Há hálsbólga?

Nýlega birtist á vef Ríkisútvarpsins frétt með fyrirsögninni „Lægsta verðbólga á Íslandi í rúm tvö ár“. Í tilefni af því var spurt í Málvöndunarþættinum: „Getur hálsbólga líka lækkað og hækkað?“ Þetta er í sjálfu sér ekki óeðlileg spurning – með orðinu bólga einu og sér, sem og samsetningum með það sem seinni lið svo sem hálsbólga, lungnabólga, heilahimnubólga, blöðrubólga, eyrnabólga, júgurbólga o.m.fl., standa yfirleitt önnur lýsingarorð en hár og lágur, og aðrar sagnir en hækka og lækka. Algengast er að tala um að bólga sé mikil og vaxi eða aukist eða versni, eða lítil og minnki eða batni – þegar um útvortis bólgu er að ræða er oft talað um að hún hjaðni. En verðbólga er vissulega annars eðlis og ekki undarlegt að hún hagi sér öðruvísi.

Eins og Jón Hilmar Jónsson hefur rakið í ágætri grein á Vísindavefnum er elsta dæmi um orðið verðbólga í ræðu Jónasar Jónssonar frá Hriflu á Alþingi árið 1927 þar sem hann eignar Jóni Þorlákssyni forsætisráðherra orðið. Það var þó ekki fyrr en undir 1940 að orðið varð algengt og þá fara að sjást með því ýmis lýsingarorð og sagnir. Elsta dæmi um mikil verðbólga er frá 1940, um lítil verðbólga frá 1946, um verðbólga vex frá 1941, um verðbólga hjaðnar frá 1940, um verðbólga eyst frá 1942, um verðbólga minnkar frá 1944. Það er því ljóst að framan af voru notuð sömu lýsingarorð og sagnir með orðinu verðbólga og með öðrum samsetningum af -bólga. Þetta virðist ekki hafa farið að breytast að ráði fyrr en á áttunda áratugnum.

Í umræðum í Málvöndunarþættinum benti Einar Ólafsson á lykilatriði málsins: „Ef hálsbólgan væri mæld og gefin upp í tölum eins og verðbólga“ væri eðlilegt að nota um hana lýsingarorðin hár og lágur, og sagnirnar hækka og lækka. Elsta dæmi um sambandið há verðbólga er frá 1974, um lág verðbólga frá 1970. Fáein dæmi eru um lækka og hækka með verðbólga frá því á fimmta áratugnum en þessi sambönd fara ekki að sjást að ráði fyrr en eftir 1970. Það er einmitt um svipað leyti sem farið er að tala um verðbólgumælingar. Elsta dæmi um það á tímarit.is er að vísu frá 1959, en annars sjást ekki dæmi fyrr en á áttunda áratugnum – verðbólga mæld 1972, verðbólga mælist 1974, verðbólgumæling 1974, mæla verðbólgu 1979, o.s.frv.

Það er því ekki vafi á að þetta hangir saman – mælingar valda breyttri notkun lýsingarorða og sagna. Það þýðir samt ekki að hætt sé að nota önnur lýsingarorð og sagnir með orðinu verðbólga. Þvert á móti – í Risamálheildinni eru almennu lýsingarorðin og sagnirnar, þau sem notuð eru með öðrum -bólgu-orðum, yfirleitt talsvert algengari en þau „sérhæfðu“, hár og lágur, hækka og lækka – eina undantekningin er sú að lág verðbólga er talsvert algengara en lítil verðbólga. En þetta dæmi sýnir annars vegar að þótt orð hafi sama seinni lið þýðir það ekki endilega að þau taki með sér sömu sagnir og lýsingarorð, og hins vegar að þótt merking orðins verðbólga hafi ekki breyst hafa breytingar á notkun þess áhrif á orðin sem það tekur með sér.