Ráðherranefnd um íslenska tungu deyr drottni sínum
Fyrir hálfu öðru ári var sett á stofn sérstök ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu og tilkynnt um hana með pomp og prakt á málþingi sem haldið var í tengslum við dag íslenskrar tungu 2022. Í fréttatilkynningu um stofnun nefndarinnar sagði að henni væri „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Þá mun ráðherranefndin vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins.“ Nefndin var undir formennsku forsætisráðherra en að auki áttu menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í henni.
Nefndin stóð að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun um íslenska tungu sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram í haust – hálfu ári á eftir áætlun – og er enn í meðförum Alþingis þótt hún eigi að gilda fyrir árin 2023-2026. Annað hefur ekki heyrst frá nefndinni en í fréttatilkynningu um stofnun hennar sagði að viðkomandi ráðuneyti myndu „hafa umsjón með skilgreindum áherslum sem verða útfærð í aðgerðaáætlun um íslenska tungu“. Ég stóð því í þeirri meiningu að henni væri ætlað að starfa áfram og fylgja eftir þessari tillögu sem vonandi verður samþykkt fyrir þinglok í vor. Ekki veitir af, því að aðgerðir í áætluninni eru lítið fjármagnaðar og mikilvægt að einstök ráðuneyti og ráðherrar vinni að fjármögnun þeirra.
Í dag birtist hins vegar fréttatilkynning á vef Stjórnarráðsins þar sem segir: „Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra um skipan ráðherranefnda. […] Ekki verða starfandi sérstakar ráðherranefndir um íslenska tungu, jafnréttismál og málefni innflytjenda og flóttafólks heldur verður áfram fjallað um þessi málefni í ráðherranefnd um samræmingu mála.“ Þetta er dapurlegur vitnisburður um áhugaleysi og getuleysi ríkisstjórnarinnar í málefnum íslenskunnar – málefnum sem eru brýnni en nokkru sinni fyrr – og bætist ofan á það áhugaleysi og getuleysi sem birtist með skýrum hætti í fjármálaáætlun næstu fimm ára eins og hér var rakið nýlega.