Hópun

Í dag var hér spurt hvað fólki fyndist um orði hópun sem notað var í íþróttafréttum í Ríkisútvarpinu í hádeginu – sagt var „UEFA vill með þessu minnka hópun að dómurum“ – þ.e. þegar leikmenn hópast að dómara meðan á leik stendur, yfirleitt til að koma á framfæri mótmælum við einhverjar ákvarðanir hans. Nafnorðið hópun er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrt þar 'Opdyngen, Sammenhoben' – dynge op merkir 'hrúga upp, safna saman' og Sammenhobning merkir 'samsöfnun'. Auk þess er orðið að finna í Tölvuorðasafninu og íðorðasafninu Hugbúnaðarþýðingar í Íðorðabankanum sem þýðingu á enska orðinu grouping.

Elsta dæmi um orðið hópun er í Frey 1931: „Hópun fólksins í kaupstaðina hefir orðið of ör.“ Annað dæmi frá sama ári er í Lögréttu: „Að hætta að lána út á fiskinn í sjónum, svo að það þurfi ekki lengur að stuðla að hópun fólks við sjávarsíðuna.“ Í Skutli 1941 segir: „Um hópun þurra staðreynda hefir höfundurinn sýnt smekkvísi og hófsemi.“ Í Morgunblaðinu 1964 segir: „Þetta verður auðveldast að útskýra með því að taka sem dæmi hin nánu tengsl milli mikillar hópunar síldarinnar og mikils sjávarshita.“ Í Náttúrufræðingnum 1988 segir: „Árið 1983 benti Kristján á að þessi hópun sprungna og gosstöðva í ákveðnar reinar hefði komið fram á korti Guðmundar G. Bárðarsonar.“ Á tímarit.is má finna tæplega tuttugu dæmi um orðið, þar af eitt frá þessri öld.

Notkun orðsins virðist ekki fara vaxandi – dæmin um það í Risamálheildinni eru aðeins fjögur, öll af samfélagsmiðlum. Dæmin eru svo fá, dreifð yfir svo langan tíma, og svo fjölbreytt, að litlar líkur eru á að einn notandi hafi orðið eftir öðrum. Mun líklegra er að það hafi í raun verið „búið til“ margsinnis – notendur hafi þurft á orði með ákveðna merkingu að halda og búið slíkt orð til á staðnum. Viðskeytið -un sem bætt er við stofn sagnar og táknar 'það að gera' það sem í sögninni felst er eitt frjóasta viðskeyti málsins. Það er jafnframt yfirleitt fullkomlega gangsætt, þannig að ef við heyrum eða sjáum nýtt orð myndað með því erum við yfirleitt ekki í neinum vafa um merkingu þess, svo framarlega sem við þekkjum sögnina sem það er myndað af.

Þess vegna geri ég ráð fyrir að öllum sem heyrðu íþróttafréttirnar í hádeginu hafi strax verið ljóst hvað hópun merkti þar, enda þótt fæst hafi sennilega þekkt orðið áður. Það er hins vegar athyglisvert að í skrifaðri gerð fréttarinnar á vef Ríkisútvarpsins er orðið hópun ekki notað –  samsvarandi setning er þar: „UEFA ætlar að gera tilraun til að taka á hópamyndum og mótmælum við dómara á EM í Þýskalandi í sumar.“ Nú er svo sem algengt að skrifuð gerð fréttar sé frábrugðin þeirri sem er lesin upp, en hugsanlega hefur yfirlesari komist í skrifuðu gerðina og fundist hópun of framandi orð. Mér finnst hópamyndun raunar ekki merkja alveg það sama og hópun sem mér finnst ágætis orð sem sjálfsagt er að nota þegar við á – t.d. þarna.