Hryðjuverk

Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins var sagt frá því að maður vopnaður sverði hefði ráðist á fólk í London í morgun – drepið ungling og sært fjögur önnur. Á eftir atvikalýsingu var sagt: „Lögregla telur hættuna liðna hjá og árásin sé ekki hryðjuverk.“ Þótt ég hafi vissulega heyrt og séð svipað orðalag margoft áður kippist ég alltaf svolítið við, vegna þess að í því máli sem ég ólst upp við hefði slík árás einmitt fallið undir hryðjuverk. Það samræmist líka skýringu orðsins í Íslenskri orðabók: 'ódæðisverk, manndráp, limlesting.' Elstu dæmi um orðið eru frá 17. öld. Fyrri hluti þess er leiddur af nafnorðinu hroði ­og hryðjuverk er því eiginlega 'hroðalegt verk'. Áður fyrr var orðið notað um hvers kyns ódæði sem ekki yrðu öll kölluð hryðjuverk nú.

Í Ingólfi 1855 segir t.d. frá mönnum sem voru ákærðir fyrir að hafa „yfirfallið næturvörð bæjarins með höggum og slögum; við hver áflog nöglin rifnaði svo upp á þumalfingri næturvarðarins, að hún að eins lafði á lítilli taug“. Í dómsúrskurði sagði: „Um Guðmund varð að vísu ekki sannað með vissu, að hann persónulega hefði misþyrmt næturverðinum, og heldur voru líkur að því, að hann hefði otað Vigfúsi fram til hryðjuverkanna.“ Í Fjallkonunni 1889 er sagt frá kvennamorðum Jack the Ripper: „er helst haldið að einhver úr lögreglunni sjálfri sé valdr að þessum hryðjuverkum.“ Undir fyrirsögninni „Slysfarir og hryðjuverk“ í Ísafold 1892 segir m.a.: „Maður beit því nær nef af kvennmanni á Fagranesi á Reykjaströnd.“

Mjög oft eru hryðjuverk þó ekki einangruð ódæðisverk sem einstaklingar fremja heldur þáttur í stríðsátökum og framin af stærri hópi, oft óskilgreindum, eða jafnvel heilum þjóðum. Í Þjóðólfi 1863 segir: „Í Pólen hjarir uppreistnin enn, og hafa verið smábardagar, manndráp og hryðjuverk.“ Í Baldri 1869 segir: „Nú var farið að tala um hryðjuverk þau, sem unnin voru í borgarastyrjöldinni, og ránskap Karlunga.“ Í Norðanfara 1879 segir: „Níhílistar hefna sín með verstu hryðjuverkum og leggja eld í bæji, þar sem þeir koma því við.“ Fjallkonunni 1891 segir: „Borgarastríðið stendr enn þá, og eru ógurleg hryðjuverk framin daglega.“ Í Lögbergi 1895 segir: „Ennþá halda hryðjuverk Tyrkja og ofsóknir við kristna menn áfram í Armeníu.“

Á síðustu árum hefur merking orðsins hins vegar orðið sérhæfðari eins og skýring þess í Íslenskri nútímamálsorðabók sýnir: 'ódæðisverk sem framið er til að skapa ótta meðal fólks, eða til fá einhverjum pólitískum eða trúarlegum kröfum fullnægt.' Þessi sérhæfing orðsins er a.m.k. síðan um síðustu aldamót. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Alþjóðasambandið undirstrikar að dráp á einungis einni manneskju er ofbeldisverk sem skoða má sem hryðjuverk.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Líta yfirvöld á sprengjutilræðin sem hryðjuverk.“ Í DV 2002 segir: „Þar sem enn er deilt um hvernig skilgreina skuli hugtakið „terroristi“ eða „hryðjuverkamaður“ er mikil hætta á að friðsamlegar aðgerðir fólks verði skilgreindar sem „hryðjuverk“.“

Orðið hryðjuverk hefur því í raun verið gert að eins konar íðorði og notað sem þýðing á (act of) terrorism í ensku. Skilgreining þess fer því ekki eingöngu eftir eðli verknaðarins heldur einnig ástæðu hans og það þýðir að tiltekið ódæðisverk getur ýmist talist hryðjuverk eða ekki, eftir því hvað liggur að baki. Vegna þess að ódæðið sem sagt var frá í upphafi virðist hafa verið einangraður tilfallandi atburður en ekki á vegum einhverra pólitískra samtaka eða í pólitískum tilgangi er það ekki talið hryðjuverk. Það er í sjálfu sér gagnlegt að hafa sérstakt orð yfir ódæði af þessu tagi og ekki illa til fundið að nýta orðið hryðjuverk í þeim tilgangi, þótt það geti stundum verið svolítið ruglandi fyrir þau sem ólust upp við almennari merkingu orðsins.