Hátíðardagur og hátíðisdagur
Í Málvöndunarþættinum var spurt út í tvímyndirnar hátíðardagur og hátíðisdagur – hvort báðar séu réttar, og hvernig skýra megi þá síðari í ljósi þess að hátíð er kvenkynsorð sem er hátíðar í eignarfalli eintölu. Því er til að svara að báðar myndirnar koma fyrir í fornu máli og eru álíka algengar, á fjórða tug dæma um hvora um sig. Í nútímamáli er myndin hátíðisdagur mun algengari – um hana eru rúm 13 þúsund dæmi á tímarit.is en rúm fjögur þúsund um hátíðardagur. Í Risamálheildinni eru hlutföllin svipuð – rúm 4.250 dæmi um hátíðisdagur en tæp 1.400 dæmi um hátíðardagur. Það er því ljóst að báðar myndirnar hljóta að teljast rétt mál, enda segir Málfarsbankinn: „Bæði .kemur til greina að segja hátíðisdagur og hátíðardagur.“
Í Íslenskri orðsifjabók er orðið hátíð sagt líklega vera tökuorð eða þýðingarlán úr miðlágþýska orðinu hochtît (hochzeit í nútímaþýsku). Þegar tökuorð eru aðlöguð málinu getur oltið á ýmsu hvernig það er gert, t.d. hvaða kyn nafnorð fá. Það er ekki útilokað að myndin hátíði hafi eitthvað verið notuð þótt hátíð hafi vissulega alltaf verið aðalmyndin – a.m.k. eru nokkur orð í fornmáli með fyrri liðinn hátíðis- sem væri eðlilegt eignarfall af hvorugkynsorðinu hátíði. Orðið hátíði kemur þó aldrei fyrir sjálfstætt svo að öruggt sé – að vísu er hátíðis dagur oft skrifað í tvennu lagi í handritum en á því er ekki hægt að byggja því að samsett orð voru mjög oft skrifuð þannig áður fyrr – sama gildir t.d. um hátíðar dagur.
Í Ritmálssafni Árnastofnunar kemur fram að eitt dæmi sé um hvorugkynsorðið hátíði – í Ljóðmælum Jóns Árnasonar á Víðimýri frá 1879. Örfá dæmi eru um hátíði á tímarit.is en þau gætu verið villur – sum þeirra koma fyrir í textum þar sem hátíð í kvenkyni kemur einnig fyrir. Nokkur önnur orð með fyrri liðinn hátíðis- koma einnig fyrir í nútímamáli. Í ljósi þess að kvenkynsorðið hátíð er mjög algengt en hvorugkynsorðið hátíði kemur nánast ekki fyrir (og svo sem ekki öruggt að það hafi nokkurn tíma verið til sem sjálfstætt orð) má virðast sérkennilegt að myndin hátíðisdagur skuli hafa orðið aðalmynd orðsins en ekki hátíðardagur. Það er þó ekkert einsdæmi að orð hagi sér öðruvísi í samsetningum en þegar þau standa ein sér.