Háir skaflar – eða djúpir?

Í Málvöndunarþættinum var vitnað í fyrirsögnina „Snjóskaflarnir allt að fjögurra metra djúpir“ á mbl.is og sagt „Hefði frekar notað hversu skaflarnir væru háir.“ Hér er við hæfi að vitna í greinina „Um þýðingarleysi“ sem Þorgeir Þorgeirson skrifaði í Tímariti Máls og menningar 1984: „Þó get ég ekki stilt mig um að nefna skemtilegt dæmi (sem einnig sannar hvað orðabókin getur verið tvíeggja vopn í þessu stríði). Frummál: (du) opsluges af en höj snedrive, verður í fyrsta uppkasti: (þú) ert gleyptur af háum snjóskafli. Þetta er lemstrað. Hvað er að? Vangaveltur og stunur, göngutúr niðrað Tjörn og loksins kemur það. Íslenskur snjóskafl er ekki hár heldur djúpur!!! Og setningin er flutt yfir svolátandi: (þú) sekkur í djúpan skafl sem gleypir þig.“

Þetta er samt ekki alveg svona einfalt. Á tímarit.is eru talsvert fleiri dæmi um hár (snjó)skafl en djúpur (snjó)skafl, og í Risamálheildinni eru dæmin með hár meira en þrisvar sinnum fleiri en dæmin með djúpur, þannig að hár virðist vera aðalorðið og sækja á í þessu sambandi öfugt við það sem Þorgeir sagði. En þótt merkingin virðist svipuð er ekki alltaf hægt að skipta öðru orðinu út fyrir hitt vegna þess að þau endurspegla oft mismunandi sjónarhorn. Skaflinn er djúpur ef horft er á hann lóðrétt, ofan frá, t.d. ef maður sekkur í hann eins og í dæmi Þorgeirs. En hann er hár ef horft er á hann lárétt, t.d. ef staðið er við hlið hans. Íslenskur snjóskafl getur þess vegna verið bæði hár og djúpur, eða ýmist hár eða djúpur, eftir því hvernig á það er litið.

Þessi mismunandi sjónarhorn má sjá í textum frá ýmsum tímum. Í Ársriti hins íslenzka kvenfélags 1899 segir: „piltarnir í skóla þessum höfðu fleygt skólastjóranum á höfuðið út um gluggann og ofan í djúpan snjóskafl.“ Í Dýravininum 1909 segir: „Hann gróf sig í fönn í djúpum skafli.“ Í Morgunblaðinu 1956 segir: „Í svo sem tuttugu metra fjarlægð frá þeim tók skíðamaðurinn heljarmikið stökk, stakkst á höfuðið í djúpan snjóskafla og hvarf sjónum þeirra.“ Í Norðanfara 1873 segir: „Snjórinn er sagður hafa fokið saman í 15 feta háa skafla eða meira.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Hér eru nú stiku háir snjóskaflar á aðalgötum miðbæjarins.“ Í Jólablaðinu 1930 segir: „Stormurinn hefur hlaðið snjónum í háa skafla hér og þar.“

Hitt er annað mál að óvíst er að málnotendur geri alltaf þennan mun eða átti sig á honum, og oft getur sjónarhornið líka verið á hvorn veginn sem er. Í umræddri frétt mbl.is segir: „Búið er að stinga í gegnum skaflana á heiðinni, sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra djúpir, að því er fram kemur á heimasíðu Vegagerðarinnar“ – en þar segir hins vegar: „Búið er að stinga í gegnum skaflana sem margir hverjir eru allt að fjögurra metra háir“ (feitletrun mín). Hvort tveggja getur átt rétt á sér – það má segja að áður en farið er að moka séu skaflarnir djúpir því að þá er eingöngu horft á þá lóðrétt, en þegar búið er að moka göng í gegnum skaflana má tala um þá sem háa því að þá er hægt að vísa í stálið sitt hvoru megin við snjógöngin.