Þúsund pistlar

Eins og sjá má á heimasíðu minni er þetta þúsundasti pistill minn síðan ég fór að skrifa reglulega um íslenskt mál á Facebook fyrir tæpum fimm árum, í byrjun ágúst 2019. Fyrsta árið birtust pistlarnir í Málvöndunarþættinum en í byrjun ágúst 2020 stofnaði ég hópinn Málspjall og þar hafa pistlarnir flestir birst síðan – og eldri pistlar úr Málvöndunarþættinum hafa verið endurbirtir þar. Þeir eru einnig allir birtir á heimasíðu minni, eirikur.hi.is. Hver pistill er frá 250 til þúsund orð að lengd, en langflestir eru á bilinu 500-750 orð. Samtals eru þeir núna orðnir um 540 þúsund orð, sem jafngildir u.þ.b. átta bókum af svipaðri lengd og bók mín Alls konar íslenska sem kom út vorið 2022 og er unnin upp úr pistlum frá fyrstu tveimur árunum.

Undir viðfangsefni hópsins Málspjall fellur hvaðeina sem varðar íslenskt mál, málfræði, málfar og málnotkun, og í samræmi við það er efni pistlanna mjög fjölbreytt. Þeir fjalla um stöðu íslenskunnar, íslenska málstefnu, aðgerðir stjórnvalda í málefnum íslenskunnar, „rétt“ mál og „rangt“, enskunotkun á Íslandi, íslensku sem annað mál, kynhlutleysi í máli, kynsegin mál, orðræðugreiningu, lesskilning og ýmislegt fleira. Langflestir fjalla þó um málfarsleg atriði – uppruna, aldur, eðli, útbreiðslu og tíðni ýmissa atriða og tilbrigða í íslenskum framburði, beygingum, setningagerð, merkingu, orðfæri, orðasamböndum o.fl. Þótt ég leggi vissulega oft mat á þau málfarsatriði sem um ræðir er meginmarkmið pistlanna að fræða, ekki dæma.

Samfélagsmiðill eins og Facebook er vissulega ekki að öllu leyti heppilegur vettvangur fyrir langa og stundum strembna pistla af þessu tagi sem tekur nokkurn tíma að lesa og átta sig á, og ég veit svo sem ekkert hversu mikið pistlarnir eru lesnir þótt ég fái vissulega stundum ýmis viðbrögð við þeim. Ef pistlarnir verða einhverjum öðrum til gagns eða skemmtunar er það auðvitað ánægjulegt, og ég fæ stundum þakkir og hvatningu sem mér þykir mjög vænt um. En þetta er ekkert aðalatriði fyrir mér – ég er fyrst og fremst að þessu sjálfum mér til skemmtunar og fróðleiks og finnst ég hafa lært gífurlega mikið síðan ég byrjaði á pistlaskrifunum. Ég stefni allavega að því að halda áfram enn um hríð – engar líkur eru á því að viðfangsefni þrjóti í bráð.