Neðan úr loftinu

Í dag var hér bent á að stundum væri sagt ljósakrónan hangir neðan úr loftinu sem væri undarlegt þar sem neðan þýddi 'upp', sbr. koma neðan úr kjallara. Fyrirspyrjandi taldi sig sjá þetta og heyra æ oftar og velti fyrir sér hvernig stæði á þessum misskilningi. Það er rétt að í fljótu bragði virðist þetta ekki samræmast venjulegri merkingu forsetningarinnar/atviksorðsins neðan eins og henni er lýst í orðabókum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er neðan skýrt 'fyrir neðan eitthvað, neðan við eitthvað' og í Íslenskri orðabók '(um hreyfingu frá lægri stað til hærri) upp', (koma að neðan) 'um það sem er lægra eða undir e-u' (neðan bæjarins) og '(í sambandi við ao. eða fs.) á lægri stað en e-ð annað' (neðan undir klettinum, fyrir neðan bæinn).

Í öllum þessum merkingartilbrigðum er vísað til hreyfingar. En neðan getur líka vísað til kyrrstöðu, í merkingunni 'neðri hluti', 'neðra borð' – í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið að neðan sjálfstæð fletta og skýrt m.a. 'að neðanverðu' og í Íslenskri orðabók er neðan til, að neðan skýrt á sama hátt. Í Blöndu 1923 segir: „Hún var altaf í karlmannafötum, buxum að neðan auðvitað.“ Í Eimreiðinni 1937 segir: „Einn félaganna fór þó yfir hana á þann hátt, að hann fór úr fötum að neðan og óð.“ Í Iðunni 1860 segir: „Öll er pentskript þessi neðan á loptinu óskemmd enn í dag.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir  „Pönnukökupannan er hituð og kökurnar bakaðar við góðan hita þar til komnir eru svartir flekkir neðan á þær.“

Sambandið neðan úr loftinu er ekki óeðlilegt út frá þessu – það merkir í raun 'úr loftinu að neðan, úr neðra borði loftsins'. Sambandið hefur líka tíðkast lengi – elsta dæmið er í Þjóðólfi 1909: „bróðir hans kom skríðandi niður kaðalinn, er hékk neðan úr loptinu.“ Í Morgunblaðinu 1940 segir: „Þar rak jeg augun í eitthvað mjer alveg óþekt, sem hekk neðan úr loftinu.“ Í Morgunblaðinu 1946 segir: „Köngurlóavefir hjengu neðan úr loftinu, þykkt ryklag var á gólfinu.“ Alls eru hátt í hundrað dæmi um neðan úr loftinu á tímarit.is og um fjörutíu í Risamálheildinni. Þótt neðan vísi vissulega langoftast til hreyfingar er engin hætta á misskilningi í þessu tilviki – neðan úr loftinu gæti ekki merkt neitt annað en það gerir.