Spikk og span

Orðasambandið spikk og span í merkingunni 'tandurhreint' er þekkt í íslensku en virðist ekki vera mjög gamalt í málinu. Í morgun sagðist hópverji hafa heyrt spick and span í amerískum þætti og hefði komið það á óvart þar sem hann hefði alltaf talið að það væri gömul dönskusletta. Elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er þrjátíu ára gamalt, í DV 1993: „Ofræstikonurnar sjá um að halda býtibúrunum spikk og span.“ Annað dæmi er úr Morgunblaðinu sama ár: „Það gengur allt svo vel hjá honum og stelpunum; allt „spikk og span“ og fullt af aga.“ Um aldamótin fara svo að sjást fleiri dæmi, og þá var líka stofnuð bílaþvottastöð undir heitinu Spikk & Span. Notkunin fer vaxandi – alls eru rúm 90 dæmi um orði á tímarit.is en rúm 300 í Risamálheildinni.

Það er ekki vafi á því að spikk og span er komið af enska sambandinu spick and span sem merkir í nútímamáli 'mjög snyrtilegt, hreint og vel hirt' og er komið af spick-and-span-new í 16. aldar ensku. Orðið spick er það sama og spike í nútímaensku, 'nagli', og span-new er komið af spánnýr í norrænu sem merkir upphaflega 'nýr eins og viðarspónn, rjúkandi, angandi eins og hefilspónn'. Sambandið spick-and-span-new sem kann að hafa orðið til fyrir áhrif frá spiksplinter nieuw í hollensku merkti því bókstaflega 'eins og nýsmíðað skip úr nöglum og timbri' en styttist síðan í spick-and-span og fékk merkinguna 'tandurhreint'. Líkingin er skiljanleg – ný tréskip voru ljós, hrein og snyrtileg en dökknuðu fljótt og létu á sjá.

En ekki er ólíklegt að notkun sambandsins spikk og span í íslensku megi m.a. rekja til ræstidufts með nafninu Spic and Span sem var framleitt í Bandaríkjunum frá 1933 og selt á Íslandi a.m.k. frá 1959. Í auglýsingu í Íslendingi það ár segir: „Ameríska hreinsiefnið SPIC AND SPAN til gólfþvotta og hreingerninga. Ekkert skrúbb. Ekkert skol. Engin þurrkun. Þér þurfið aðeins að blautvinda klútinn eða þvegilinn og strjúka einu sinni yfir og öll óhreinindi strjúkast af á svipstundu.“ Í auglýsingu í Morgunblaðinu 1960 segir: „Húsmóðirin hefir ávallt kviðið fyrir vorhreingerningunum en nú verða þær léttur leikur með Spic and Span.“ Þetta töfraefni var mikið auglýst fram til 1964 en virðist þá hafa horfið af markaðnum en orðið eftir í tungumálinu.