Um menn og fólk

Samsetningar með seinni liðnum -fólk, ekki síst íbúaheiti, virðast fara fyrir brjóstið á sumum – heitin Bandaríkjafólk og Palestínufólk hafa nýlega verið nefnd hér í tveimur innleggjum með augljósri vanþóknun. Vissulega er það rétt að venjan er að tala um Bandaríkjamenn og Palestínumenn – elsta dæmi um hið fyrrnefnda á tímarit.is er frá 1852, en um það síðarnefnda frá 1933. Um orðið Bandaríkjafólk eru aðeins 60 dæmi á tímarit.is og átta í Risamálheildinni, en það er þó orðið gamalt – elsta dæmi um það er frá 1893. Um orðið Palestínufólk eru kringum 70 dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1958. Aftur á móti eru 108 dæmi um Palestínufólk í Risamálheildinni þannig að notkun þess fer greinilega vaxandi á seinustu árum.

Þótt hvorki Bandaríkjafólk Palestínufólk séu nýmyndaðar samsetningar er vitanlega lítil hefð fyrir notkun þeirra og auðvitað er skiljanlegt þær hljómi framandi í eyrum margra sem telji því eðlilegra að nota áfram hin venjulegu heiti Bandaríkjamaður og Palestínumaður. Í umræðu um þetta var spurt hvort ekki væri eðlilegt framhald að fara að tala um Ísraelsfólk fremur en Ísraelsmenn. Því er til að svara að það er einmitt það sem var gert áður fyrr. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 er orðið Ísraelsmenn notað rúmlega 20 sinnum, en Ísraelsfólk nærri helmingi oftar – rúmlega 40 sinnum. Myndin Ísraelsfólk er enn töluvert notuð í Viðeyjarbiblíu frá 1841 en hefur verið útrýmt með öllu úr síðustu þýðingum Biblíunnar, frá 1981 og 2007.

Vitanlega verður fólk að eiga við sjálft sig hvaða orð það vill nota og sannarlega má ekki gera lítið úr málhefðinni. En fleira skiptir þó máli og hér finnst mér mikilvægt að hafa þrennt í huga. Í fyrsta lagi eru samsetningar með -fólk vitanlega góð og gild íslenska og fjölmargar slíkar algengar þegar í fornu máli. Í öðru lagi eru umrædd orð gömul í málinu en ekki nýmyndanir „góða fólksins“ og Ísraelsfólk virðist m.a.s. hafa verið aðalorðið áður fyrr. Í þriðja lagi er ljóst að samsetningar með -maður/-menn tengjast karlmönnum mun meira en konum í huga málnotenda eins og ég hef sýnt fram á með orðið Bandaríkjamaður. Í almennri kynhlutlausri vísun eru því samsetningar með -fólk heppilegri en samsetningar með -menn.