess fer eftir málvenju. Út af fyrir sig gæti það eins merkt ‚milli þrítugs og fertugs‘, þ.e. miðast við lægri tuginn en ekki þann hærri – en það er ekki venjan. En það getur hins vegar vel verið að tvær mismunandi venjur séu um það hvenær þrítugsaldur hefjist. Það getur verið óheppilegt og jafnvel valdið misskilningi en er ekki á neinn hátt rangt.