Að _____ kaffi

Í gær spannst hér heilmikil umræða af spurningu um það hvort algengt væri og eðlilegt að segja hella á kaffi – fyrirspyrjandi kannaðist aðeins við hella upp á kaffi. Það síðarnefnda er vissulega venjulega orðalagið, en hinu bregður þó fyrir stöku sinnum – elsta dæmi sem ég finn um það er í ljóðabókinni Villirím eftir Steinunni Eyjólfsdóttur frá 1981: „Þau sömu eiga ekki alltaf / að hella á kaffið.“ Í DV 1982 segir: „var hlaupandi að hella á kaffi og missti þar af leiðandi heilan helling úr“. Í Eyjafréttum 1984 segir: „Hjalli í Dölum var inni að hella á kaffi.“ Í Víkurfréttum 1986 segir: „Matti í bókabúðinni lánaði aðstöðu til að hella á kaffi.“ En dæmin eru sárafá – ekki nema tuttugu í Risamálheildinni, þar af helmingur af samfélagsmiðlum.

En sambandið hella upp á kaffi er reyndar ekki ýkja gamalt. Elsta dæmi um það er í Vikunni 1945: „Frú Blom var búin að hella upp á kaffi, og allt í einu var áfengi komið á borðið.“ Næstu dæmi eru frá 1956 og fáein dæmi eru frá næsta aldarfjórðungi þar á eftir, en orðalagið verður ekki algengt fyrr en eftir 1980. Aftur á móti hafa samböndin hella á könnuna og hella upp á könnuna sem merkja það sama og hella (upp) á kaffi tíðkast og verið algeng síðan í lok nítjándu aldar. Elsta dæmi um það fyrrnefnda er í Norðurljósinu 1891: „Þegar ég var búin með nægju mína af skyrinu, var kerling búin að hella á könnuna.“ Elsta dæmi um síðarnefnda sambandið er í Iðunni 1886: „Þorbjörg var að enda við að hella upp á könnuna.“

Samböndin hella (upp) á könnuna og hella (upp) á kaffi vísa til þess að heitu vatni er hellt yfir malað kaffi í síu – áður var sían yfirleitt efst í könnu. Vegna þess að samböndin merkja það sama og eru mjög svipuð er ekkert undarlegt að þeim slái saman, þannig að hella upp á kaffi missi stundum upp og verði bara hella á kaffi, hliðstætt við hella á könnuna – raunar má halda því fram að atviksorðinu upp sé ofaukið í þessu sambandi. En oft er andlaginu líka sleppt og sagt bara hella (upp) á. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Þjóðviljanum 1945: „Ég var nýbúin að hella á, en það var svolítið farið að kólna.“ Mig minnir að hella á hafi verið það orðalag sem oftast var notað þegar ég var að alast upp í Skagafirði á sjöunda áratugnum.

En fleiri sagnir og orðasambönd eru notuð um þessa athöfn, m.a. laga kaffi en elsta dæmi um það á tímarit.is er í Þjóðviljanum 1910: „Húsbóndinn segir, að þér eigið að fara á fætur, klæða yður, og laga kaffið.“ Þetta hefur þó ekki alltaf þótt gott og líklega talið komið af lave kaffe í dönsku. Í Dagsbrún 1916 segir: „Einn af vinum ritstjóra þessa blaðs […] hefir fundið að því, að það væri slæm íslenzka að segja »laga« kaffi […]. Sá, sem þetta ritar, hefir aldrei heyrt neinn Íslending kalla það annað en að »laga« kaffi […].“ Sambandið laga kaffi hefur þó alltaf verið töluvert notað, og einnig afleidda nafnorðið kaffilögun – elsta dæmi um það á tímarit.is er í Dagblaði 1925: „Að sjálfsögðu koma aðeins leysanlegu efnin til greina við kaffilögunina.“

Eldra er þó að tala um að hita kaffi. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Ísafold 1880: „Þeir sem hafa stóra báta, hafa hús í apturenda (skut) og liggja opt úti fleiri dægur, hafa með sjer mat og hita kaffi o.s.frv.“ Þetta samband hefur einnig verið töluvert notað alla tíð og er enn – ég held að þetta sé það orðalag sem ég nota oftast. En enn eldra orðalag er að búa til kaffi – elsta dæmi um það er í Íslendingi 1860: „Hann kom litlu síðar, og afsakaði sig, að hann hefði eigi fyr komið, með því, að hann hefði verið í eldhúsinu að búa til kaffi.“ Þetta er sjaldgæfara en hin samböndin en hefur þó verið nokkuð notað alla tíð og ég nota það oft. Að auki eru örfá dæmi um brugga kaffi sem e.t.v. eru áhrif frá brew coffee í ensku, og einnig sjóða kaffi.

Elsta sambandið af þessu tagi virðist þó vera gera kaffi sem kemur fyrir í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „og láti aðeins elðakonu skreppa á fætur snemma til að gjöra þeim kaffi.“ En annars finn ég ekki dæmi um það fyrr en í Alþýðublaðinu 1995: „Eftir að hafa gert kaffi í djúpri pönnu að hætti útigangsmanna og útlaga Villta Vestursins sest hann niður.“ Í DV 1996 segir: „Eiginkonan kallar úr svefnherberginu hvort ég ætli ekki að gera kaffi.“  Sambandið hefur verið að breiðast út á síðustu árum og töluvert af dæmum um það frá þessari öld er að finna í Risamálheildinni. Ekki er ótrúlegt að þarna komið til áhrif frá enska sambandinu make coffee en ástæðulaust að fordæma sambandið þess vegna og sjálfsagt að fagna því fjölbreytta orðalagi sem í boði er.