Utankjörfundur og utandeild

Í dag sá ég í færslu á Facebook: „Fór í dag á utankjörfund að kjósa nýjan forseta!“ Það minnti mig á að einu sinni skrifaði ég um orðið utankjörfundur sem er stórundarlegt orð ef út í það er farið. Orðið er stytting á utankjörfundaratkvæðagreiðsla sem merkir 'atkvæðagreiðsla utan kjörfundar' og utankjörfundur er því „órökrétt“ – þetta er einmitt alls ekki kjörfundur. Til að átta sig betur á þessu er nauðsynlegt að skoða aðrar margliða samsetningar með utan- sem fyrsta lið, sem eru fjölmargar í málinu – utanborðsmótor, utanbókarlærdómur, utanbæjarmaður, utanflokksfólk, utangarðsmaður, utanhússmálning, utanlandsflug, utanlegsfóstur, utanríkismál, utanskólanemandi, utanvegaakstur, utanþingsstjórn og margar fleiri.

Meginskilin í orðunum eru ekki á eftir utan-, heldur á eftir næsta lið – ekki utan-borðsmótor heldur utanborðs-mótor ('mótor utan borðs'), ekki utan-hússmálning heldur utanhúss-málning ('málning til nota utan húss'), ekki utan-skólanemandi heldur utanskóla-nemandi ('nemandi utan skóla') o.s.frv. Í Ritreglum segir: „Valfrjálst er hvort nokkur orð eða orðasambönd með atviksorði og nafnorði í eignarfalli eru rituð í einu eða tveimur orðum. Ef orðasambandið er hluti af frekari samsetningu eru öll orðin ávallt rituð sem ein heild.“ Sem dæmi eru m.a. tekin samböndin utan borðs, utan húss og utan skóla sem einnig má rita utanborðs, utanhúss og utanskóla – en utanborðsmótor, utanhússmálning og utanskólanemandi eru rituð í einu orði.

Þarna er vissulega verið að tala um stafsetningu en ég held að hún falli að máltilfinningu fólks – við getum skynjað utan + nafnorð í eignarfalli ýmist sem eitt orð eða tvö en þegar annað nafnorð kemur á eftir skynjum við þetta sem eina heild. Þótt utanborðsmótor, utanhússmálning, utanskólanemandi o.s.frv. líti út eins og dæmigerðar eignarfallssamsetningar getur fyrri hlutinn, utan- + nafnorð, yfirleitt ekki verið sjálfstætt nafnorð. Orðin *utanborð, *utanbók, *utanbær, *utanflokkur, *utangarður, *utanhús, *utanland, *utanleg, *utanríki, *utanskóli, *utanvegur og *utanþing eru ekki til. Ef litið er á utan + nafnorð sem eitt orð í dæmum eins og utanborðs, utanhúss og utanskóla hljóta þetta að vera atviksorð, og þannig eru þau greind í orðabókum.

Samt sem áður er það auðvitað þannig að orð eins og utanborðsmótor, utanhússmálning og utanskólanemandi líta út eins og dæmigerðar samsetningar sjálfstæðra orða og þess vegna væri ekkert undarlegt ef málnotendur skynjuðu þau þannig og færu að nota fyrri hlutann sem nafnorð. Það er einmitt það sem hefur gerst með samsetninguna utankjörfundaratkvæðagreiðsla sem er a.m.k. 90 ára gamalt – þar er fyrri liðurinn, utankjörfundar-, skynjaður sem nafnorð í eignarfalli og farið með hann sem slíkan. Þannig verður orðið utankjörfundur til – elsta dæmi um það er í fyrirsögn í Fréttablaðinu 2002: „Utankjörfundur: Ríflega 1.900 manns hafa kosið.“ Ljóst er að orðið er notað í sömu merkingu og utankjörfundaratkvæðagreiðsla.

Þótt slík endurtúlkun fyrri liðarins í samsetningum af þessu tagi sé ekki algeng er þetta ekki einsdæmi. Í knattspyrnu og fleiri greinum hefur lengi verið talað um utandeildarlið, þ.e. lið sem tekur ekki þátt í deildarkeppni í viðkomandi íþróttagrein – elstu dæmi um það orð eru fimmtíu ára gömul. Um 1990 var svo farið að skipuleggja sérstaka keppni fyrir þessi lið sem eðlilega hét utandeildarkeppni, og upp úr því fara að sjást dæmi um orðið utandeild. Í DV 1992 er fyrirsögnin „Úrslit í utandeild karla“. Í Íþróttablaðinu 1994 segir: „Liðin í neðri deildunum eru alltaf að styrkjast og utandeildin hefur að mörgu leyti tekið skussastimpilinn af 4. deildinni.“ Orðið er nú mjög algengt – hátt í tvö þúsund dæmi eru um utandeild í Risamálheildinni.

Rétt eins og utankjörfundur er upphaflega stytting á utankjörfundaratkvæðagreiðsla og hefur sömu merkingu er utandeild upphaflega stytting á utandeildarkeppni og hefur sömu merkingu. Sameiginlegt þessum orðum er að þau hefðu varla orðið til nema á þennan hátt – engum hefði dottið í hug að búa til samsetningarnar utan+kjörfundur og utan+deild „frá grunni“ ef svo má segja og þau eru í raun óskiljanleg nema út frá þessum uppruna. En um leið og þau komast í einhverja notkun hættir uppruninn að skipta máli og við hugsum ekkert út í hann – þetta eru þá bara eins og hver önnur orð sem lifa sínu sjálfstæða lífi, óháð upprunanum. Hvorugt orðið hefur þó komist í orðabækur en þetta eru gagnleg orð sem eiga fullt erindi í málinu.