Hvernig upplifið þið merkinguna í upplifun?
Sögnin upplifa og nafnorðið upplifun voru hér til umræðu í gær. Þessi orð hafa ekki alltaf þótt vönduð íslenska – í móðurmálsþætti Vísis 1956 sagði Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Sögnin að upplifa eitthvað er mjög notuð nú, en hún er tekin beint úr dönskunni, opleve noget. Hún fer illa í íslenzku, og samkvæmt ísl. málvenju virðist hún hljóta að merkja endurlifa, lifa eitthvað upp aftur. Fólk upplifir hið líklegasta og ólíklegasta, upplifir skemmtanir, upplifir daga, upplifir jafnvel störf. Ætti að forðast að taka þannig til orða, enda er auðvelt að komast hjá því.“ Seinna sama ár var sögnin aftur tekin fyrir í þættinum og sagt: „Ávallt er hægt að nota íslenzka sögn þar sem upplifa er notuð, svo sem lifa, reyna, þola, eiga, vinna o.s.frv.“
Sama gildir um nafnorðið upplifun en Baldur Jónsson benti á að viðskeytið -un væri yfirleitt aðeins notað til að mynda verknaðarnafnorð af sögnum sem enda á -aði í þátíð en ekki af svokölluðum ȇ-sögnum eins og lifa en frá því væru þó undantekningar. „Helst eru innlifun og upplifun, hálfdanskrar ættar, sbr. d. indleve og opleve (þar af ísl. upplifa) […]“ og Baldur taldi að í raun og veru væru „slík orð rangmynduð“. Elsta dæmi um upplifa á tímarit.is er frá 1893 en elsta dæmi um upplifun frá 1938. Tíðni beggja orða jókst lengi smátt og smátt, en mjög hratt eftir 1980 – alls eru yfir hundrað þúsund dæmi um sögnina og um fimmtíu þúsund um nafnorðið. Þetta er því enn eitt dæmi um að ábendingar í málfarsþáttum hafi lítið að segja.
En umræðan í gær snerist ekki um uppruna orðanna upplifa og upplifun heldur merkingu þeirra og notkun. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið skýrt 'góð eða áhrifarík reynsla sem maður verður fyrir' með dæminu tónleikarnir voru alveg einstök upplifun. Sögnin er skýrð 'verða fyrir ákveðinni reynslu' og eitt notkunardæmið er ‚amma hefur upplifað ýmislegt um dagana‘ sem fellur vel að skýringunni. En sögninni fylgja tvö önnur notkunardæmi – hann fór vestur til að upplifa magnaða orku jökulsins og hvernig upplifðuð þið skólagönguna á þeim tíma?. Í þessum dæmum er merkingin eiginlega frekar 'skynjun, tilfinning' en 'reynsla'. Vissulega er ekki alltaf mikill munur á þessu en hann getur samt verið mikilvægur.
Þessi merkingarmunur endurspeglast í setningagerðinni. Ef merkingin er 'reynsla' tekur upplifa oftast með sér nafnorð sem andlag – „Börn sem hafa upplifað hungursneyð þroskast ekki eðlilega“ segir í Morgunblaðinu 2017, „Það er ekkert auðveldara að upplifa trúnaðarbrot í nánu sambandi“ segir í Fréttablaðinu 2019. Ef merkingin er 'skynjun, tilfinning' getur upplifa einnig tekið nafnorðsandlag, eins og „Ég skil samt að hann upplifir höfnun“ í Vísi 2019, en oftast tekur hún samt persónu- eða ábendingarfornafn að viðbættum samanburðarlið eða aukasetningu, oft með þannig eða svo – „Starfsfólkið upplifði þetta sem vantraust“ segir í Vísi 2011, „Ég upplifi það þannig að fólk hafi fengið alla þá aðstoð sem það þurfti“ segir í Morgunblaðinu 2015.
Merkingin 'reynsla' er væntanlega eldri eins og orðabókaskýringar benda til, en 'skynjun, tilfinning' virðist vera aðalmerkingin í seinni tíð. Meginmunurinn er sá að reynsla er hlutlæg en skynjun eða tilfinning huglæg. Þess vegna er ekki hægt að draga reynslu í efa eða hafna henni nema með rökum en skynjun eða tilfinning er einstaklingsbundin – þar verður rökum ekki við komið á sama hátt. Umræðan í gær spratt einmitt af því að málshefjanda fannst orðin upplifa og upplifun iðulega notuð til að draga úr vægi þess sem sagt er – til að benda á að ekki væri um óumdeildar staðreyndir að ræða heldur einstaklingsbundna skynjun eða tilfinningu og gefa þar með í skyn, meðvitað eða ómeðvitað, að önnur hlið kynni að vera á málinu.
Um þetta er auðvelt að finna fjölda dæma. Í Morgunblaðinu 2007 segir: „Starfsfólk Tryggingastofnunar harmar að upplifun Rögnu Bjarkar af samskiptum við Tryggingastofnun skuli vera á þann veg sem hún lýsir.“ Í fyrirsögn í DV 2010 segir: „KB ráðgjöf harmar upplifun feðgina.“ Í Vísi 2016 segir: „Þykir mjög leitt að upplifun Helgu hafi verið á þennan veg.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2018 segir: „Stjórninni þykir leitt að upplifun fráfarandi starfsmanna hafi verið með þessum hætti.“ Á mbl.is 2020 segir: „Ragnar segir […] að honum þyki leitt að upplifun félagsmanna skuli vera með þessum hætti.“ Á Vísi 2024 segir: „Spítalinn telji afar miður að upplifun […] hafi verið sú að ekki væri hlustað á áhyggjur hennar og ábendingar.“
Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að nota upplifun og upplifa á þennan hátt, en það er hins vegar ljóst að þau sem tala um upplifun í þessum dæmum telja að umrædd upplifun sé ekki í fullu samræmi við staðreyndir. Það er vitanlega rétt að fólk upplifir hlutina oft öðruvísi en þeir eru í raun og veru, en upplifunin skiptir samt máli og það er mikilvægt að hlusta á hana og taka tillit til hennar. Þess vegna er óheppilegt ef orðin eru notuð til að draga úr vægi þess sem haldið er fram og jafnvel höfð um eitthvað sem ekki byggist á skynjun eða tilfinningu heldur beinlínis reynslu, eins og ef sagt er að það sé slæmt að fólk upplifi að það komist ekki að hjá lækni. Það er ekkert víst að orðin séu alltaf notuð svona viljandi, en mikilvægt að hafa þetta í huga.